Sviðslistirnar „Að meðaltali sækir hvert einasta mannsbarn leikhús einu sinni á ári. Það eru tölur sem þú færð hvergi annars staðar í heiminum,“ segir Friðrik Friðriksson, gestur Dagmála, um leikhúslífið á Íslandi.
Sviðslistirnar „Að meðaltali sækir hvert einasta mannsbarn leikhús einu sinni á ári. Það eru tölur sem þú færð hvergi annars staðar í heiminum,“ segir Friðrik Friðriksson, gestur Dagmála, um leikhúslífið á Íslandi. — Morgunblaðið/Hallur
Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is Margir þekkja leikarann og leikstjórann Friðrik Friðriksson sem „Frikka í Tjarnarbíói“ en hann hefur stýrt leikhúsinu síðan árið 2016.

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Margir þekkja leikarann og leikstjórann Friðrik Friðriksson sem „Frikka í Tjarnarbíói“ en hann hefur stýrt leikhúsinu síðan árið 2016. Nú er hins vegar komið að tímamótum þar sem staða framkvæmdastjóra Tjarnarbíós hefur verið auglýst laus til umsóknar og Friðrik rær á ný mið. Hann tekur við hlutverki framkvæmdastjóra nýrrar Sviðslistamiðstöðvar Íslands.

Friðrik var gestur í Dagmálum, frétta- og dægurmálaþætti Morgunblaðsins sem birtist á mbl.is, og ræddi um árin í Tjarnarbíói og starfið sem fram undan er.

Friðrik tók við stöðu framkvæmdastjóra í Tjarnarbíói tímabundið þegar forverinn Guðmundur Ingi Þorvaldsson fór í leyfi, en 12. apríl, á sjálfan afmælisdag Friðriks, hringir Guðmundur og segir upp störfum og því má segja að Friðrik hafi fengið starfið í afmælisgjöf.

Markmið Friðriks í stöðu framkvæmdastjóra var frá upphafi að auka gæði sviðsverka þar. „Það eru tveir hópar sem eru hagsmunahópar hússins, það eru áhorfendur og listamenn, og þessir tveir hópar haldast í hendur. Áhorfendurnir koma ekki nema það sé góð list í húsinu og listamennirnir vilja sýna það sem áhorfendur koma á,“ segir hann.

„Það fyrsta sem við gerðum var að gera betur við listamenn til þess að draga gæðalistamenn að húsinu og geta þannig boðið upp á gæðasýningar í húsinu og það hefur tekist ágætlega. Það er búin að vera mikil eftirspurn eftir því að fá að komast að í húsinu og við erum í þeirri stöðu, því miður, að þurfa að hafna alls konar umsóknum en náum þá að velja gæðasýningar inn í húsið.“

Tjarnarbíó er gjarnan kallað „heimili hinna sjálfstæðu sviðslista“ og gegnir mikilvægu hlutverki í leikhúslandslaginu. Í Reykjavík er að finna ríkisrekið leikhús, Þjóðleikhúsið, og Borgarleikhúsið sem stutt er af Reykjavíkurborg og svo er Menningarfélag Akureyrar fyrir norðan. „En svo er obbinn allur af fólki sem hefur menntað sig og hefur hugmyndir og drifkraft til þess að koma sínum verkefnum á koppinn. Það eru til styrkir til að styðja við sjálfstætt starfandi atvinnulistafólk og hlutverk Tjarnarbíós er að taka við þessu fólki eins og hægt er til þess að það geti látið drauma sína rætast.“

Faraldurinn var „mikið áfall“

Tjarnarbíó er ekki aðeins heimili hinnar sjálfstæðu senu heldur hefur það líka verið annað heimili Friðriks síðustu ár. „Þetta er bæði líf mitt og yndi og starf svo þarna er ég öllum stundum. Þarna er ég með fullt af góðu fólki í kringum mig sem ég kveð núna. Þetta hefur verið skemmtilegur tími. Það er bara fínt að ég stígi frá og gefi þetta í hendurnar á einhverjum öðrum sem flytur það eitthvað enn þá lengra og gerir eitthvað meira.“

Spurður út í þær áskoranir sem hafi mætt honum í starfi framkvæmdastjóra Tjarnarbíós segir Friðrik að Covid-faraldurinn hafi verið stærsta áskorunin. „Það var mikið áfall því að fram að þessu var alveg línulegur vöxtur í áhorfendafjölda og miðasölutekjum og öllum svona helstu mælikvörðum. Öll línuritin á blússandi uppleið. Svo kemur þetta áfall vorið 2020 og það tók svolítinn tíma að vinna úr því. Við þurftum að herða sultarólarnar, segja upp fólki og skera niður eins og hægt var en sem betur fer sá Reykjavíkurborg aumur á okkur og lagði til fjármagn. En leiðir ríkisins í þessum málum hafa ekki skilað sér til sjálfstætt starfandi listafólks. Allar þessar hlutabótaleiðir og tekjufallsstyrkir sem voru lagðir til náðu ekki alveg til okkar.“

Auka veg og virðingu

Hin nýja Sviðslistamiðstöð Íslands, sem Friðrik snýr sér nú að, gegnir sambærilegu hlutverki og miðstöðvar annarra listgreina hér á landi, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Miðstöð íslenskra bókmennta, Hönnunarmiðstöð og Útón. Sviðslistirnar höfðu hingað til ekki átt sinn fulltrúa á alþjóðavettvangi en það verður að miklu leyti hlutverk miðstöðvarinnar.

„Hlutverk þessara miðstöðva er að stórum hluta að kynna sínar listgreinar erlendis þannig að stóra verkefnið verður að auka færni sviðslistafólks, hvar svo sem það starfar, í að kynna verkefni sín fyrir erlendum gestum og auka veg og virðingu íslenskra sviðslista á erlendri grundu. Það er stundum svolítið sorglegt að það er verið að veita tugi milljóna inn í sviðslistaverk sem eiga sér takmarkaðan áhorfendahóp hérna innan lands en eiga sér miklu stærri hópa erlendis.“ Miðstöðin mun til dæmis hjálpa íslensku sviðslistafólki að komast í tengsl við sviðslistahátíðir um allan heim.

„Fyrsta verkefnið er bara að segja „halló, hér erum við“, kynna miðstöðina og hlutverk hennar erlendis. Það eru náttúrulega til sambærilegar miðstöðvar annars staðar á Norðurlöndum og víðar og hægt að setja sig í samband við þær svo við séum ekki að finna upp hjólið.“

Enn sem komið er er Sviðslistamiðstöð lítil stofnun. „Ég er gangandi Sviðslistamiðstöð, það verður svoleiðis alla vega fyrst um sinn. Okkur er annt um að fara vel með fjármuni þannig að við séum ekki að hlaða á okkur fólki og skuldbindingum alveg strax, en ég vona að þegar fram líða stundir verði þetta öflug skrifstofa og að ég hafi kannski einhvern til að tala við inni á skrifstofunni.“ Friðrik segist helst munu sakna alls fólksins sem hann hefur umgengist á degi hverjum í Tjarnarbíói.

Friðrik nefnir að leikhúslífið hér á landi sé nokkuð einstakt. „Að meðaltali sækir hvert einasta mannsbarn leikhús einu sinni á ári. Það eru tölur sem þú færð hvergi annars staðar í heiminum. Leikhúsaðsókn á Íslandi, og þá er ég að tala um sviðslistir í það heila, á sér engan líka neins staðar í heiminum. Þetta er eitthvað í kjarnanum, að vera Íslendingur eða búa hér á þessu landi, það eru allir sammála um að sækja í leikhúsinu og gera þetta að hluta af tilverunni.“ Því er um að gera að reyna að hjálpa einhverju af því góða listafólki sem hér er að finna að koma sínum verkum út fyrir landsteinana.