Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Atvinnurekanda voru á dögunum boðnar tíu milljónir króna ofan á kaupverð atvinnulóðar við Vellina í Hafnarfirði og bauðst kaupandi jafnframt til að greiða allan kostnað eiganda af lóðarkaupunum.
Atvinnurekandinn vildi ekki láta nafns síns getið en fyrirtæki hans gerði Hafnarfjarðarbæ tilboð í umrædda lóð árið 2019. Það fékk svo lóðina úthlutaða í fyrra.
Það var svo í fyrrahaust sem áhugasamur kaupandi fór að falast eftir lóðinni og bjóða verð sem var tugum prósenta yfir söluverðinu. Tilboðið var svo ítrekað en atvinnurekandinn kaus að halda lóðinni.
Hlýtur að birtast í verðinu
„Þetta bendir til lóðaskorts og er vísbending um hækkandi verð á atvinnuhúsnæði. Ef það skortir lóðir hlýtur það að segja til sín í verðinu,“ sagði atvinnurekandinn um markaðinn fyrir atvinnuhúsnæði.Ólafur Ingi Tómasson, formaður skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar, segir mörg ár síðan úthlutun atvinnulóða hófst í Hellnahrauni suðvestur af Vallahverfinu.