Hvíta húsið Biden greinir fjölmiðlum frá falli al-Qurashis í gær.
Hvíta húsið Biden greinir fjölmiðlum frá falli al-Qurashis í gær. — AFP
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í gær að Bandaríkjaher hefði náð að fjarlægja mikla hryðjuverkaógn þegar Abu Ibrahim al-Hashimi al-Qurashi, leiðtogi Ríkis íslams, ákvað að sprengja sjálfan sig og fjölskyldu sína í loft upp fremur en að vera...

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í gær að Bandaríkjaher hefði náð að fjarlægja mikla hryðjuverkaógn þegar Abu Ibrahim al-Hashimi al-Qurashi, leiðtogi Ríkis íslams, ákvað að sprengja sjálfan sig og fjölskyldu sína í loft upp fremur en að vera handsamaður af bandarískum sérsveitarmönnum.

Fall al-Qurashis er sagt vera mesta áfallið sem hryðjuverkasamtökin hafa orðið fyrir frá því að Abu Bakr al-Baghdadi, forveri hans, féll fyrir eigin hendi í svipuðum aðgerðum árið 2019.

Biden sagði að ákvörðun al-Qurashis að drepa sjálfan sig og fjölskyldu sína, í stað þess að gefast upp eða hirða um líf ástvina sinna, hefði verið „lokagjörð örvæntingarfulls heigulsháttar“. Mannfallstölur voru nokkuð á reiki í gær, og var talið að á bilinu tvö til sex börn hefðu fallið í sjálfsvígssprengingunni, en auk þeirra féllu bæði Qurashi og eiginkona hans.

Biden sagði einnig að aðgerð sérsveitanna hefði sent skýr skilaboð til hryðjuverkamanna um víða veröld. „Við munum elta ykkur og finna ykkur.“ Þá myndu hersveitir Bandaríkjamanna vera áfram á verði í baráttunni gegn hryðjuverkum.

Í máli Bidens kom einnig fram að ákveðið hefði verið að senda sérsveitarmenn frekar en að gera loftárás á staðsetningu al-Qurashis, þar sem vitað var að hann hefði umkringt sig börnum.

Rússar sendu frá sér sérstaka yfirlýsingu vegna árásarinnar, og fögnuðu þar því að al-Qurashi væri fallinn. Sagði í yfirlýsingu rússneska utanríkisráðuneytisins að það fagnaði öllum andhryðjuverkaaðgerðum annarra ríkja, þar á meðal Bandaríkjanna og bandamanna þeirra.

Ráðuneytið kallaði hins vegar einnig eftir rannsókn á mannfallinu sem fylgdi sjálfsvígi al-Qurashis ef það kæmi í ljós að óbreyttir borgarar hefðu verið þar á meðal.