Samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps kom saman til fundar í vikunni þar sem ályktað var um samgöngur á svæðinu.
„Á sama tíma og Vestfirðir eru auglýstir sem einn af eftirsóknarverðustu áfangastöðum heimsins sumarið 2022, þá eru samgönguinnviðir á sunnanverðum Vestfjörðum ónýtir og að helstu náttúruperlum Vestfjarða, eins og Látrabjargi og Rauðasandi, liggja úr sér gengnir malarvegir,“ segir m.a. í ályktuninni.
Samráðsnefndin er vettvangur sveitarfélaganna tveggja til að fjalla um ýmis mál og hagsmuni sem sveitarfélögin tvö eiga sameiginleg. Í nefndinni sitja þrír kjörnir fulltrúar úr bæjarstjórn Vesturbyggðar og tveir úr sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps.
Leggur nefndin áherslu á að við endurskoðun samgönguáætlunar verði samgönguinnviðir á sunnanverðum Vestfjörðum bættir. Svæðið hafi setið á hakanum um áratugaskeið þegar kemur að vegaframkvæmdum. Þrátt fyrir að framlög til vegaframkvæmda á Vestfjörðum í heild sinni hafi aukist hafi sunnanverðir Vestfirðir setið eftir.
Tekið er dæmi um veginn um Mikladal, hann sé ónýtur, siginn og vegaxlir illa farnar. Bent er á að síðustu þrjá mánuði hafi orðið þarna fjórar bílveltur en þessi kafli sé fjölfarnasti vegur Vestfjarða. Hefja þurfi undirbúning að jarðgöngum undir Mikladal og Hálfdán.