Otto Tulinius vélvirkjameistari fæddist á Akureyri 18. mars 1939. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hlíð 15. janúar 2022. Foreldrar hans voru Carl Daníel Tulinius, f. 12. mars 1905, d. 25. nóvember 1968, og Halla Tulinius, f. 17. október 1914, d. 21. september 1999. Otto átti tvo bræður. Þeir eru Hörður Tulinius, f. 12. apríl 1936, d. 21. ágúst 1989 og Guðmundur Þórarinn Tulinius, f. 19. ágúst 1943.

Eftirlifandi eiginkona Ottos er Agnes Tulinius Svavarsdóttir, f. 30. október 1941. Foreldrar hennar voru Svavar Helgason, f. 26. desember 1912, d. 24. apríl 1978 og Helga Ingimarsdóttir, f. 25. nóvember 1914, d. 23. ágúst 2008. Börn Ottos og Agnesar eru: 1) Svavar Tulinius, f. 4. júní 1960, eiginkona hans Þórhalla Halldórsdóttir, f. 10. mars 1960. 2) Halla Kristín Tulinius, f. 26. nóvember 1962, eiginmaður hennar Guðjón Ingvi Geirmundsson, f. 22. september 1959. 3) Þórey Tulinius, f. 23. desember 1964, eiginmaður hennar Guðmundur Aðalsteinn Sigurðsson, f. 6. desember 1963. 4) Otto Karl Tulinius, f. 21. mars 1972, eiginkona hans Sigrún Finnsdóttir, f. 23. ágúst 1967. 5) Hlynur Tulinius, f. 12. maí 1975, eiginkona hans Rósa Hrefna Gísladóttir, f. 17. júní 1978. Afabörnin eru 17 og langafabörnin 18.

Otto gekk í Barnaskóla Akureyrar og Gagnfræðaskólann þaðan sem hann tók gagnfræðapróf. Otto sótti vélstjóranámskeið 1956-1957. Hann fór á sjó en fann að það átti betur við hann að vinna í landi. Hann lærði vélvirkjun í Iðnskólanum 1958-1959 og tók starfsnámið í Vélsmiðjunni Odda. Þar vann hann til ársins 1982 en þá stofnaði hann ásamt tveimur félögum fyrirtækið Kæliverk sem sérhæfði sig í kæli- og frystitækjum. Þar starfaði hann til ársins 2006 þegar fyrirtækið var selt. Eftir það var hann með þjónustu fyrir kælitæki, staðsett í bílskúrnum í Birkilundi þar til hann hætti alveg að vinna árið 2014 þá 75 ára gamall.

Otto ólst upp í Hafnarstræti 18 (Tuliniusarhúsinu). Þar byrjuðu þau Agnes búskap sinn en þau giftust 31. desember 1959. Fjölskyldan flutti 1965 í Vanabyggð 10a og 1987 í Birkilund 17. 2015 fluttu Agnes og Otto í Brekatún 2. 1993 byggðu þau bústað í Lundsskógi í Fnjóskadal.

Otto var virkur í skátahreyfingunni sem barn og fullorðinn. Hann stundaði skíði, frjálsar íþróttir og badminton. Golf var aðalíþrótt hans seinni árin, sem hann spilaði bæði á Akureyri og Lundsvelli. Otto hafði mikinn áhuga á veiði og stundaði bæði stang- og skotveiði. Otto var félagi í Kiwanis í nokkur ár. Otto og Agnes ferðuðust mikið bæði innan lands og utan.

Útför Ottos fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 4. febrúar 2022, kl. 13. Streymt verður á Jarðarfarir í Akureyrarkirkju – beinar útsendingar. Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlát

Í dag fylgjum við pabba síðasta spölinn. Óteljandi góðar minningar koma upp í hugann þegar horft er til baka. Pabbi var traustur og áreiðanlegur og gerði allt fyrir fólkið sitt. Hann var mikill fjölskyldumaður og hafa hann og mamma alla tíð lagt mikið upp úr samverustundum fjölskyldunnar. Það er í raun frekar skrýtið að hugsa og tala um pabba án þess að mamma komi einnig upp í hugann enda voru þau eitt allt frá því ég man fyrst eftir mér, deildu áhugamálum, fóru með okkur börnin í ótal ferðalög og veiðiferðir að ógleymdum öllum dýrmætu stundunum sem við áttum saman í bústaðnum. Þá hafa barnabörnin og barnabarnabörnin alltaf átt greiðan aðgang í afa- og ömmufaðm.

Elsku pabbi minn, þú hefur svo sannarlega markað líf mitt og átt stóran þátt í því hver ég er í dag. Öll góðu gildin sem þú lagðir inn hjá mér strax í barnæsku hafa fylgt mér og fest í sessi. Svo mikið að drengirnir mínir hafa þau einnig í sínu farteski. Það er svo fallegt hversu stoltir þeir verða þegar nefnt er hversu líkir þeir eru þér að svo mörgu leyti.

Við deildum saman áhugamálum, veiddum fugl og fisk, spiluðum golf og fylgdumst með enska boltanum og formúlunni þótt ég hafi nú stundum fengið á tilfinninguna að þú hafir meðvitað valið þér lið sem voru erkifjendur þeirra sem ég hélt með. En það gerði umræðuna bara fjöruga og skemmtilega.

Fjölskylduútilegurnar og veiðiferðirnar í Selá í Vopnafirði þegar ég var strákur eru mér ofarlega í huga. Farið var fótgangandi upp og niður með ánni þar sem ekki var hægt að fara um akandi nema rétt neðst á veiðisvæðinu og aflinn því borinn langa leið. Í minningunni arkaðir þú „fram á dal“ enda mikilvægt að nýta daginn sem best. Finnst mér eins og ég hafi tekið þrjú skref fyrir hvert skref sem þú tókst. Það var því þreyttur drengur sem lagðist á koddann að kvöldi en engu að síður jafn spenntur fyrir næsta degi. Óbilandi áhuga minn á skotveiði þakka ég þér, pabbi minn, og man ég eins og gerst hafi í gær þegar ég sótti fyrstu rjúpuna fyrir þig.

Golfið var þitt áhugamál í seinni tíð og er mér minnisstætt hversu mikla ánægju það gaf þér þegar mamma fór að spila með þér. Við tókum ófáa hringina saman og naut ég þess heiðurs að spila með þér síðasta hringinn áður en veikindin tóku yfir. Það kom mér á óvart hversu lengi þú hélst færninni í golfinu þrátt fyrir að hún hefði tapast á svo mörgum öðrum sviðum.

Þegar þú varst kominn á dvalarheimilið Hlíð áttum við áfram margar ánægjulegar samverustundir. Minningin um allt sem við brösuðum saman er mér dýrmæt og þú naust þess að fá að taka þátt og aðstoða við hin ýmsu verk á meðan heilsan leyfði.

Elsku pabbi, nú hefurðu fengið hvíldina. Minningin um yndislegan föður, afa og langafa mun lifa í hjörtum okkar allra. Við pössum mömmu.

Þinn sonur,

Otto Karl.

Í dag kveðjum við í hinsta sinn elskulegan tengdaföður minn, Otto Tulinius. Ég man eins og gerst hafi í gær þegar ég hitti ykkur Agnesi í fyrsta sinni fyrir 37 árum í Sörlaskjólinu í Reykjavík. Þar leigði Halla dóttir ykkar íbúð en við vorum nýbyrjuð að draga okkur saman. Ég var svolítið stressaður fyrir þessum fyrsta fundi en sú tilfinning hvarf á augabragði vegna elskulegs viðmóts ykkar. Það var upphaf vináttu okkar sem ekki hefur borið skugga á síðan. Alla tíð var dásamlegt að fylgjast með því hve samstiga og náin þið Agnes voruð. Þið voruð alltaf dugleg að heimsækja okkur, á höfuðborgarsvæðið og til Vestmannaeyja og við notuðum hvert tækifæri til að koma norður til ykkar. Síðan komuð þið margoft til okkar í Svíþjóð þau 11 ár sem við bjuggum þar. Þið voruð að sjálfsögðu strax mætt þegar við komum heim með börnin okkar frá Kólumbíu. Það var alltaf mikil tilhlökkun að fá ykkur í heimsókn. Þegar ákveðið var síðan að flytja heim árið 2000 kom ekki annað til greina en að flytja til Akureyrar þar sem afi og amma bjuggu. Þar bættist fjórða barn okkar í hópinn og hefur notið nærveru þinnar allt sitt líf.

Þegar heim kom vorum við loksins orðnir nágrannar og vináttan dýpkaði. Alltaf var hægt að stóla á þig varðandi ráð og hjálp með framkvæmdir og viðgerðir, aldrei kom ég að tómum kofunum hjá þér varðandi slíkt. Ég minnist allra ánægjulegu stundanna í Vanabyggð, Birkilundi og Brekatúni hér á Akureyri. Ekki síður í sumarbústaðnum í Lundsskógi þar sem þið áttuð ykkar yndisreit. Ógleymanlegar eru samverustundirnar jafnt að sumri sem vetri, sumarfríin, allar verslunarmannahelgarnar og páskarnir. Þú byggðir og hannaðir þar allt með þarfir Agnesar, barna ykkar, afa- og langafabarna í huga. Í bústaðnum varst þú í essinu þínu, glaður og alltaf í einhverjum framkvæmdum. Lékst við afabörnin, reistir barnahús, rólur og sandkassa, lagðir fótboltavöll, settir upp heitan pott og fleira. Allir aldrar fengu eitthvað fyrir sig og nú njóta langafabörnin þessa alls. Alltaf var nóg að borða hjá ömmu en við grillið og djúpsteikingarpottinn, þar sem hinar frægu afafrönskur voru steiktar, réðir þú ríkjum. Afabrauðið var svo ómissandi í morgunmat. Snyrtimennska, vandvirkni og reglusemi voru þínar ær og kýr. Hver hlutur átti sinn stað, öll verk unnin með þetta í huga. Ég hef reynt að tileinka mér þessa mannkosti þína gegnum árin. Gaman var að ferðast með ykkur Agnesi bæði innanlands og utan. Þú varst alltaf hraustur og vel á þig kominn enda íþróttakappi á unga aldri. Það var því mjög erfitt að sjá þig hverfa smám saman inn í heilbilunina, þennan hræðilega sjúkdóm sem rænir fólki frá fjölskyldu og vinum löngu áður en dauðinn knýr dyra. Það hefur verið erfitt að fylgja Höllu og Agnesi í gegnum þetta langdregna sorgarferli en nú hefur þú fengið hvíldina, kæri tengdafaðir. Ég bið allar góðar vættir að styrkja Agnesi tengdamóður og alla afkomendur ykkar í sorg sinni. Hvíldu í friði, elsku vinur.

Þinn tengdasonur,

Guðjón Ingvi.