Steingrímur Sigurður Jónsson var fæddur á fæðingarheimilinu við Eiríksgötu í Reykjavík 19. febrúar 1970. Steini lést á líknardeild LSH 12. janúar 2022 eftir snarpa en erfiða baráttu.
Heima í fjölskylduhúsinu við Nesveg á Seltjarnarnesi biðu pabbi hans, tveir ungir bræður, föðurforeldrar og tvær föðursystur. Foreldrarnir voru og eru Jón Hilmar Stefánsson og Elísabet Bjarnadóttir, bræðurnir Bjarni Hilmar og Stefán Hrafn, afinn Stefán M.Þ. Jónsson, amman Gyða Stefanía Grímsdóttir og föðursysturnar Stefanía (Dista) og Erla. Móðurforeldrarnir í Reykjavík voru Bjarni Vilhjálmsson og Kristín Eiríksdóttir og móðursystkinin Kristín, Eiríkur og Vilhjálmur. Steini var eftirlæti þeirra allra.
Steini var einhleypur og barnlaus. Auk foreldra sinna og bræðra lætur hann eftir sig bræðrabörnin Elísabetu Margréti, Birgittu Gyðu, Halldóru Veru, Írisi og og Vilhjálm Hrafn.
Steini ólst upp við Nesveginn fyrstu níu árin og síðan við Sefgarða, innfæddur og uppalinn Seltirningur. Hann gekk í Mýrarhúsa- og Valhúsaskóla og tómstundunum varði hann með vinum sínum Jökli og síðar Ellerti. Hann átti margar góðar stundir á Bókasafni Seltjarnarness og drakk þar í sig fróðleik. Þeir Ellert innrituðust í Verzlunarskóla Íslands og luku þaðan stúdentsprófi vorið 1990. Þá þegar hafði fræinu fyrir ferðaþrá verið sáð. Fyrstu ferðirnar um Evrópu fór hann með foreldrum sínum og bræðrum 5, 6, 7 og 10 ára gamall. Á verslunarskólaárum sínum átti hann kost á að sækja námskeið við University of Delaware og dvelja hjá fjölskyldu á vesturströnd Bandaríkjanna. Skólaferðalagið eftir Verzló var til Jamaíku. Steini hóf nám í rafmagnsverkfræði við HÍ. Ferðalag með samnemendum þar var til Japans.
Sumarið 1995 ákváðu þau Steini og fyrrverandi sambýliskona hans að undirbúa frekara nám í Danmörku. Steini starfaði í verksmiðju Danfoss í Nordborg á eyjunni Als úti fyrir strönd Jótlands um tíma og hóf svo nám við DTU, Danmarks Tekniske University, í Lyngby og lauk þaðan meistaraprófi sumarið 1999. Hann hafði komið heim á sumrin og starfað hjá ýmsum raforkufyrirtækjum. Eftir námið hóf hann störf hjá RARIK í Reykjavík og síðustu sjö árin á Akureyri. Stærsta og eflaust erfiðasta verk hans var þegar óveðrið mikla gekk yfir Norðurland í desember 2019, staurar brotnuðu og margar sveitir og bæir urðu rafmagnslaus í skemmri og lengri tíma. Steini var á skrifstofu sinni dögum saman og hélt utan um aðgerðastjórnun og starfsmenn sína. Steini komst í hnattferð um og eftir fimmtugsafmælið sitt. Löndin sem hann hafði heimsótt voru þá orðin yfir eitt hundrað.
Síðastliðið vor greindist Steini með illvígan sjúkdóm. Hann vissi í hvað stefndi en var ekki tilbúinn að láta undan. Hann fór í harðar lyfjameðferðir en samt vann hann fram á síðasta dag.
Síðasta ferðin er hafin.
Útför Steingríms fer fram frá Seltjarnarneskirkju í dag, 4. febrúar 2022, klukkan 13.
Með örfáum orðum langar mig að minnast Steingríms Jónssonar, vinar míns og frænda. Við Steini vorum systrabörn og skildu okkur aðeins 13 mánuðir að. Allt frá því að ég man fyrst eftir mér lék ég mér við frændur mína þá Steina, Stefán og Bjarna. Stundum leið langur tími án þess að við hittumst þar sem mín fjölskylda bjó úti á landi, en það var alltaf jafn gaman.
Seinna þegar við Steini vorum bæði komin í Háskóla Íslands hittumst við á ný og endurnýjuðum kynnin. Svo skemmtilega vildi til að við fluttum samtímis til Kaupmannahafnar og bjuggum á sömu stúdentagörðunum. Steini tók mig inn á sitt heimili á meðan ég beið eftir íbúð okkar hjóna og bar mig á höndum sér. Í framhaldinu vorum við í miklum samskiptum og skutumst oft á milli íbúða í smá kaffisopa og spjall. Það var alltaf hægt að treysta á að Steini ætti kaffi og hefði tíma fyrir frænku sína, bara ef ég lofaði að horfa fram hjá óreiðunni.
Seinna fluttum við hjónin til Norður-Jótlands, en við fylgdumst grannt hvort með öðru. Svo kom loksins að því að við fluttum aftur heim til Íslands og þá var Steini búinn að koma sér fyrir í fínu íbúðinni sinni á Lokastígnum. Þar var gott að koma í heimagert chili eða lasagna, sem Steini var þekktur fyrir.
Ekki minnkaði gestrisnin þegar Steini var fluttur til Akureyrar því fljótlega kom hann sér upp gestaherbergi og væri hann ekki sjálfur á staðnum þá bauð hann bara alla íbúðina. Við hjónin dvöldum hjá Steina í 5 daga sumarið 2019 á meðan yngsta barnið var á fótboltamóti. Alltaf voru dyrnar opnar og við máttum valsa út og inn eins og okkur lysti. Í lok dvalarinnar spurði hann hvort við vildum ekki bara taka lykil til að hafa þegar við kæmum næst.
En nú verður ekkert næst því Steini okkar er horfinn fyrir aldur fram. Þegar hann greindist með krabbamein í fyrravor og ég hringdi í hann sagðist hann ekki hafa viljað trufla mig og eyðileggja páskana fyrir mér og ætlaði því að hinkra með að færa mér þessi válegu tíðindi. Þannig var Steini: alltaf vakinn og sofinn yfir hag annarra. Hann var alltaf boðinn og búinn að hjálpa öðrum, en bað aldrei um neitt sjálfur. Steini var vinur vina sinna. Hann valdi vini sína vel, en við sem vorum svo heppin að geta kallað okkur vini hans máttum hrósa happi því traustari vin er erfitt að finna.
Steini nýtti tímann vel á sinni alltof stuttu ævi til að ferðast og það gerði hann með stæl. Hann ferðaðist um allan heim, ýmist einn á ferð eða með ferðafélaga/ferðafélögum. Það var einstaklega gaman að fylgjast með ferðaundirbúningi, sjá myndir og frásagnir meðan á ferðunum stóð og fá svo ferðasöguna í lokin. Hann náði að heimsækja allar heimsálfur, flestar oft og fara til vel yfir 100 landa.
Ég er þakklát fyrir allar þær stundir sem við áttum saman, spjallið, kaffisopana og hláturinn. Minningarnar um einlæga vináttu, einstaka gestrisni, hjálpsemi og hlýju munu ylja okkur um ókomna tíð.
Móðursystur minni Elísabetu, Jóni, Stefáni og Bjarna færi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Minning Steina mun lifa.
Valgerður Halldórsdóttir.
Steini var fimm ára þegar ég flutti til Danmerkur, en margar heimsóknir fjölskyldu minnar til heimalandsins og ferðir hans út í heim gerði að við hittumst oft. Ferðalöngunina hafði hann ekki langt að sækja, Nonni bróðir og Elísabet voru dugleg að fara með synina þrjá í ferðir til Evrópu, oft með viðkomu í Kaupmannahöfn.
Síðar var þörfin hjá Steina að fara á enn meira framandi slóðir og mörg eru þau lönd sem hann hefur heimsótt. Lönd sem margir hafa ekki farið til, svo sem Íran Norður-Kórea, Suðurskautið, já víðsvegar um heiminn lágu ferðir hans.
Steini var við nám við DTU Danmarks Tekniske Universitet í þrjú ár og þekkti því vel til landsins. Hann kom oft við í Kaupmannahöfn á ferðum sínum, annað hvort vinnunnar vegna, eða í leit að ævintýrum til framandi landa. Þá hringdi hann í okkur ef stoppið var stutt eða hann heimsótti okkur hingað til Hróarskeldu ef tími gafst til. Alltaf með bros á vör og glettni í fallegu brúnu augunum. Alltaf jákvæður og með góða kímnigáfu. Skemmtilegar heimsóknir sem við minnumst með gleði. Ógleymanleg eru póstkortin sem að hann sendi víðsvegar frá. Steini notaði ekki mörg orð sem kveðjur en nægilega mörg til að við vissum að nú væri hann á spennandi stað. T.d. á korti frá Mónakó stóð aðeins WROOOOOM, sagði allt um áhuga hans á Formúla 1-kappakstrinum.
Já, Steina verður sárt saknað.
Við sendum foreldrum hans, Jóni og Elísabetu og bræðrum hans Bjarna Hilmari og Stefáni Hrafni, okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Stefanía (Dista), Steen, Stefán Kristian og
Anders Jón.
Helga Jóhannsdóttir.
Árið 2014 ákvað hann að breyta til og var ráðinn í starf deildarstjóra rekstrarsviðs á Norðurlandi með aðsetur á Akureyri. Auk þess að stýra deildinni bar hann ábyrgð á rekstri dreifikerfis RARIK á Norðurlandi, var fulltrúi ábyrgðarmanns, yfirmaður svæðisvaktar, stýrði áætlanagerð og sá um samskipti við viðskiptavini, verktaka og opinbera aðila. Hann kom því að fjölmörgum verkefnum hjá fyrirtækinu, bæði í sérhæfðum tæknimálum, áætlanagerð og uppbyggingu, en einnig í rekstri, erfiðum bilunum og viðbrögðum við tjónum á dreifikerfinu. Síðasta stóra verkefnið á því sviði var í desember 2019 þegar verulegt tjón varð á dreifikerfinu á Norðurlandi. Steini var mikill félagsmálamaður, hafði áður en hann kom til RARIK m.a. verið í stjórn SÍNE, sambands íslenskra námsmanna erlendis. Hjá RARIK var hann virkur í starfi meðal starfsmanna, var m.a. formaður starfsmannafélagsins í Reykjavík 2001-2003 og síðar sameiginlegs félags allra rekstrarsvæða 2007-2009. Einnig formaður starfsmannaráðs RARIK um tíma, sat í samninganefnd stéttarfélags verkfræðinga og var fulltrúi verkfræðinga í samninganefnd háskólamanna við RARIK. Þá sat hann í stjórn RVFÍ og var m.a. formaður 2004-2005.
Steini var mjög áhugasamur tæknimaður og gat sökkt sér djúpt í tæknilegar pælingar og gat þá gleymt bæði stund og stað. Fyrir honum var vinnutími teygjanlegt hugtak og upphaf hans og endir ekki alltaf fastmótað. Áhuginn á verkefnunum var í fyrirrúmi.
Stuttu áður en Steini greindist með illvígan sjúkdóm ákvað hann að skipta um starfsvettvang hjá RARIK og hætta sem deildarstjóri með mannaforráð. Hann vildi komast nær tækninni og kerfisútreikningum og tók að sér að sinna sérhæfðum verkefnum sem tengjast búnaði aðveitustöðva sem var hans áhugasvið. Sjúkdómurinn tók hins vegar fljótt völdin og ekkert fékkst við ráðið. Á ótrúlega stuttum tíma var hann borinn ofurliði.
Nú þegar við kveðjum Steina félaga okkar og vin hinstu kveðju vil ég fyrir hönd fyrirtækisins þakka honum fyrir áralangt og óeigingjarnt starf fyrir RARIK og góða vináttu. Minningin um góðan dreng mun lifa lengi. Fjölskyldu hans allri sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Steingríms Jónssonar.
Tryggvi Þór Haraldsson.