Hrollur Þú stígur ekki tvisvar í sama fljótið.
Hrollur Þú stígur ekki tvisvar í sama fljótið.
Haustið 1977 fór ég í Háskólabíó að sjá kvikmyndina Leigjandann eftir Roman Polanski. Polanski lék sjálfur aðalhlutverkið í þessari mynd um ungan mann sem tekur á leigu íbúð í París.

Haustið 1977 fór ég í Háskólabíó að sjá kvikmyndina Leigjandann eftir Roman Polanski. Polanski lék sjálfur aðalhlutverkið í þessari mynd um ungan mann sem tekur á leigu íbúð í París. Leigjandinn á undan honum reyndi að svipta sig lífi með því að kasta sér út um glugga í íbúðinni. Skemmst er frá því að segja að hinn ungi maður verður fyrir ýmiss konar aðkasti og áhorfandinn á erfitt með að átta sig á því hvort hann er að glata glórunni eða sótt er að honum í raun.

Ég man að myndin fyllti mig ugg og ótta. Satt að segja var mér svo brugðið að í eina skiptið á ævinni íhugaði ég alvarlega að fara ekki aftur inn í bíósalinn eftir hlé, en lagði þó á djúpið.

Þessi mynd sat lengi í mér og þegar ég átti þess kost að sjá hana aftur löngu síðar greip ég tækifærið. Það merkilega er að nú fannst mér myndin ekki vitund hrollvekjandi. Í raun fannst mér hún frekar hallærisleg og botnaði ekki í því hvernig mér gat hafa runnið kalt vatn milli skinns og hörunds við að horfa á hana.

Ein ástæðan fyrir þessu var ef til vill að í fyrra skiptið sá ég Leigjandann í dimmum sal á stóru tjaldi, en í það seinna í litlu sjónvarpi. Ég hallast þó frekar að því að þarna hafi tíminn gert mér grikk og eftir þetta hugsa ég mig um tvisvar þegar ég á þess kost að sjá aftur bíómynd eða sjónvarpsefni, sem í minningunni er óviðjafnanlegt.

Karl Blöndal

Höf.: Karl Blöndal