Vatnsfrek Enn er hægt að skella sér í heitan pott í Selfosslaug.
Vatnsfrek Enn er hægt að skella sér í heitan pott í Selfosslaug. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Íbúar í sveitarfélaginu Árborg hafa verið hvattir til þess að huga að sínum enda hitaveitunnar og fara sparlega með vatn. Auk þess hefur sundlauginni á Stokkseyri verið lokað og verður hún lokuð fram yfir helgi.

Íbúar í sveitarfélaginu Árborg hafa verið hvattir til þess að huga að sínum enda hitaveitunnar og fara sparlega með vatn. Auk þess hefur sundlauginni á Stokkseyri verið lokað og verður hún lokuð fram yfir helgi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Selfossveitum en hlutverk þeirra er að tryggja afhendingaröryggi á heitu vatni í Árborg.

Sigurður Þór Haraldsson veitustjóri segir þó að ekki sé um eiginlegan vatnsskort að ræða heldur séu þetta fyrirbyggjandi aðgerðir vegna yfirvofandi kuldatíðar.

„Þetta eru vægustu aðgerðirnar í viðbragðsáætluninni að biðla til íbúa að hafa þetta í huga og við finnum strax töluverðan mun.“

Ef á þyrfti að halda mætti síðan loka sundlauginni á Selfossi til að tryggja íbúum heitt vatn.

Ástæðan fyrir lokun sundlaugarinnar á Stokkseyri er sú að flutningsgeta lagnar sem liggur niður á Eyrarbakka og Stokkseyri er stundum komin að þolmörkum. „Í gegnum þessa kuldatíð ákváðum við að loka sundlauginni til þess að minnka álagið á kerfið í heild sinni. En þetta stendur til bóta strax næsta sumar, við erum að fara að byggja nýja dælustöð fyrir ströndina og endurnýja lögnina í áföngum.“