Ég hitti karlinn á Laugaveginum og spurði hvernig hann hefði það. Hann svaraði snúðugt: Ég finn að gamall er ég orðinn og óttast að skilnings minnki forðinn hraðara en ég hugði.

Ég hitti karlinn á Laugaveginum og spurði hvernig hann hefði það. Hann svaraði snúðugt:

Ég finn að gamall er ég orðinn

og óttast að skilnings minnki forðinn

hraðara en ég hugði.

Áherslubreytingar eru stórar:

Við íbúð hverja sorptunnur fjórar

ein mér sem áður dugði

Sigurður Hallur Stefánsson skrifar mér: „Í Mbl. í dag, 28. janúar, birtist ágæt sléttubandavísa, „sléttubönd með öfugri merkingu þegar lesið er aftur á bak“. Mér kom til hugar að senda aðra slíka úr bók minni Lífsblóm sem komst fyrir sjónir fárra“:

Kraftinn eykur vílið vart,

viskan manninn prýðir.

Kjaftinn þenur spakur spart,

spottið varist lýðir.

Hjörtur Benediktsson skrifar í Boðnarmjöð: „Nýtt sameinað sveitarfélaga fyrir norðan“:

Núna við sjáum Norðurþing

í námunda birtist Suðurþing.

Mývatnssveit var

í miðjunni þar

en mun nú víst heita Nothing.

Anna Dóra Gunnarsdóttir skrifar: „Frænka mín elskuleg setti inn mynd af fannhvítu fjalli og speglun himinsins í vatni og við hana þennan texta: „þegar himinninn stendur á haus“. Ég las það og bætti við og nú er þetta svona“:

Þegar himinninn stendur á haus

og er heldur í rásinni laus,

lít ég fýrug til fjalls,

því að fjallið er als-

ett af skafli sem skalf þar og fraus.

Magnús Halldórsson yrkir „úr fréttum, – „MAST gæti þurft að herða sóttvarnir við komu farfugla““.

Brátt á heiðar landsins mun fljúgafuglager

flóa, tún og varpa alla prýðir.

„Vorboðinn ljúfi, fuglinn trúr sem fer,“

fyrr en varir grímuskyldu hlýðir.

Jón Arnljótsson yrkir:

Flesta daga fæ ég mér,

fæ ég mér að drekka,

að drekka svoltinn sénever,

séneverinn þekka.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir svarar um hæl:

Já, látum aldrei sorg og sút

setjast að í geði

Drekkum út úr einum kút

og yrkjum svo um gleði.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is