Friður helst ekki nema öflug ríki stuðli að honum en ógni ekki

Augu heimsins beinast, sem von er, að ástandinu á landamærum Rússlands og Úkraínu og hættunni á innrás Rússlands, sem óhætt er að segja að sé yfirvofandi þó að óvíst sé að af henni verði. Ef til vill ætla Rússar sér ekki að gera innrás og eru aðeins að styrkja stöðu sína í samningum gagnvart vesturveldunum. En tilburðir eins og Rússar sýna við landamæri Úkraínu geta þó endað með átökum hvort sem þau hafa þegar verið ákveðin eða ekki. Þetta er því í besta falli stórhættulegur pólitískur leikur sem gæti endað með ósköpum.

Ógnanir sem að nokkru leyti eru af sama meiði eiga sér stað víðar þó að minna beri á þeim enda af annarri stærðargráðu. Þar má nefna vopnaskak Norður-Kóreu, sem í janúar stóð fyrir níu eldflaugatilraunum, þar með talið skoti á öflugustu flaug sem ríkið hefur sent á loft í nokkur ár. Samhliða þessum tilraunum var gefið til kynna að tilraunir með langdrægar flaugar og kjarnorkuvopn gætu verið á dagskránni, sem ætti að verða til þess að heimsbyggðin tæki sig saman, herti tökin og gerði harðstjóranum Kim Jong-un ljóst að við þetta yrði ekki unað.

Afstaða Rússa getur haft töluvert að segja um þróunina í Norður-Kóreu en Kína er í lykilstöðu til að hafa áhrif á þetta hættulega ríki. Viðbrögð Kína vegna vopnaskaksins voru þó vonbrigði. Skilaboðin þaðan voru þau að sýna yrði Norður-Kóreu meiri sveigjanleika. Aukinn sveigjanleiki er fjarri því að vera þau skilaboð sem glæparíki á borð við Norður-Kóreu skilur best. Ríki sem stundar tölvuárásir á heimsbyggðina og fjármagnar sig að stórum hluta með netglæpum til að halda uppi vopnaframleiðslu en sveltir þjóð sína á sama tíma er ekki líklegt til að láta af ofbeldinu ef því verður gefið aukið svigrúm.

Kínversk og rússnesk stjórnvöld ættu að standa með öðrum ríkjum, bæði öðrum nágrönnum Norður-Kóreu og vesturveldunum, við að þvinga stjórnvöld í Norður-Kóreu til að láta af þessu háttalagi og haga sér friðsamlega. Náist slík breyting fram er hægt að aðstoða þjóðina vegna þeirrar fátæktar sem stjórnvöld hafa komið henni í, annars eru allar tilraunir í þá átt því miður dæmdar til að mistakast og gera illt verra.

Annað varasamt ríki sem Kínverjar og Rússar geta haft jákvæð áhrif á en kjósa þess í stað að standa með og styðja er Íran. Klerkastjórnin í Íran hefur stuðlað að ófriði í Mið-Austurlöndum um árabil og eftir að fá afhentar fúlgur fjár í órekjanlegum seðlum í tíð Obama forseta og Bidens varaforseta, varð ríkið enn hættulegra en fyrr. Þessar greiðslur voru hluti af því sem þáverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum og víðar töldu nauðsynlegt að reiða af hendi til að koma á eðlilegum samskiptum við Íran og fá ríkið til að hætta kjarnorkubrölti sínu, en dugði vitaskuld ekki til.

Nú hefur Biden forseti ákveðið að halda áfram á sömu braut, sem er vissulega líka í ágætu samræmi við tilefnislausan flóttann frá Afganistan, og taka skref í átt að afléttingu þvingana gagnvart Íran. Þetta felur meðal annars í sér að önnur ríki og fyrirtæki geta tekið þátt í uppbyggingu borgaralegrar kjarnorkuáætlunar Írans án þess að eiga á hættu refsiaðgerðir Bandaríkjanna, en hluti af þessari áætlun er uppbygging birgða af auðguðu úrani. Þetta á ekki að duga til að Íranar geti smíðað sér kjarnorkuvopn, en færir þá nær því.

Athygli vekur að þessar tilslakanir eru gerðar án þess að umheimurinn fái nokkra tryggingu á móti, hvað þá eftirlit með því sem fram fer í Íran. Bandaríkjamenn eru aðeins með þessu að „komast að borðinu“ eins og stundum er sagt þegar mikið er gefið eftir fyrir lítið eða ekkert. Þeir verða mögulega beinir þátttakendur í viðræðunum um málefni Írans í Vínarborg þegar samningamenn Bretlands, Kína, Frakklands, Þýskalands og Rússa snúa aftur þangað eftir fundarhlé að hitta fulltrúa Írans. Þeir síðastnefndu gáfu raunar lítið fyrir tilslakanir Bidens. Þær væru jákvætt skref en dygðu ekki til. Íranar gera ríkar kröfur fyrir sig, fyrirstaðan er lítil hjá öðrum ríkjum og jafnvel eindreginn stuðningur frá Rússlandi og Kína.

Þetta er hættuleg þróun. Ríki heims ættu að standa saman um að tryggja frið og leiðin til þess er ekki að ríkjum á borð við Norður-Kóreu og Íran verði hleypt í hóp kjarnorkuvelda eða að þeim verði gert kleift að ýta undir ógn og ófrið í nágrenni við sig. Öflug ríki á borð við Bandaríkin, Kína og Rússland ættu að sjá að þeirra eigin hagsmunum og heimsins er best borgið með því að þau standi saman að því að hemja ríki af þessu tagi í stað þess að nota þau sem peð í varasömu valdatafli sínu. Og þau ættu að sjálfsögðu að sýna gott fordæmi sjálf með því að stuðla að friði í eigin heimshluta í stað þess að halda uppi ógn og stuðla jafnvel beinlínis að ófriði. Því fylgir mikil ábyrgð að hafa mikil áhrif en því fer fjarri að þau ríki sem mikil áhrif hafa nú um stundir standi undir þeirri ábyrgð.