Þingvallavatn Leitin hafði í gærkvöldi verið afmörkuð við syðsta hluta Þingvallavatns, Lyngdalsheiði og svæðið vestur af Úlfljótsvatni. Fjórir voru um borð í vélinni, að meðtöldum flugmanni.
Þingvallavatn Leitin hafði í gærkvöldi verið afmörkuð við syðsta hluta Þingvallavatns, Lyngdalsheiði og svæðið vestur af Úlfljótsvatni. Fjórir voru um borð í vélinni, að meðtöldum flugmanni. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skúli Halldórsson Ari Páll Karlsson Umfangsmesta leit síðari ára hófst í gær eftir að ljóst varð að lítillar flugvélar var saknað.

Skúli Halldórsson

Ari Páll Karlsson

Umfangsmesta leit síðari ára hófst í gær eftir að ljóst varð að lítillar flugvélar var saknað.

Fjórir voru um borð, flugmaður vélarinnar auk þriggja farþega, sem samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru erlendir ferðamenn sem komu hingað til lands á laugardag í vinnuferð.

Síðast sást til vélarinnar vestur af Úlfljótsvatni klukkan 11.45 fyrir hádegi í gær.

Þegar Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöldi hafði leitarsvæðið verið afmarkað við syðsta hluta Þingvallavatns, Lyngdalsheiði og svæðið vestur af Úlfljótsvatni.

„Þar er mestur þunginn miðað við þær upplýsingar sem við höfum,“ sagði Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar. Nota átti þyrlu Gæslunnar við leitina til miðnættis, vegna hvíldarákvæða. Í framhaldinu myndi ein þyrla ásamt áhöfn vera til taks, ef þörf þætti á.

Mikill kraftur settur í leitina

Allar björgunarsveitir landsins hafa verið kallaðar út og um sjö hundruð manns voru við leit þegar mest lét í gærkvöldi. „Þetta er með fjölmennari leitum hin síðari ár, ef litið er til þess fjölda björgunarsveitarfólks sem tekur þátt í leitinni og þeirra sem að henni koma. Þannig að það er mikill kraftur settur í leitina.“

Halda átti leitinni áfram af fullum þunga inn í nóttina, að því er Davíð Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, tjáði Morgunblaðinu. „Það er von á versnandi veðri á næsta sólarhringnum og við erum náttúrlega í kappi við tímann,“ sagði Davíð á ellefta tímanum í gærkvöldi. „Menn eru algjörlega með augað á verkefninu og vilja bara halda áfram af fullum þunga.“

Vélin er fjögurra sæta og af gerðinni Cessna C172. Hefur flugmaðurinn nýtt hana til útsýnisflugs með ferðamenn, eins og raunin var í gær. Var í flugplani hennar gert ráð fyrir tveggja tíma flugi.