Sigurbjartur Hafsteinn Helgason, Siggi eins og hann var oftast kallaður, fæddist 17. september 1935. Hann andaðist á líknardeild Landakotsspítala 22. janúar 2022.

Foreldrar hans voru Helgi Kristinn Þorbjörnsson verkamaður, f. 1913, d. 1985, og Júlíana Laufey Júlíusdóttir húsfreyja, f. 1913, d. 1986. Systkini Sigurbjarts eru Guðlaugur Helgi, f. 1939, og Katrín Guðrún, f. 1947.

Sigurbjartur var kvæntur Guðrúnu Ásgerði Jónsdóttur (Ásu), f. 1936, d. 2021. Foreldrar hennar voru Jón Vilhelm Ásgeirsson, f. 1912, d. 1992, og Sigríður Friðfinnsdóttir, f. 1910, d. 1997.

Börn Sigga og Ásu eru: 1) Helgi, f. 1955, húsasmíðameistari, kvæntur Kristínu Bjarnadóttur. Börn þeirra eru a) Berglind, f. 1975, b) Sigurbjartur Ingvar, f. 1979, og c) Guðlaug Helga, f. 1984. 2) Sigríður, f. 1958, d. 2014, lyfjatæknir. Fv. eiginmaður Finnbogi Guðmundsson, dóttir þeirra er a) Margrét Erla, f. 1981. Dóttir Sigríðar og Þráins Hafsteinssonar er b) Ásgerður, f. 1993. 3) Jón Ásgeir, f. 1961. 4) Arnar, f. 1965, málari, sambýliskona Unnur Malín Sigurðardóttir, sonur þeirra er Unnsteinn Magni, f. 2010. Sonur Arnars og Salbjargar Engilbertsdóttur er Andri Freyr, f. 1986, synir Arnars og Maríu Dísar Cilia eru Viktor, f. 1993, d. 2018, og Alexander, f. 1995. Barnabarnabörn Sigga eru átta talsins og hann átti eitt langalangafabarn.

Siggi fæddist í Reykjavík og bjó fyrstu árin á Ásvallagötu áður en hann fluttist sjö ára gamall í Stórholtið. Hann gekk í Austurbæjarskóla og lauk gagnfræðaprófi þaðan. Hann nam svo vélvirkjun hjá Landsmiðjunni. Sigurbjartur stundaði fótbolta lengi með knattspyrnufélaginu Val, m.a. með svokölluðu „gullaldarliði“ félagsins. Hann var fyrirliði þess þegar það fór í keppnisferð til Þýskalands árið 1954 þar sem Valsmenn unnu frækilega sigra, öllum að óvörum.

Sigurbjartur kvæntist Ásu hinn 23. október 1954 og bjuggu þau lengst af í Álftamýri, en fluttu í Mosfellsbæ í kringum starfslok hans. Fyrstu starfsárin var hann mest til sjós, m.a. á Pétri Halldórssyni, Heklu, Esju og Skúla Magnússyni. Hann vann einnig við bílaviðgerðir hjá SÍS, Keflavíkurverktökum, Ístaki og Jarðýtunni. Seinna var hann dælumaður á olíuskipinu Kyndli, og síðustu árin fyrir starfslok vann hann fyrir Skeljung á Reykjavíkurvelli.

Útför Sigurbjarts fer fram frá Grensáskirkju í dag, 7. febrúar 2022. Útför hefur verið seinkað vegna veðurs til kl. 15.

Elsku pabbi, nú ert þú kominn á leiðarenda eftir erfið veikindi og sorg eftir að þú misstir mömmu í júlí á síðasta ári. Nú hefur þú sameinast henni og Siggu systur sem dó árið 2014. Það er margs að minnast þegar litið er til baka og áttum við fjölskyldan margar góðar stundir með þér og mömmu. Við fórum í veiði, ferðalög innanlands og erlendis og einnig áttum við margar góðar stundir í sumarhúsinu á Grímsstöðum sem við systkinin hjálpuðum ykkur að byggja. Þar var oft mikið fjör og margt brallað. Alltaf varst þú til staðar þegar á þurfti að halda; að mála fyrir okkur, passa börnin og laga bíla. Eitt árið var ég að byggja fyrir austan og þú tókst að þér að elda ofan í mannskapinn og allir voru sammála um að maturinn hjá þér væri frábær og eins og á besta veitingahúsi.

Nú er komið að því að kveðja og á ég eftir að sakna þín. Ég kveð þig með sorg í hjarta og ég veit að við sjáumst síðar.

Þinn sonur,

Helgi.

Elsku afi, nú ertu farinn frá okkur eftir stutt en erfið veikindi. Ég vildi að það hefði verið hægt að heimsækja þig oftar og ég hugsa með söknuði til þín.

Nú eruð þið amma bæði farin sem er svo erfitt að hugsa um. Ekki fleiri heimsóknir í Mosfellsbæinn og ekki fleiri sögur um gamla tímann. En þið lifið í minningunum og það er af svo mörgum að taka.

Mörg voru jólaboðin í Álftamýrinni, með rjúpum sem litla telpan í mér hugsar enn til með hryllingi, greyið fuglarnir hugsaði ég alltaf. Og hafði sko engan áhuga á að smakka, sérstaklega ekki eftir að hafa séð þær hanga úti á svölum vikurnar fyrir jól. Ég hafði miklu meiri áhuga á hnetubrjótunum og borðaði yfir mig af valhnetum, ásamt Machintosh. Þar var líka til það stærsta safn að teiknimyndasögum um Ástrík, Fjögur fræknu og fleiri ágæta kappa sem ég gat legið yfir tímunum saman. Á unglingsárunum eyddi ég miklum tíma hjá ykkur og horfðum við á bíómyndir saman; ég man alltaf að þú keyptir stóra dollu af Haribo-hlaupi, svona í Costco-stíl og var hún yfirleitt vel á veg komin í lok kvöldsins.

Þegar þú varst á Kyndli var það algjör ævintýraheimur að fá að fara um borð og skoða skipið og láta sig dreyma um alla þessa fjarlægu staði sem þú værir að fara til. Í einni af þessum ferðum til þessara dásamlegu fjarlægu staða komstu með þá bestu afmælisgjöf sem 11 ára stúlka gat hugsað sér. Myndavél, og það fyrir alvöru filmur með flasskubbi. Það flottasta í bænum bara og næstu ár var mikið tekið af myndum, þó aðallega af litlu systur og hundinum.

Tæknin var nú kannski ekki þín sterkasta hlið. Og síðustu ár voru ófá símtöl við þig og nágrannann um hvernig í ósköpunum ætti að kveikja á fréttunum í þessu blessaða Apple TV sem ömmu hafði fundist svo hrikalega sniðugt. Og mér er hugsað til allra þessara símtala, þó sérstaklega eins sem fær mig alltaf til að hlæja. Þú hafðir fengið nóg og ákvaðst að RÚV væri bara alltaf bilað og ætlaðir að hringja í símafyrirtækið til að segja upp þessari leiðindastöð. Ég hafði mikið fyrir að sannfæra þig um að það væri ekki hægt að segja upp RÚV og að aumingja starfsfólkið hjá símafyrirtækinu væri alsaklaust af öllum þessum tæknilegu skakkaföllum.

Elsku afi minn, hvað ég myndi óska þess að fá svona símtal í kvöld og þurfa að skjótast upp í Mosfellsbæ til að kveikja á kvöldfréttunum fyrir þig.

Þitt barnabarn

Berglind Helgadóttir.