Skólameistarinn Margrét hefur stjórnað Hússtjórnarskólanum síðan 1998 en hyggst njóta lífsins í sumarbústað sínum þegar hún lætur af störfum.
Skólameistarinn Margrét hefur stjórnað Hússtjórnarskólanum síðan 1998 en hyggst njóta lífsins í sumarbústað sínum þegar hún lætur af störfum. — Morgunblaðið/Ásdís
Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is Skólameistari Hússtjórnarskóla Reykjavíkur, Margrét Dóróthea Sigfúsdóttir, lætur af störfum í byrjun sumars og hefur staða skólameistara því verið auglýst laus til umsóknar.

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Skólameistari Hússtjórnarskóla Reykjavíkur, Margrét Dóróthea Sigfúsdóttir, lætur af störfum í byrjun sumars og hefur staða skólameistara því verið auglýst laus til umsóknar. Margrét hefur stýrt skólanum síðan árið 1998 og því verða viðbrigði fyrir hana að segja skilið við skólann. „Þetta er óskaplega skrýtið en það er kominn tími á að hætta að vinna. Ég verð 75 ára núna í ár,“ segir skólameistarinn.

Hún segir að árin í Hússtjórnarskólanum hafi verið skemmtileg og gefandi. „Það er líka svo gott að vakna á hverjum morgni og hlakka til að fara í vinnuna. Það er óskaplega gaman að vera með ungu og áhugasömu fólki. Það er bara yndislegt. Húsið er líka svo fallegt og það er svo góður andi í því.“ Skólinn er til húsa á Sólvallagötu 12.

Námið við Hússtjórnarskólann segir Margrét að geti nýst mörgum. „Þetta er ekki bara til þess að verða húsmóðir, þetta er til þess að geta séð um sjálfan sig og vera sjálfum sér nægur. Allir þurfa að borða hollan mat en hvar eiga þeir að læra það? Maður þarf líka að læra að hugsa um fötin sín. Svo lærir maður að sauma, vefa og prjóna,“ segir hún.

„Ég vona að við fáum góðan skólastjóra sem er með áhugann og ákveðna sýn á þetta nám og þróun þess. Það verða náttúrulega alltaf breytingar með nýju fólki. Ég vona líka að skólinn fái pening til þess að endurnýja og laga húsið. Það er orðið illa farið.“

Skólinn hefur starfað óslitið frá 7. febrúar 1942 og á skólinn því 80 ára starfsafmæli á mánudag, 7. febrúar 2022.

Margrét segist á þessum tímamótum þurfa að læra að vera löt. „Maður er búinn að vinna fulla vinnu síðan 1967 og þá er skrýtið að hætta allt í einu að vinna.“ Hún lýkur störfum 1. júní og þá er förinni heitið í sumarbústað. „Ég ætla að njóta þess að vera til. Svo hef ég gaman af því að prjóna og lesa svo núna fer maður bara að gera meira af því. Mér finnst það hljóma vel.“