Úkraína Volodymyr Zelensky og Recep Tayyip Erdogan við liðskönnun í Kænugarði í gær.
Úkraína Volodymyr Zelensky og Recep Tayyip Erdogan við liðskönnun í Kænugarði í gær. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, bauðst til þess í gær að halda leiðtogafund með Volodymyr Zelenskí, forseta Úkraínu, og Vladimír Pútín Rússlandsforseta til þess að reyna að finna lausn á Úkraínudeilunni.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, bauðst til þess í gær að halda leiðtogafund með Volodymyr Zelenskí, forseta Úkraínu, og Vladimír Pútín Rússlandsforseta til þess að reyna að finna lausn á Úkraínudeilunni.

Erdogan heimsótti í gær Kænugarð og ræddi þar við Zelenskí um deiluna, en Tyrkir seldu Úkraínumönnum á síðasta ári dróna, sem stjórnvöld í Moskvu fordæmdu og sögðu myndu nýtast til árása á aðskilnaðarsinna í austurhluta landsins. Undirrituðu forsetarnir nýtt samkomulag um framleiðslu frekari dróna í Úkraínu.

Zelenskí sagði fyrir sitt leyti að hann myndi fara hvert sem er til að ræða málin og leita friðsamlegra lausna á deilumálum Rússa og Úkraínumanna, en bæði Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Olaf Scholz Þýskalandskanslari hafa lýst því yfir að þeir útilokuðu ekki að ferðast til Moskvu til að ræða við Pútín um deiluna.

Rússar brugðust í gær harkalega við þeim tíðindum að Joe Biden Bandaríkjaforseti hygðist senda 2.000 hermenn til Evrópu og færa aðra 1.000 frá Þýskalandi til Rúmeníu. Sagði Alexander Grushko, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, að ákvörðunin væri „eyðileggjandi“ og myndi gera erfiðara að finna málamiðlanir á milli Rússa og vesturveldanna, en Kanadamenn sögðust í gær einnig vera að íhuga að senda hersveitir til Póllands og Eystrasaltsríkjanna.

Rússar brugðust einnig við ákvörðun þýskra stjórnvalda að loka fyrir útsendingar Russia Today, RT, á þýsku með því að loka skrifstofu þýsku sjónvarpsstöðvarinnar Deutsche Welle í Rússlandi. Þá voru blaðamannaleyfi starfsmanna hennar afturkölluð.

Sögðu þýsk stjórnvöld ákvörðunina óviðunandi, og að hún væri ekki sambærileg við ákvörðunina um að loka fyrir útsendingar RT, sem hefði ekki haft gilt útsendingarleyfi. Deutsche Welle er í eigu þýska ríkisins og sendir út á um 30 tungumálum, þar á meðal rússnesku.