29 Snorri Einarsson við keppni í 30 kílómetra skiptigöngu í gærmorgun.
29 Snorri Einarsson við keppni í 30 kílómetra skiptigöngu í gærmorgun. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÓL 2022 Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.is Snorri Einarsson keppti í gær fyrstur af Íslendingunum fimm sem taka þátt á Vetrarólympíuleikunum í Peking þegar hann tók þátt í úrslitum 30 kílómetra skiptigöngu. Í henni er byrjað á að ganga 15 kílómetra með hefðbundinni aðferð, þá er skipt um skíði og síðari hlutinn genginn með frjálsri aðferð. Snorra gekk afar vel og hafnaði hann í 29. sæti, sem er jafnbesti árangur íslensks keppanda í skíðagöngu á Ólympíuleikum frá upphafi. Ívar Stefánsson náði sama árangri á leikunum í Ósló árið 1952.

ÓL 2022

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Snorri Einarsson keppti í gær fyrstur af Íslendingunum fimm sem taka þátt á Vetrarólympíuleikunum í Peking þegar hann tók þátt í úrslitum 30 kílómetra skiptigöngu. Í henni er byrjað á að ganga 15 kílómetra með hefðbundinni aðferð, þá er skipt um skíði og síðari hlutinn genginn með frjálsri aðferð. Snorra gekk afar vel og hafnaði hann í 29. sæti, sem er jafnbesti árangur íslensks keppanda í skíðagöngu á Ólympíuleikum frá upphafi. Ívar Stefánsson náði sama árangri á leikunum í Ósló árið 1952.

Snorri kom í mark á 1:22:50,1, sex mínútum og 40 sekúndum á eftir Rússanum Alexander Bolshunov sem krækti í ólympíugullið.

„Fyrir fram var markmiðið að ná topp 30 en undirbúningurinn var svolítið flókinn hjá okkur. Við fengum ekki að fara mikið út að æfa eða keppa. Ég er mest búinn að vera heima að skipta á bleyjum og svo æfa eins mikið og ég get með fjögur börn og æfandi á Íslandi, þar sem veðrið er upp og niður. En það hefur nú alveg gengið vel. Ég var ekki alveg viss hvar ég stæði áður en við byrjuðum en svo var svolítið íslenskt veður, mikill vindur og smá kuldi.

Mér finnst það bara fínt en það er örugglega mörgum sem finnst það ekki. Ég var með mjög góð skíði og átti fínan dag. Mér gekk eiginlega betur í hefðbundnu aðferðinni en ég bjóst við því í henni vorum við mest óvissir um hvar ég stæði. Ég var í 28. sæti á Tour de Ski fyrir jól með frjálsri aðferð en mér var ekki búið að ganga eins vel með hefðbundna aðferð,“ sagði Snorri í samtali við Morgunblaðið.

Ekki verri í vindi

Snorri ræsti í 44. sæti og komst alla leið upp í 25. sæti þegar gangan var rétt tæplega hálfnuð, er hann studdist við hefðbundna aðferð, áður en 29. sæti reyndist niðurstaðan. Hann minntist á vindinn í Peking í gær. Telur Snorri að aðstæðurnar hafi hjálpað sér?

„Ég er allavega ekkert verri í vindi. Margar af mínum bestu frammistöðum hafa komið þegar það er vindur, ég veit ekki alveg af hverju en að vísu æfi ég örugglega töluvert meira í vindi en flestir sem eru að keppa hér. Þannig að ég er alveg undirbúinn í svoleiðis aðstæður, er búinn að prófa þær oft,“ sagði hann.

Mikill léttir

Snorri er bjartsýnn á framhaldið og kveðst sérlega ánægður með að vera í það minnsta búinn að ná að keppa í einni grein á leikunum, sem honum hafi í þokkabót gengið vel í. „Það er mikill léttir að vera a.m.k. búinn að gera vel einu sinni því það eru kórónuveiruskimanir allan tímann meðan á keppni stendur.

Ef ég fengi veiruna gæti ég ekki keppt meira þannig að það er mjög gott að hafa náð þessu. Ef ég fengi Covid núna væri það því ekki alveg hræðilegt. En liðakeppnin í sprettgöngu er mjög skemmtileg og 15 kílómetra gangan líka. Mér gekk vel og ég er ánægður í dag þannig að ég er bara jákvæður fyrir framhaldinu,“ sagði hann við Morgunblaðið.

Smit í íslenska hópnum

Á laugardag tilkynnti ÍSÍ að einn íslensku ólympíufaranna, skíðamaðurinn Sturla Snær Snorrason, hefði greinst smitaður af kórónuveirunni. Er hann því í einangrun í ólympíuþorpinu í Peking um þessar mundir og mun dvelja þar næstu daga. Smitið hefur ekki haft áhrif á aðra íslenska keppendur.

Sturla Snær á enn möguleika á að keppa í greinunum tveimur sem hann er skráður í á leikunum. Keppni í stórsvigi fer fram 13. febrúar og keppni í svigi 16. febrúar. Framvísi Sturla Snær nokkrum neikvæðum PCR-prófum í röð má hann keppa, samkvæmt reglum leikanna.