[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Björgvin Páll Gústavsson , landsliðsmarkvörður í handknattleik, skýrði frá því á samfélagsmiðlum í gær að skorað hafi verið á sig að gefa kost á sér sem borgarstjóraefni í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor.

* Björgvin Páll Gústavsson , landsliðsmarkvörður í handknattleik, skýrði frá því á samfélagsmiðlum í gær að skorað hafi verið á sig að gefa kost á sér sem borgarstjóraefni í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Kveðst hann hafa fengið óvænt símtal frá þjóðþekktum einstaklingi kvöldið sem hann kom heim frá Evrópumótinu í Búdapest.

„[E]r ég efni í næsta borgarstjóra í Reykjavík? Ég hreinlega veit það ekki. Ef ég tæki slaginn þá væri það einna helst til þess að taka þátt í byltingu er kemur að málefnum barna. Það að merkja X við B, fyrir Björgvin og börnin er eitthvað sem hljómar allavega vel,“ skrifaði hann meðal annars.

*Franski knattspyrnumaðurinn Paul Pogba snýr aftur í leikmannahóp Man. Utd þegar liðið tekur á móti Middlesbrough í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í kvöld eftir að hafa verið frá í þrjá mánuði vegna meiðsla.

„Paul verður hluti af hópnum. Hann gæti jafnvel verið í byrjunarliðinu,“ sagði Ralf Rangnick , stjóri United, á blaðamannafundi í gær.

*Forráðamenn knattspyrnuliðs Vestra reyndu að fá Eið Smára Guðjohnsen , Ólaf H. Kristjánsson eða Heimi Hallgrímsson til að taka við liðinu eftir að Jón Þór Hauksson ákvað að hætta og taka boði Skagamanna um að þjálfa þá. Samúel Samúelsson , formaður meistaraflokksráðs karla hjá Vestra, staðfesti þetta við 433.is í gær. „Ég vissi fyrir fram að þetta væri langskot en ég vildi láta á það reyna. Metnaður okkar er mikill,“ sagði Samúel við 433.is. Þjálfararnir þrír eru allir án starfs um þessar mundir en höfnuðu allir boði Vestra.

* Jóhann Berg Guðmundsson landsliðsmaður í knattspyrnu verður ekki með Burnley gegn Watford í botnslag liðanna í ensku úrvalsdeildinni sem fram fer annað kvöld. Sean Dyche knattspyrnustjóri Burnley skýrði frá því í gær að Jóhann hefði fengið botnlangabólgu fyrr í vikunni og hann þurfti að fara í aðgerð á sjúkrahúsi af þeim sökum.