Lokun Gangvirki samfélagsins verður stöðvað vegna veðurspár.
Lokun Gangvirki samfélagsins verður stöðvað vegna veðurspár. — Morgunblaðið/Eggert
Rauð veðurviðvörun eins og gefin hefur verið út og gildir í dag fyrir sunnan- og vestanvert landið – höfuðborgarsvæðið þar meðtalið – þýðir að fólk á ekki að vera á ferð nema brýna nauðsyn beri til.

Rauð veðurviðvörun eins og gefin hefur verið út og gildir í dag fyrir sunnan- og vestanvert landið – höfuðborgarsvæðið þar meðtalið – þýðir að fólk á ekki að vera á ferð nema brýna nauðsyn beri til. Þá hefur ríkislögreglustjóri lýst yfir hættustigi almannavarna á landsvísu.

Heimavinna er boðorð dagsins, skv. því sem Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði á mbl.is í gær.

Mikilvægt er að fólk haldi sig heima meðan verið er að ryðja húsgötur, sem getur verið tímafrekt, segir í tilkynningu almannavarna. Skóla- og frístundastarf á höfuðborgarsvæðinu verður fellt niður. Skólar verða þó opnir með lágmarksmönnun fyrir þau sem þurfa nauðsynlega vistun fyrir börn sín.

Öllum morgunferðum hjá Strætó á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni verður aflýst í dag. Búist er við að innan borgar hefjist akstur um kl. 10:00, en hugsanlega síðar. Hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar má búast við að margvísleg starfsemi raskist, svo sem heimahjúkrun og -þjónusta. Neyðarskýli verða öll opin.

Á Landspítalanum er búist við miklum truflunum í dag. Engin dag- og göngudeildarþjónusta verður á sjúkrahúsinu og fá sjúklingar úthlutaða nýja tíma. Engar bólusetningar verða í Laugardalshöll og ekki er gert ráð fyrir að opið verði í sýnatöku á Suðurlandsbraut. Í tilkynningu frá Landhelgisgæslu er hvatt til aðgæslu við ströndina og að hugað verði að skipum og bátum í höfnum vegna hárrar sjávarstöðu.

Á Akureyri er skólastarfi í dag aflýst. Gert er ráð fyrir afleitu veðri í Eyjafirði og að ófært verði með öllu um götur bæjarins. Fólk er hvatt til að vera sem minnst á ferli meðan veðrið gengur yfir. sbs@mbl.is