Sigríður Nikulásdóttir fæddist 9. júní 1939 í Hafnarfirði. Hún lést 29. janúar 2022 á hjúkrunarheimilinu Mörk.

Foreldrar hennar voru hjónin Nikulás Jónsson, húsasmiður, f. 1903, d. 1973, og Guðríður Bjarnadóttir, hárgreiðslukona, f. 1908, d. 1998. Bróðir Sigríðar er Bjarni Jón, f. 1946. Eiginkona hans er Pálína Guðný Pétursdóttir, f. 1943.

Sigríður giftist Kjartani Páli Kjartanssyni 2. febrúar 1963. Foreldrar Kjartans voru Jónína S. Jónsdóttir, f. 1905, d. 1999, og Kjartan Rósinkranz Guðmundsson, f. 1894, d. 1964. Dætur Kjartans og Sigríðar eru: 1) Gerður Harpa, f. 14. júlí 1963, gift Gunnari Sigurðssyni, f. 1962, dætur þeirra eru Helena Jaya, f. 1999 og Sigrún Kumkum, f. 2003. 2) Auður Freyja, f. 16. maí 1966, gift Benedikt Árnasyni, f. 1966, börn þeirra eru Laufey, f. 1993, sambýlismaður Gustavo De Souza Pereira, f. 1993, Sóley, f. 1995, unnusti Kristófer Ásgeirsson, f. 1995, og Árni, f. 2008. 3) Sólveig Guðfinna, f. 22. febrúar 1973, gift Arnari Má Hrafnkelssyni, f. 1974, börn þeirra eru Atli Nikulás, f. 2004, Freyja Katrín, f. 2006 og Kjartan Páll, f. 2009.

Sigríður ólst upp í Hafnarfirði, gekk í Barnaskóla Hafnarfjarðar og síðan í Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Eftir gagnfræðaskólann fór hún til London í ritaraskóla. Að námi loknu dvaldi hún um hríð sem au-pair í London.

Eftir heimkomuna frá London hóf hún störf hjá Véladeild SÍS. Hún dvaldi á þeirra vegum í nokkra mánuði í Þýskalandi og lagði m.a. stund á þýskunám.

Sigríður og Kjartan hófu búskap í Hafnarfirði og árið 1969 flutti fjölskyldan til Bretlands eftir að Kjartan tók við starfi þar á vegum Sambandsins. Fjölskyldan bjó þar í átta ár.

Snemma árs 1983 hóf Sigríður störf sem bókavörður á Borgarbókasafninu í Sólheimum og síðar sama ár í Gerðubergi þegar það var stofnað. Hún vann þar til lok árs 2008.

Sigríður flutti á Hjúkrunarheimilið Mörk árið 2019.

Útför Sigríðar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 7. febrúar 2022, kl. 15. Hlekkir á streymi:

https://promynd.is/sigridur

https://www.mbl.is/andlat

Ekki er sjálfgefið að eiga góða, trausta og umhyggjusama foreldra sem búa börnum sínum öruggt skjól en þeirrar gæfu nutum við systur svo sannarlega. Mamma og pabbi hafa alltaf verið til staðar fyrir okkur og stutt okkur í einu og öllu.

Mamma var flink við allt sem hún tók sér fyrir hendur og sérstaklega var hún flink að sauma. Þegar dætur okkar skoða myndir frá uppvaxtarárum okkar hafa þær á orði að „outfittin“ sem við systur og mamma klæddumst séu „geggjuð“ enda munum við eftir árunum okkar í Bretlandi þegar vinkonur mömmu þar áttu ekki til orð yfir því sem hún töfraði fram með saumavélinni. Svo þegar við vorum orðnar nógu gamlar var hún þolinmóður kennari okkar í þessum efnum, þótt við næðum engan veginn hennar færni.

Mamma var líka skemmtileg og hafði einstaka frásagnargáfu. Oft sátum við í eldhúsinu hjá henni og hlustuðum spenntar á framvindu sögunnar hvort heldur hún var frá daglegu lífi eða úr skáldverki sem mamma var að lesa. Þegar mamma fór að vinna sem bókavörður hjá Borgarbókasafni Reykjavíkur var lesefnið orðið svo mikið að nauðsynlegt var að gefa sér góðan tíma í spjallið.

Annað sem mamma hafði og var virkilega til eftirbreytni voru skipulagshæfileikar og fyrirhyggjusemi. Aldrei geymdi mamma neitt fram á síðustu stundu. Fyrir öllu var hugsað með góðum fyrirvara. Jólafötin þegar við vorum litlar voru t.d. tilbúin í október. Ferðalög til útlanda þegar við systur fórum sem au pair eða í skóla voru ávallt vel undirbúin, þökk sé mömmu. Aldrei gleymdist neitt heima.

Mamma var fyrri til en margir af hennar kynslóð að tileinka sér nýja tækni eins og tölvupóstinn. Í tæp 20 ár hélt hún einstöku sambandi við þá yngstu okkar sem býr erlendis með nánast daglegum tölvupóstum. Eins var það þegar miðjusystirin og hennar fjölskylda bjuggu í útlöndum um árabil. Þessir tölvupóstar hafa gefið okkur dýrmætar dagbókarfærslur um líf fjölskyldunnar allrar því mamma var miðstöð frétta af okkur þremur systrum og fjölskyldum hvar sem við vorum.

Mamma var einstök og við systur og fjölskyldur fengum að kveðja hana á fallegum vetrardegi. Síðustu ár voru þó ekki þrautalaus því parkinsonsjúkdómurinn fer illa með fólk.

Síðustu æviárin dvaldi mamma á hjúkrunarheimilinu Mörk, þar sem hún naut einstakrar umönnunar frábærs starfsfólks og erum við systur þeim öllum afskaplega þakklátar.

Megi góður Guð taka vel á móti elsku mömmu okkar og þökkum við af öllu hjarta fyrir að hafa átt hana fyrir móður.

Gerður, Auður og Sólveig.

Ég kynntist Sigríði þegar ég fór að venja komur mínar í Drekavoginn fyrir um þremur og hálfum áratug til að hitta Auði, dóttur þeirra Kjartans. Fyrsta skiptið sem ég hitti Sigríði er mér minnisstætt, taugarnar spenntar að hitta konuna sem vonandi yrði tengdamóðir mín. Hún lét mér strax líða eins og ég væri einn af fjölskyldunni og ætti þar helst að vera um ókomna tíð.

Sigríði var margt til lista lagt. Hún var skipulögð, öguð, útsjónarsöm, sérlega leikin í höndunum, þekkt fyrir saumaskap og féll aldrei verk úr hendi. Þá hafði hún afar skemmtilega frásagnargáfu og kom með hnyttin tilsvör þegar sá gállinn var á henni. Hún var víðlesin og hafði yndi af vinnu sinni á bókasafninu. Hún hélt fallega utan um yndislega fjölskyldu í áratugi, bæði í Bretlandi og á Íslandi.

Við Auður bjuggum í kjallaranum í Drekavoginum á fyrstu búskaparárunum og alltaf stóðu dyr Sigríðar og Kjartans opnar. Dætur okkar urðu strax mjög hændar að ömmu sinni og afa. Heimsóknir voru einnig tíðar eftir að við fluttum úr Drekavoginum. Samverustundirnar voru margar í samheldinni fjölskyldu. Laugardagslambið og miðvikudagsfiskurinn voru á sínum stað og alltaf var boðið upp á ís með súkkulaðirúsinum. Ég minnist skemmtilegra utanlandsferða með tengdaforeldrum mínum og Sigríður sótti okkur oft heim þegar við bjuggum í Toronto og Helsinki.

Eftir að aldurinn færðist yfir breyttust hlutverkin og við gátum endurgoldið Sigríði gjafmildi hennar og stuðning. Dætur hennar aðstoðuðu hana síðan af mikilli væntumþykju í veikindunum síðustu árin þar til yfir lauk.

Það er erfitt að sjá á eftir Sigríði tengdamóður. Ég á henni mikið að þakka.

Benedikt Árnason.

Þótt liðin séu meira en 30 ár síðan ég hitti Sigríði tengdamóður mína í fyrsta sinn man ég vel hvað ég kveið þeirri stundu. Ég var nokkuð sannfærður um að henni væri alls ekki sama hver væri að gera hosur sínar grænar fyrir elstu dótturinni og hafði talsverðar áhyggjur af því að standast ekki væntingar. Áhyggjur mínar reyndust óþarfar því Sigríður tók mér afar vel. Ég fann strax hvað hún hafði góða og hlýja nærveru og hafði gott lag á að halda uppi samræðum við taugaóstyrkan gestinn. Raunin varð svo sú að tengdamamma var búin að samþykkja mig sem tengdason talsvert áður en dóttir hennar samþykkti mig sem eiginmann. Ég verð henni auðvitað ævinlega þakklátur fyrir það og ekki síður fyrir ánægjulega samfylgd alla tíð síðan.

Á kveðjustund er ljúft að geta rifjað upp ótal samverustundir með sérlega samhentum tengdaforeldrum sem nutu þess að hafa fólkið sitt í kringum sig, hvort heldur var á hlýlegu heimili þeirra í Drekavoginum eða á heimilum dætranna. Þá eru minningar um yndisleg ferðalög erlendis dýrmætar, en Sigríður og Kjartan tengdapabbi nutu þess að vera með dætrum sínum og fjölskyldum þeirra á ferðalögum. Hlýrri lönd voru Sigríði sérstaklega að skapi og sömuleiðis kunni hún vel við sig í Bretlandi frá árum fjölskyldunnar þar.

Tengdamamma var einstaklega þolinmóð, hæglát og greiðvikin. Hún var einnig skemmtileg og góður sögumaður, sem barnabörnin geta sannarlega vitnað um. Þá hafði hún góðan húmor og gat verið afar glettin þegar svo bar undir.

Það hefur líka verið ánægjulegt hvað tengdaforeldrar mínir náðu fljótt góðu sambandi við foreldra mína og var vinskapur þeirra mikill. Þau eru mörg laugardagskvöldin sem við buðum þeim fjórum til okkar í mat og reyndust það ávallt ánægjulegar stundir.

Það er mikil gæfa að geta minnst tengdamóður minnar með innilegu þakklæti fyrir öll árin þar sem aldrei bar skugga á. Megi góður Guð blessa minningu Sigríðar Nikulásdóttur.

Gunnar Sigurðsson.

Takk fyrir öll góðu árin sem þú gafst okkur. Húsið ykkar afa hefur alltaf verið uppáhaldsstaðurinn okkar á Íslandi. Við eigum svo margar góðar minningar þaðan, eins og að fá gott að borða, spila spil og vera saman með öllum úr fjölskyldunni. Okkar langar til að kveðja þig, elsku amma okkar, með einni bæn sem þú kenndir okkur þegar þú heimsóttir okkur til Kaliforníu.

Leiddu mína litlu hendi,

ljúfi Jesús, þér ég sendi

bæn frá mínu brjósti sjáðu,

blíði Jesús, að mér gáðu.

(Ásmundur Eiríksson)

Biðjum Guð að geyma þig.

Nikulás, Freyja og Kjartan.

„Elsku litlu kerlingarnar hennar ömmu sinnar,“ segir amma þegar hún sér okkur. Tilhugsunin um að heyra þessi orð vekja hlýju í hjarta okkar. Það var alltaf gott að vera með ömmu. Knúsin frá henni voru yndisleg en hún sagði líka svo skemmtilega frá. Þegar við urðum eldri fórum við að geta spjallað við ömmu um hvað sem er. Á leiðinni heim úr bókasafninu með ömmu voru með notalegustu stundum vikunnar þar sem við sátum saman í bílnum og spjölluðum um allt og ekkert.

Við tengjum ömmu mikið við bókasafnið. Hún kynnti okkur margar frábærar bækur og bókaseríur. Þökk sé ömmu höfum við kynnst mörgum af okkar uppáhaldsbókum. Við fengum alltaf bækur frá henni og afa í jólagjöf og þær voru alltaf valdar af mikillri kostgæfni af ömmu. Amma keypti handa okkur áskrift af tímaritinu Galdrastelpur, sem við höfuðum ofboðslega gaman af. Við vorum tvær systurnar sem lásu sama blaðið. Það fylgdi venjulega glaðningur með blaðinu sem gat verið erfitt að deila. Amma kom oft til bjargar og kom með glaðninginn úr blaðinu sem bókasafnið hafði fengið svo við þyrftum ekki að ákveða hvor okkar fengi að eiga lyklakippuna sem fylgdi blaðinu eða varasalvann.

Amma var mjög hugmyndarík. Við vorum ekki bara að lesa bækur með henni. Hún fann upp á ótal skemmtilegum hlutum til að gera. Ein jólin kenndi hún okkur að föndra jólakúlur. Annað skipti leyfði hún okkur að skreyta okkar eigin koddaver til að nota þegar við gistum hjá henni. Heima hjá ömmu og afa áttum við líka okkar eigin teppi og inniskó til að nota þegar við vorum í heimsókn. Í garðinum voru rólur og rambelta sem við fengum að leika okkur í á meðan amma sat á pallinum. Stundum var amma búin að sækja tóm tvinnakefli og sápukúluvökva handa okkur því bestu sápukúlurnar eru gerðar á pallinum með tvinnakeflum.

Síðan fæddist Árni og þrátt fyrir að hann muni ekki eftir ömmu í bókasafninu eða skreyta jólakúlur á hann margar góðar minningar af ömmu. Hann kom alltaf með okkur í heimsókn til ömmu í fisk á miðvikudögum. Á meðan verið var að elda fiskinn spilaði hann fótbolta á ganginum með mjúka innifótboltanum sem amma átti til að litlir fótboltaáhugamenn gætu fengið að æfa sig. Eftir fiskinn fengum við alltaf ís með súkkulaðirúsínum í eftirrétt, þrátt fyrir að það væri virkur dagur. Því maður fær alltaf ís og súkkulaðirúsínur hjá ömmu og afa.

Takk fyrir allt elsku amma okkar. Minningarnar okkar saman munu lifa áfram í hjörtum okkar.

Laufey, Sóley og Árni.

Það er sárt að þurfa að kveðja elsku ömmu. Við höfum átt góðar stundir saman sem við erum ævinlega þakklátar fyrir. Í minningunni var amma alltaf mjög lagleg og virðuleg, svolítið alvarleg en þó aldrei langt í brosið. Hún var mjög mikil amma, ef svo má segja, hún var svo hlý og góð.

Amma var alla tíð mjög hjálpleg, við gleymum ekki skiptunum þegar hún var mætt snemma um helgar að aðstoða mömmu við að gera heimagerð skinkuhorn og við spjölluðum þá oft við ömmu. Þegar við æfðum dans saumaði mamma kjólana okkar, oft með aðstoð ömmu. Þær voru stundum í eldhúsinu að sauma langt fram á kvöld en amma var nú enginn nýgræðingur í fatasaumi.

Svo má ekki gleyma mjög eftirminnilegri „hefð“ sem skapaðist í matarboðum eða á gistikvöldum hjá ömmu og afa. Eftir kvöldmatinn hlupum við yfir herbergisganginn inn í þvottahús í leit að „afanammi“ sem var geymt í hvítum skáp bak við hurðina. Þar voru pokar af „afarúsínum“, þristum og kúlusúkki sem við barnabörnin getum öll sammælst um að hafi verið fullkomin leið til að ljúka deginum. Við systur gistum stundum hjá ömmu og afa, þá var mikið spjallað, horft á Mr. Bean og við skoðuðum allar spennandi bækurnar á neðri hæðinni. Amma setti oft Cocoa Puffs í sitt hvorn sólblómabollann handa okkur sem við gæddum okkur á, á bíómyndakvöldum. Stundum vildum við meira og þá sóttum við tröppu inn í eldhús og fórum í efsta skápinn þar sem morgunkornið var geymt. Amma vissi ekki af þessu og við munum ekki eftir að hafa nokkurn tímann verið gómaðar.

Okkur fannst alltaf mikið ævintýri að gista á neðri hæðinni í sjónvarpssófanum. Á kvöldin horfðum við saman á Mr. Bean og við horfðum líka ansi oft með ömmu á bíómyndina Línu Langsokk, amma kunni örugglega söguþráð myndarinnar utan að. Ein uppáhaldsbíómynd okkar systra var leikin útgáfa af Öskubusku þar sem aðalleikkonurnar voru dökkar á hörund. Þessi mynd á sérstakan stað í hjarta okkar því við erum líka dökkar á hörund. Amma vissi hvað það skipti okkur miklu máli að geta speglað okkur í barnaefni, hún keypti myndina sérstaklega fyrir okkur sem okkur þykir ómetanlegt!

Árlegi jólagjafaleiðangurinn er auðvitað ógleymanlegur. Þá fórum við með ömmu að versla jólagjafir. Við þræddum hverja búðina á fætur annarri og amma var alltaf með frumlegustu hugmyndirnar að gjöfum. Eftir það var ferðinni heitið á uppáhaldskaffihúsið okkar, amma lagði þá til að við skyldum fá okkur eitthvað hollt fyrst og svo eitthvað sætt í eftirrétt. Við systur fylgjum enn þessum ráðleggingum ömmu þegar við förum á kaffihús. Svona dag áttum við árlega í nokkur ár, það var alltaf mjög gaman á þessum degi, eintóm gleði og mikið hlegið.

Við höfum verið sérstaklega lánsamar að eiga ömmu að, við kveðjum hana með söknuði og þakklæti fyrir árin sem við áttum með henni. Guð blessi minningu hennar.

Helena Jaya Gunnarsdóttir og Sigrún Kumkum Gunnarsdóttir.

HINSTA KVEÐJA
Heil og sönn, hlý og góð,
hreinskilin í sinni.
Myndarleg, um margt var fróð,
mat ég okkar kynni.

Hófsöm fer í himinskaut,
heilagt inn í mistur.
Líkn hún fékk frá lífsins þraut,
leiðir hana Kristur.
(SGS)

Ég votta fjölskyldunni allri samúð og bið Guð að styrkja ykkur á komandi tíma.

Sigríður Th.
Guðmundsdóttir.