30 ÁRA Ólafur fæddist í Reykjavík en ólst upp í Hveragerði. „Ég hefði ekki getað hugsað mér betri stað til að alast upp á.“ Ólafur fór í MR eftir grunnskólann. „Ég var í Gettu betur-liði skólans og það fór allur okkar frítími í það.
30 ÁRA Ólafur fæddist í Reykjavík en ólst upp í Hveragerði. „Ég hefði ekki getað hugsað mér betri stað til að alast upp á.“ Ólafur fór í MR eftir grunnskólann. „Ég var í Gettu betur-liði skólans og það fór allur okkar frítími í það.“ Þegar komið var að framhaldsnámi stóð valið milli sagnfræði og verkfræði. „Stærðfræðin lá betur fyrir mér og áhuginn var aðeins meiri þar svo ég fór í Háskóla Íslands og tók grunnnámið í byggingarverkfræði þar og útskrifaðist 2014.“ Þá var förinni heitið til Danaveldis þar sem Ólafur fór í meistaranám í hljóðverkfræði við Tækniháskólann í Kaupmannahöfn. „Það var ágætt að vera í Danmörku og gaman í náminu en borgin er aðeins of stór fyrir mig og ég fann það þegar ég kom heim í fríum að hjartað sló á Íslandi.“ Ólafur segir að allt meistaranám í Danmörku sé kennt á ensku, en hann hafi gert sér far um að verða samræðuhæfur á dönskunni og býr að því í dag.

Það eru aðeins um 10 manns með hljóðverkfræðimenntun á landinu og er Ólafur nýjasti meðlimur hópsins þótt sex ár séu liðin frá útskrift. „Þegar ég kom heim fór ég strax að vinna hjá Trivium ráðgjöf með nafna mínum Ólafi Hjálmarssyni sem hefur 30 ára reynslu á þessu sviði. Hljóðverkfræði er það svið verkfræðinnar sem snýr að hönnun, greiningu og fyrirbyggjandi aðgerðum tengdum hljóði. Þetta er mjög vaxandi og gefandi svið og kannski ættu háskólarnir hérna heima að kynna fagið betur.“

Fjölskylda

Sambýliskona Ólafs er Þrúður Kristjánsdóttir félagsráðgjafi, f. 1990, og þau búa í Grafarvoginum. Foreldrar Ólafs eru Ingibjörg Ólafsdóttir sagnfræðingur, f. 1958, og Pjetur Hafstein Lárusson skáld, f. 1952. Þau búa í Hveragerði.