Guðný Björnsdóttir fæddist í Kálfafellskoti í Fljótshverfi Vestur-Skaftafellssýslu 30. nóvember 1938. Hún lést á Dvalarheimilinu Sæborg Skagaströnd 20. janúar 2022. Foreldrar hennar voru Björn Stefánsson, f. 30.9. 1896, d. 7.7. 1988, og Valgerður Pálsdóttir, f. 7.10. 1909, d. 20.2. 2005.
Systkini Guðnýjar eru Páll, f. 1932, d. 2020. Stefán, f. 1934, Sveinn f. 1936, d. 2004. Guðjón, f. 1942, Snorri, f. 1944, og Málfríður, f. 1948.
Eiginmaður Guðnýjar var Sveinn Sigurbjörn Garðarsson, f. 7.10. 1934, d. 17.2. 2019. Börn Guðnýjar og Sveins eru: 1) Sigríður Björk, f. 1965, maki Ingvar Þór Jónsson. Börn þeirra eru a) Róbert Björn, f. 1997, sambýliskona Drífa Katrín Ásthildardóttir. b) Valgerður Guðný, f. 2000, sambýlismaður Guðmundur Andri Tryggvason. Fyrir átti Björk Evu Dögg, f. 1985, sambýlismaður Jóhann Gunnlaugsson. Börn þeirra eru Ísak Hrafn og Björk Diljá. 2) Birna, f. 1967, maki Slavko Viktor Velemir. Börn þeirra eru a) Helena Mara, f. 1991, sambýlismaður Elvar Geir Ágústsson, fyrir átti Helena Láreyju Möru. b) Stefán, f. 1994, sambýliskona Heiðrún Huld Finnsdóttir. Fyrir átti Birna Sveinþór Ara, f. 1982, maki Sigþúður Jóna Harðardóttir. Börn þeirra eru Ísidór Sölvi og Ísafold Sól. 3) Stefán, f. 1972, maki Hafdís Hrund Ásgeirsdóttir. Börn a) Daði Snær, f. 2002, sambýliskona Ragnheiður Sunna. b) Stefanía Hrund, f. 2006. c) Sædís Hrund, f. 2012.
Útför Guðnýjar fer fram frá Hólaneskirkju á Skagaströnd í dag, 4. febrúar 2022, kl. 14.
Elsku amma mín, mikið sem ég á eftir að sakna þín. Þú varst alltaf svo hlý og góð og mér leið alltaf svo vel í kringum þig, þú hafðir svo góða nærveru og maður fann alltaf hvað þér þótti vænt um mann. Ég er svo þakklát fyrir það að hafa átt ömmu eins og þig.
Það var alltaf svo fínt hjá þér og alltaf mikið af fallegum blómum sem þú hafðir svo gaman af, ég mun vera dugleg að hafa fín blóm heima hjá mér eins og þú og þá mun ég alltaf hugsa til þín amma mín.
Þú varst alltaf jafn glöð að sjá mann og þú sýndir öllu svo mikinn áhuga sem maður var að gera, mér þótti svo vænt um það.
Ég get ekki lýst því hvað það er sárt að kveðja þig og hversu mikið ég á eftir að sakna þín en ég er óendanlega þakklát fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Takk amma fyrir alla umhyggjuna sem þú gafst mér og öllum í kringum þig, ég mun aldrei gleyma því.
Valgerður Guðný
Ingvarsdóttir.