Gunnlaugur Geirsson fæddist í Reykjavík 30. janúar 1940. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Grund 21. janúar 2022.

Foreldrar hans voru hjónin Hallfríður Kristín Björnsdóttir húsmóðir, f. 1900, d. 1978, og Geir Gunnar Gunnlaugsson, bóndi í Eskihlíð og síðar í Lundi í Kópavogi, f. 1902, d. 1995.

Systkini Gunnlaugs eru Friðrika Gunnlaug, f. 1935, og Geir Gunnar, f. 1945.

Gunnlaugur kvæntist Rósu Magnúsdóttur 28. des. 1963, f. 1940, d. 1983.

Börn Gunnlaugs og Rósu eru: 1) Geir Gunnar, f. 1966, synir: Gunnlaugur, f. 1994, og Benedikt, f. 2003. 2) Björn, f. 1968, dætur: Rósa, f. 1992, Anna María, f. 2000, og Amalía, f. 2005. Sonur Rósu: Dagur Björn, f. 2020. 3) Magnús Gylfi, f. 1969. 4) Aðalsteinn, f. 1973, dætur: Emilía, f. 1997, Sigrún Helena, f. 2003, og Rósa Birgitta, f. 2005.

Sambýliskona Gunnlaugs frá 1989 til dánardægurs Gunnlaugs er Malín Örlygsdóttir, f. 1950. Hennar börn og stjúpbörn Gunnlaugs eru: 1) Örlygur Smári, f. 1971, börn: Malín, f. 1998, Gunnar, f. 2002, og Jakob, f. 2002. Dóttir Malínar: Emma, f. 2020. 2) Bergþór Smári, f. 1974, dætur: Heba, f. 2000, og Hrönn, f. 2009. 3) Unnur Smári, f. 1980, börn: Tómas, f. 2005, Davíð, f. 2008, og Freyja Malín, f. 2011.

Gunnlaugur ólst upp við sveitastörf í Eskihlíð í Reykjavík, en um 1960 var býlið flutt í Lund í Kópavogi. Í menntaskólanum kynntist Gunnlaugur Rósu, sem varð konan hans.

Árið 1970 flutti fjölskyldan til Bandaríkjanna, þar sem Gunnlaugur hóf sérnám í líffærameinafræði og dvöldu þau þar til ársins 1974.

Haustið 1984 kynntust Gunnlaugur og Malín og urðu lífsförunautar upp frá því til dánardægurs Gunnlaugs.

Námsferill Gunnlaugs hófst í Grænuborg, Skóla Ísaks Jónssonar, Austurbæjarskóla og þaðan í Menntaskólann í Reykjavík, þar sem hann lauk stúdentsprófi árið 1960. Þá hóf hann nám í læknadeild Háskóla Íslands og lauk embættisprófi frá læknadeild árið 1967. Starfaði kandídatsárið og næstu ár á Íslandi sem unglæknir.

Á námsárum sínum í Bandaríkjunum starfaði Gunnlaugur á þremur spítölum: Medical College of Virginia hospitals í Richmond, Virginia, New England Deaconess Hospital í Boston, Massachusetts og Strong Memorial Hospital, Rochester, New York. Þegar til Íslands var komið hóf Gunnlaugur störf við Rannsóknarstofu Háskólans við frumurannsóknir, auk þess að starfa fyrir Krabbameinsfélag Íslands sem yfirlæknir árið 1976. Þar starfaði Gunnlaugur til ársins 1987, en sama ár stóð hann að stofnun rannsóknarstofu í frumumeinafræði og að rannsóknarstofu í vefjameinafræði árið 1991. Árið 1986 tók Gunnlaugur við embætti sem prófessor í réttarlæknisfræði við Háskóla Íslands, þar sem hann starfaði út sinn starfsferil. Meðal annarra verkefna sem Gunnlaugur tók að sér var ráðgjöf á vegum WHO á Filippseyjum og störf í Kosovo á vegum stríðsglæpadómstólsins í Haag. Gunnlaugur sinnti ýmsum trúnaðarstörfum, þ. á m. sem fulltrúi í læknaráði og sem formaður Félags norrænna réttarlækna.

Útför Gunnlaugs fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 4. febrúar 2022, og hefst athöfnin klukkan 13.

Á kveðjustund hugsa ég til bróður míns með þakklæti og kærleika.

Hann kom í heiminn þegar ég var fimm ára og ég man vel þegar mér var sagt að ég væri orðin stóra systir. Mér fannst ég vaxa töluvert, ég átti lítinn bróður sem ég gat montað mig af. Næstu sex sumur var ég í sveit og að hausti sá ég hvað honum hafði farið fram. Hann var svo duglegur og skýr, fallegi drengurinn með dökku augun og þykka mjúka hárið. Hann var allra yndi. Ég áttaði mig á því smátt og smátt að hann væri mér fremri að mannkostum, íhugull, greindur og rólegur og fór vel með gullin sín. Uppáhaldssöguna hans samdi mamma. Hún hét „Strákurinn sem mölvaði útvarpið“ og var um strák sem skemmdi alla hluti til að gá hvað væri innan í. En strákurinn sá að sér, gerði við allt sem hann hafði skemmt og varð sómamaður. Mér þótti þetta ótrúleg saga, að stráknum tækist að laga allt sem hann hafði brotið og bramlað en Gunnlaugur trúði því að það væri hægt að gera brotna hluti heila aftur. Hann átti líka bjartsýni, þessi skynsami maður sem hafði orð fyrir að vera óþarflega áhyggjufullur.

Bróðir minn átti að baki langa starfsævi. Hann valdi sér ábyrgðarmikið ævistarf sem reyndi á mannkosti, ekki síður en menntun. Í blóma lífsins missti hann Rósu sína frá fjórum ungum sonum. Það var þyngsta raunin. Gunnlaugur og Malín fóru að búa saman fyrir um 36 árum með börnum þeirra beggja. Allt myndarfólk sem hefur hlotið góða menntun og á glæsilega afkomendur.

Heilsan sveik illa síðustu árin og þá hófst barátta við illvígan, ólæknandi sjúkdóm. Ég bar gæfu til að vera með bróður mínum í dagdvöl í Múlabæ síðustu mánuði og kynnast því góða atlæti sem þar var. Við fengum tækifæri til að tala saman í rólegheitum því hann átti orðið erfitt um mál og það tók tíma að finna orðin og röddina. Alla daga var eitthvað gert til að hressa hugann og finna viðráðanleg verkefni, allir fengu athygli, virðingu og vinsemd. Þar var hjálp sem kom sér vel fyrir hann og okkur sem vildum stuðla að velferð hans en höfðum ekki þekkingu til. Malín hans stóð lengstu og erfiðustu vaktirnar gegnum þessi sjö þungbæru ár og fyrir það var hann innilega þakklátur. Þegar hann fór í hvíldarinnlögn á Grund stuttu eftir nýár komu vinir úr Múlabæ með það sem hann hafði ánægju af til dægradvalar og heimsóttu hann fram á síðasta dag. Þegar við systkinin vorum saman í skötuveislu í Múlabæ á Þorláksmessu vorum við aldeilis að njóta dagsins. Og ég hefði viljað sjá hann bróður minn á ballinu í vetur þegar hann dansaði glaður við dömurnar sem buðu honum upp hver af annarri. En við vissum að hverju dró. Við vorum þó ekki viðbúin, aðeins farin að hugsa fram á afmælið hans þegar hann sofnaði frá okkur.

Ég dáðist að þér alla tíð, bróðir minn. Þú varst afburðamaðurinn hógværi. Þú sýndir mér bróðurkærleik og virðingu alla tíð, þú stækkaðir mig. Ég elska kveðjuna þína: „Sæl, systir“ og sakna þín til æviloka.

Öllum ástvinum þínum sendi ég samúðarkveðjur og blessunaróskir og þeim sem studdu þig í baráttunni.

Þín systir,

Friðrika (Rikka).

Elsku besti bróðir minn.

Heimili okkar í æsku var í Eskihlíð A þar sem nú er Konukot og veitir þeim skjól er á þurfa að halda.

Við nutum líka skjóls í Eskihlíð A þrátt fyrir að þröngt væri um okkur, því margt var um manninn. Þar voru líka stríðshrjáðir einstaklingar sem að stríði loknu komu til landsins til að lifa og starfa fjarri rústum og eymd.

Þrátt fyrir þrengsli var yfrið nóg væntumþykja sem við nutum, þótt ekki væri kósíkvöld í boði enda þau þá ekki fundin upp.

Þú varst ötull í störfum við búskapinn og stundir milli stríða fóru í að læra fyrir skólann.

Námsárangur þinn bar þess ekki merki að hafa liðið fyrir búskaparannir, þvert á móti varstu alltaf í fremstu röð.

Það verður tæpast sagt að lífið hafi farið um þig mjúkum höndum, 43 ára misstir þú konu þína, Rósu Magnúsdóttur, frá fjórum sonum.

Það var ekki siður í þann tíð að flíka tilfinningum sínum, bera sorgir sínar á torg, heldur byrgja þær með sér í hljóði. Þetta var erfitt.

Sólargeisli í líf þitt var Malín Örlygsdóttir sem í 36 ár hefur verið þín stoð og stytta og nú síðustu ár borið með þér þungann af þessum illvíga sjúkdómi sem hrjáði þig hin síðustu ár.

Við Hjördís áttum oft góðar stundir saman í kaffi á Öldugötunni, hefðu mátt vera miklu fleiri.

Það er því miður meinloka margra að vera fullvissir um að vera eilífir, að það gefist nægur tími til að rækta vina- og ættartengsl seinna í „eilífðinni“ og gleyma sér svo við daglegt veraldlegt amstur. Og verða svo á stundum sem þessum harkalega varir við að öllu er skammtaður tími, stundum án uppsagnarfrests.

Þessi hræðilegi sjúkdómur, sem smám saman hefti tjáningarhæfni þína og fjarlægði þig frá öðrum, skildi þig eftir einan með sjálfum þér vanmegnugum til að taka þátt í samskiptum við þína nánustu, svipti þig lífsgæðum sem þú vissulega áttir skilið að fá að njóta eftir að hafa skilað farsælu ævistarfi.

Það var þér unun að leita á náðir J.S. Bach. Ég minnist dýrðlegra stunda með þér í Flórens þegar við gengum inn í kirkju þar sem orgeltónlist Bachs var leikin. Í þessari fornu kirkju gaf upplifunin, hvelfingin, hljómburðurinn, líkneski dýrlinganna og snilli alls handbragðs þar sterklega í skyn að nær komast dauðlegir menn ekki almættinu.

Á þessari kveðjustund velkjast í huga mér annars vegar léttir vegna lausnar sem þú hefur hlotið frá þeirri kvöl sem þessi illi sjúkdómur lagði á þig og svo sorgin yfir því að þurfa að sjá á eftir þér hverfa inn í þessa miklu óræðu móðu, sem skilar engum aftur.

Kæru bróðursynir, stjúpbörn og Malín, hér að neðan eru nokkrar línur um sorgina eftir föður okkar Geir G. Gunnlaugsson sem var okkur alltumlykjandi kærleikur.

Sorgin

Hún byrgir lífsins björtu hlið

það blæðir úr hjartasárum.

Er fækkar vina- og frændalið

þá fyllast augun tárum.

Gunnar bróðir og

fjölskylda, Vallá.

Góður vinur og samstarfsfélagi til margra ára, Gunnlaugur Geirsson, er látinn. Fregnin kom óvænt þótt ég hafi vitað að heilsu Gunnlaugs hafði hrakað síðustu ár.

Gunnlaugur var mikils metinn læknir, hann var brautryðjandi í frumumeinafræðirannsóknum á Íslandi og starfaði við það lengi vel hjá Krabbameinsfélagi Íslands og einnig í sjálfstæðum rekstri í mörg ár. Hann var árið 1991 einn stofnenda Vefjarannsóknarstofunnar, sem er rannsóknarstofa sjálfstætt starfandi meinafræðinga og hefur starfað í yfir 30 ár. Gunnlaugur vann þar að vefjarannsóknum í rúman áratug frá stofnun stofunnar.

Rannsóknarstofa Háskólans í meinafræði sem síðar varð meinafræðideild Landspítalans varð samt sem áður meginstarfsvettvangur Gunnlaugs. Eftir sérfræðinám í meinafræði á virtum sjúkrahúsum í Bandaríkjunum starfaði hann á Landspítalanum frá árinu 1974 í hlutastarfi ásamt því að verða svo yfirlæknir Frumurannsóknarstofu Krabbameinsfélagsins frá upphafi árs 1976. Í starfi sínu á Landspítalanum sá hann m.a. um að greina vefjasýni sem send voru frá tannlæknum og hann varð dósent við tannlæknadeild Háskóla Íslands.

Gunnlaugur var skipaður prófessor í réttarlæknisfræði við Háskóla Íslands í ársbyrjun 1986 og varð jafnframt réttarmeinafræðingur á Landspítalanum. Í því starfi sinnti hann margvíslegum verkefnum fyrir lögregluyfirvöld í landinu og var virkur í norrænu samstarfi réttarmeinafræðinga. Hann var „réttarmeinafræðingur Íslands“ í tæplega 20 ár, á þeim tíma þegar réttarmeinafræðin þróaðist frá því að vera hliðargrein við almenna meinafræði yfir í að vera alveg sjálfstæð sérgrein innan læknisfræðinnar. Mikið mæddi á Gunnlaugi í þessu starfi. Hann sá m.a. um að þróa starfsgreinina innanlands og kom að samningu laga og reglugerða á sviði réttarmeinafræði. Að vera í forsvari fyrir réttarmeinafræði í heilu landi er krefjandi starf fyrir einn mann.

Ég minnist Gunnlaugs sem skemmtilegs og mjög viðkunnanlegs starfsfélaga. Hann var fjölfróður, með áhuga á mörgu í okkar samfélagi og einnig af erlendum vettvangi. Hann hafði áhuga á bókmenntum og var mikill tungumálamaður. Hann lagði t.d. áherslu á að læra ítölsku, sem nýtt tungumál, á efri árum.

Það er mikill söknuður að elskulegum og góðum manni, Gunnlaugi Geirssyni, og votta ég aðstandendum hans innilega samúð.

Með kveðju frá meinafræðideild Landspítalans.

Jón Gunnlaugur

Jónasson yfirlæknir.

Á sínum tíma var oft um það rætt í hópi íslenskra meinafræðinga hvort ekki væri athugandi að stofna til sjálfstæðs reksturs í meinafræði hér á landi, svipað og tíðkaðist meðal annarra sérgreina læknisfræðinnar. Það varð þó ekki að veruleika fyrr en Gunnlaugur Geirsson tók af skarið og varð aðalhvatamaður að stofnun Vefjarannsóknastofunnar, sem sett var á stofn 1991, og var fyrstu árin í Glæsibæ. Það voru þrír meinafræðingar, þeirra á meðal sá sem þessa grein skrifar, og einn lífeindafræðingur auk Gunnlaugs sem stóðu að stofnun stofunnar, en tilgangur hennar var að greina vefjasýni sem tekin voru á læknastofum í Reykjavík. Stofan var ekki stór í byrjun en starfsemin hefur stöðugt orðið umfangsmeiri og er nú svo komið að á stofunni starfar fjöldi meinafræðinga og lífeindafræðinga í rúmgóðu húsnæði og sýnafjöldi aukist ár frá ári. Við stofnun stofunnar lögðu allir sitt af mörkum, innrétta þurfti húsnæði, kaupa tæki og semja við Tryggingastofnun og kom þá berlega í ljós að Gunnlaugur var maður framkvæmda, en hann hafði áður reynslu af sjálfstæðum rekstri í frumumeinafræði. Þetta var skemmtilegur tími og ég sé enn Gunnlaug fyrir mér þar sem hann var mættur með sín smíðatól er við vorum að innrétta fyrsta húsnæðið. Óhætt er að segja að stofnun stofunnar hafi orðið lyftistöng fyrir meinafræðina á Íslandi og aukið á fjölbreytileika hennar, en eins og fyrr segir má líta á Gunnlaug sem „guðföður“ hennar.

Auk starfa við Vefjarannsóknastofuna sinnti Gunnlaugur öðrum ábyrgðarmiklum störfum um ævina, var m.a. prófessor í réttarlæknisfræði við læknadeild Háskólans og meinafræðideild Landspítala um árabil. Það var alltaf gagnlegt sem og ánægjulegt að eiga samtal við Gunnlaug um hin ýmsu mál, hann var margfróður og víðlesinn, var það sem kalla mætti hugsandi maður, og brautryðjandi á ýmsum sviðum meinafræðinnar.

Við samstarfsfólk Gunnlaugs á Vefjarannsóknastofunni minnumst hans með virðingu og þakklæti og sendum Malín sem og allri fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

F.h. Vefjarannsóknastofunnar,

Bjarni A. Agnarsson.