Pólflug Meðal leiguverkefna félagsins á nýliðnu ári voru 13 flugferðir til Suðurskautslandsins með vísindamenn og ferðafólk.
Pólflug Meðal leiguverkefna félagsins á nýliðnu ári voru 13 flugferðir til Suðurskautslandsins með vísindamenn og ferðafólk. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Icelandair Group tapaði fimm milljörðum á síðasta fjórðungi ársins 2021. Á þeim tíma flutti fyrirtækið 545 þúsund farþega, samanborið við 52 þúsund farþega á fjórða ársfjórðungi 2020.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Icelandair Group tapaði fimm milljörðum á síðasta fjórðungi ársins 2021. Á þeim tíma flutti fyrirtækið 545 þúsund farþega, samanborið við 52 þúsund farþega á fjórða ársfjórðungi 2020.

Tapið á fjórðungnum kom til viðbótar uppsöfnuðu tapi upp á átta milljarða á fyrstu þremur fjórðungum ársins og því nam heildartap ársins 13 milljörðum króna.

Tekjur félagsins á síðasta fjórðungi ársins námu 24,5 milljörðum króna og reyndust þrefalt hærri en á fjórða ársfjórðungi 2020. Heildartekjur ársins 2021 námu tæpum 75 milljörðum króna og jukust um 35% milli ára.

Eigið fé Icelandair nam 28,2 milljörðum í lok síðasta árs og hafði rýrnað um 1,3 milljarða milli ára. Eiginfjárhlutfallið stóð í 19% á sama tíma. Lausafjárstaða félagsins var sterk um áramót og var 56,9 milljarðar króna.

Bogi Nils Bogason fylgir ársuppgjörinu úr hlaði með þeim orðum að ár uppbyggingar sé að baki.

„Eftir að hafa einbeitt okkur að því í gegnum faraldurinn að verja mikilvæga innviði og þekkingu, sem og viðhalda sterkri fjárhagsstöðu, vorum við í góðri stöðu til að bregðast hratt við vaxandi eftirspurn. Með því að nýta sveigjanleika félagsins náðum við að laga okkur að stöðunni á hverjum tíma og auka flugið úr einungis 10 brottförum á viku til fjögurra áfangastaða snemma árs í 200 brottfarir á viku til 34 áfangastaða yfir hásumartímann.“

Bendir hann á að félagið hafi tekið að fjölga starfsfólki verulega á árinu, eftir harkalegan niðurskurð á árinu 2020. Þannig hafi um 1.000 nýir starfsmenn bæst í hóp þeirra sem eftir stóðu.

Á nýliðnu ári lauk fyrirtækið einnig við söluna á Icelandair Hotels og Iceland Travel.

Fraktin stærri en fyrir faraldur

Athygli vekur að fraktstarfsemi Icelandair er orðin umfangsmeiri en fyrir heimsfaraldur kórónuveirunnar. Þá jukust tekjur félagsins af leigustarfsemi á milli ára og reyndust 60% af því sem var fyrir faraldur.

Stefna á jafnvægi í rekstrinum

Bogi Nils segir fyrirtækið stefna á að skila jákvæðri afkomu á yfirstandandi ári og að EBIT-hlutfall verði 3-5%.

„Ýmsir þættir geta þó haft áhrif á rekstur og afkomu ársins, eins og möguleg áframhaldandi áhrif faraldursins á eftirspurn og sveiflur í eldsneytisverði.“