Stríð Úkraínskir hermenn kenna borgurum að halda á riffli.
Stríð Úkraínskir hermenn kenna borgurum að halda á riffli. — AFP
Rússar hafa sett meiri kraft í undirbúning fyrir allsherjarinnrás í Úkraínu en ekki er ljóst hvort ráðamenn í Moskvu hafi ákveðið að stíga skrefið til fulls, að sögn bandarískra ráðamanna. Um 110 þúsund rússneskir hermenn eru nú við landamæri Úkraínu.

Rússar hafa sett meiri kraft í undirbúning fyrir allsherjarinnrás í Úkraínu en ekki er ljóst hvort ráðamenn í Moskvu hafi ákveðið að stíga skrefið til fulls, að sögn bandarískra ráðamanna.

Um 110 þúsund rússneskir hermenn eru nú við landamæri Úkraínu. Bandarískar leyniþjónustur hafa ekki ákvarðað hvort Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hafi gert upp hug sinn um það hvort verði af innrásinni.

Bandarískir ráðamenn vöruðu við því að fjöldi hermanna við landamæri Úkraínu færi hratt vaxandi og um miðjan febrúar er áætlað að 150 þúsund hermenn verði við landamærin – nóg til þess að hefja allsherjarinnrás.

Þeir greina einnig frá því að Pútín vilji hafa margar mögulegar innrásaráætlanir til hliðsjónar, allt frá því að ráðast eingöngu inn í Donbas-hérað í Úkraínu, sem styður yfirtöku Rússa, til allsherjarinnrásar í landið. Rússar hafa alfarið neitað því að ráðabrugg um innrás sé í pípunum.

Ef ráðamenn í Moskvu ákveða að hefja allsherjarinnrás í Úkraínu, er líklegt að Kænugarður, höfuðborg Úkraínu, falli í hendur Rússa á aðeins tveimur sólarhringum. Það er áætlað að í allsherjarinnrás Rússa á Úkraínu myndu 25 til 50 þúsund óbreyttir borgarar falla, ásamt 5 til 10 þúsund úkraínskum hermönnum og 3 til 10 þúsund rússneskum hermönnum. Innrásin gæti valdið flótta milljón til fimm milljóna manna yfir landamæri Póllands, bættu bandarískir embættismenn við.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að senda bandaríska hermenn til Póllands til þess að vernda bandamenn Atlantshafsbandalagsins (NATO). Diplómatar bandalagsins vinna dag og nótt að því að fá Rússa til að draga herinn til baka.

Rússar hafa einnig tilkynnt um sameiginlegar hernaðaraðgerðir herliðs Hvít-Rússa og herliðs Rússa og hafa þær sveitir verið sendar til Brest-héraðs í Hvíta-Rússlandi, sem er norður af Kænugarði og við landamæri Póllands.

Um 80 hersveitir Rússa eru staðsettar víðsvegar við landamæri Úkraínu og fjórtán til viðbótar eru á leið til landamæranna. Fyrir tveimur vikum voru aðeins 60 hersveitir við landamærin.

Um 1.500 hermenn úr sérsveit rússneska hersins (Spestnaz) eru við landamærin. logis@mbl.is