Vímuefni Rauði krossinn segir góða reynslu af verkefninu Frú Ragnheiði.
Vímuefni Rauði krossinn segir góða reynslu af verkefninu Frú Ragnheiði. — Morgunblaðið/Ófeigur
Rauði krossinn styður eindregið þingmannafrumvarp á Alþingi sem felur í sér að bann við vörslu neysluskammta vímuefna verði afnumið. Talað er um „afglæpavæðingu“ í því sambandi.

Rauði krossinn styður eindregið þingmannafrumvarp á Alþingi sem felur í sér að bann við vörslu neysluskammta vímuefna verði afnumið. Talað er um „afglæpavæðingu“ í því sambandi. Frumvarpið hefur komið fram á síðustu tveimur þingum en ekki hlotið afgreiðslu. Meðal þeirra sem lýst hafa andstöðu við frumvarpið við fyrri umfjöllun eru lögreglan og Læknafélag Íslands.

Í umsögn Rauða krossins segir að hann styðji þá stefnu að meðhöndla eigi vanda vímuefnanotenda í íslensku samfélagi í heilbrigðiskerfinu fremur en dómskerfinu. Góð reynsla sé af skaðaminnkunarverkefninu Frú Ragnheiði í Reykjavík, Akureyri og á Suðurnesjum. Með því að gera kaup og sölu neysluskammta vímuefna refsilausa taki íslenska ríkið „skref í átt að gagnreyndri og mannúðlegri nálgun við vímuefnanotkun og vímuefnavanda með skaðaminnkandi hugmyndafræði að leiðarljósi“.

Verði frumvarpið að lögum muni aðgengi jaðarsettra einstaklinga, sérstaklega þeirra sem glíma við erfiðan vímuefnavanda, að heilbrigðisþjónustu, félagslegri þjónustu og viðbragðsþjónustu aukast til muna. Mikilvægt sé að notendur vímuefna hafi greiðan aðgang að heilbrigðis- og velferðarþjónustu, án fordóma og jaðarsetningar.

Í umsögninni er þáttur lögreglu gagnrýndur með þeim orðum að dæmi séu um að einstaklingar sem glími við vímuefnavanda veigri sér við að hringja eftir bráðaaðstoð eða leita sér aðstoðar af ótta við að lögregla geri neysluskammta þeirra upptæka og/eða að vera handtekin vegna annars ólögmæts athæfis. Geti það jafnvel átt við í bráðatilfelllum eins og við ofskömmtun á vímuefnum, heimilisofbeldi eða annars konar ofbeldi. Segir Rauði krossinn að bæði notendur vímuefna og það starfsfólk heilbrigðis- og velferðarþjónustunnar sem starfar með þeim þurfi að geta rætt opinskátt um mál sín án þess að eiga á hættu að nauðsynleg velferðarmál geti jafnframt talist refsivert athæfi, þ.e.a.s. mál tengd neyslu vímuefna og vitneskja um neysluskammta. Það að tryggja að ekki verði hægt að fjarlægja neysluskammta af fólki sé mikilvægt öryggismál fyrir jaðarsetta einstaklinga og auðveldi einnig starfsfólki á vettvangi að þjónusta og styðja við einstaklinga sem glíma við vímuefnavanda út frá þeirra þörfum.

„Afglæpavæðing“
» Frumvarp um að gera vörslu neysluskammta vímuefna refsilausa í þriðja sinn til umfjöllunar á Alþingi
» Rauði krossinn vill meðhöndla vímuefnavanda fólks í heilbrigðiskerfinu fremur en dómskerfinu