Axarvegur Svona gæti vegurinn litið út í lok framkvæmda eftir um þrjú ár. Veggjöld verða innheimt upp í kostnað.
Axarvegur Svona gæti vegurinn litið út í lok framkvæmda eftir um þrjú ár. Veggjöld verða innheimt upp í kostnað. — Tölvumynd/Vegagerðin
Vegagerðin efnir fyrir hádegi í dag til kynningarfundar vegna fyrirhugaðs útboðs á nýjum vegi yfir Öxi á Austurlandi. Verkefnið felur í sér fjármögnun, hönnun nýrrar legu vegarins, framkvæmd verksins, viðhald og umsjón hans til allt að 30 ára.

Vegagerðin efnir fyrir hádegi í dag til kynningarfundar vegna fyrirhugaðs útboðs á nýjum vegi yfir Öxi á Austurlandi. Verkefnið felur í sér fjármögnun, hönnun nýrrar legu vegarins, framkvæmd verksins, viðhald og umsjón hans til allt að 30 ára. Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að forsendur hönnunar eru m.a. fyrirliggjandi forhönnun og hönnunarforsendur sem byggjast meðal annars á niðurstöðum umhverfismats.

Að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, hljóðar kostnaðaráætlun verksins upp á um sex milljarða króna. Gert sé ráð fyrir þriggja ára framkvæmdatíma. Hugmyndin er að veggjöld verði innheimt af notendum upp í kostnað en ekki liggur fyrir hver upphæð þeirra yrði.

Núverandi vegur um Öxi er hlykkjóttur malarvegur á milli Djúpavogs og Héraðs. Á veginum er ekki vetrarþjónusta og er hann aðeins opinn hluta úr ári. Axarvegur hinn nýi verður 20 km langur, tveggja akreina, klæddur bundnu slitlagi. Hann kemur til með að liggja frá gatnamótum Skriðdals og Breiðdalsvegar að tengingu við Berufjarðarbrú. Vegur mun liggja hæst í um 520 metra hæð yfir sjávarmáli, eins og núverandi vegur. Gert er ráð fyrir að minnsta kosti einni brú á leiðinni, yfir Berufjarðará, en hugsanlegt er að hönnun leiði í ljós að hagkvæmt sé að hafa brýr í stað ræsa og fyllinga á fleiri stöðum.

Heildarefnisþörf jarðefna er áætluð rétt tæplega 1,4 milljónir rúmmetra, en gert er ráð fyrir að stærstur hluti þess efnis komi úr skeringum í vegstæði.