Axel Arnar Nikulásson fæddist 2. júní 1962 á Akranesi en fluttist með fjölskyldu sinni til Keflavíkur árið 1966 þar sem hann ólst upp. Hann lést á Landspítalanum 21. janúar 2022.

Foreldrar Axels eru Þórarna Sesselja Hansdóttir og Nikulás Már Brynjólfsson, sem lést árið 1997. Bræður Axels eru Óskar Þór (þeir eru tvíburar) og Brynjólfur. Hálfsystir hans er Þóra Björk Nikulásdóttir.

Axel kvæntist eiginkonu sinni, Guðnýju Reynisdóttur, 17. september 1994. Þau byrjuðu búskap í Keflavík en fluttu sig síðan um set til Reykjavíkur. Foreldrar hennar eru Hjálmfríður Sigmundsdóttir og Reynir Jónsson, þau eru bæði látin.

Börn Axels og Guðnýjar eru: Fríða, f. 1995, starfskona í áritunar- og borgaraþjónustudeild utanríkisráðuneytisins; Egill, f. 1998, nemi í hótelstjórnun við César Ritz-háskólann í Sviss; Bjargey, f. 2005, nemi í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Axel lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Haustið 1983 fór hann til framhaldsnáms í East Stroudsburg University í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum ásamt því að spila körfubolta með háskólaliðinu. Axel lauk BA-gráðu í hagfræði og síðan meistaragráðu í stjórnmálafræði við sama skóla árið 1988.

Körfubolti, leikur og þjálfun var stóri hluti af lífi Axels alla tíð. Hann lék fyrst 17 ára gamall með meistaraflokki Keflavíkur og lék með liðinu til ársins 1983 og svo aftur frá 1988 til 1989. Leikirnir fyrir Keflavík urðu alls 118. Þá flutti hann sig yfir til KR og lék með Vesturbæjarliðinu til ársins 1992, alls 66 deildarleiki. Árið 1991 var hann valinn íþróttamaður KR. Á ferli sínum varð hann Íslandsmeistari með tveimur félögum og einu sinni bikarmeistari. Axel lék 63 A-landsleiki. Eftir að Axel hætti að spila sneri hann sér að þjálfun og þjálfaði 1976 drengjalandslið Íslands með góðum árangri. Þá tók hann við þjálfun meistaraflokksliðs KR árin 1994-1995.

Axel kom víða við í vinnu á sinni ævi, hann var í sveit sem unglingur, vann í fiski, hjá Keflavíkurbæ, í banka, lögreglumaður, sögukennari við gamla skólann sinn, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, verslunarstjóri í Samkaup og starfsmaður á skrifstofu Körfuknattleikssambands Íslands. Í júní 1995 hóf Axel störf á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Árið 1998 fluttist hann með fjölskylduna til New York þar sem hann starfaði sem fulltrúi í fastanefnd Íslands við Sameinuðu þjóðirnar. Á árunum 2005-2014 gegndi hann stöðu staðgengils sendiherra í Peking og London áður en hann fluttist til Reykjavíkur. Árið 2016 tók hann við stöðu mannauðsstjóra í utanríkisráðuneytinu.

Axel var ólympískur fulltrúi (Olympic Attaché) sendiráðsins í Peking við Íþróttasamband Íslands á Ólympíuleikunum 2008 og sá um samskipti við skipuleggjendur leikanna fyrir hönd viðkomandi ólympíunefndar. Hann gegndi síðan sama starfi á Ólympíuleikunum í London 2012.

Útför Axels fer fram í Hallgrímskirkju í dag, 7. febrúar 2022, klukkan 13. Hlekk fyrir streymi frá útförinni má nálgast á https://streyma.is/streymi/

https://www.mbl.is/andlat

Ein leið til að meta stærð manna er að skoða áhrif þeirra á annað fólk og umhverfið. Axel hafði mikil bein og óbein áhrif á aðra, átti sviðið hvar sem hann kom. Stór á alla mælikvarða og ein af hetjunum mínum, maður vildi hafa Axel með sér í liði og sem lengst inni á vellinum.

Axel fæddist á Akranesi og var ánægður með sín Skagatengsl. Hann var alinn upp á góðu heimili, við gestagang og frjálsræði. Þrír hugvitssamir bræður fæddir á 15 mánaða tímabili, lífsgleði, dirfska og fjör allsráðandi. Hann kallaði oft heimilið sitt í Smáratúninu Rauða kastalann. Að alast upp í Túnunum í jafnaðarbænum Keflavík á æskuárum Axels voru forréttindi.

Ungur byrjaði Axel að nýta sér bókasafnið í Keflavík af kappi. Hann varð vel lesinn og ágætur íslenskumaður í ræðu og riti. Axel var góður í handbolta, sundi og knattspyrnu. Hann heillaðist af körfuknattleik þegar Geir Eyjólfsson byrjaði með æfingar fyrir 12 ára stráka. Bágborin aðstaða, fáar æfingar og misgóðir þjálfarar gerðu að verkum að framfarir hans og liðsins urðu litlar. Ekki hjálpaði til að Axel var lágvaxinn frá fermingu að 15-16 ára aldri. Með miklum metnaði og elju tók hann framförum í körfu. Axel náði því að vera ellefti maður í 16 ára landsliði sem tók þátt í Evrópukeppni. Verra var að aðeins máttu tíu leikmenn spila og um 1/3 af liðinu var slakari en Axel.

Mótlætið efldi Axel og hann varð betri. Það hjálpaði líka að hann tók vaxtarkipp og lengdist um 15 sm. Stuttu síðar var hann orðinn lykilleikmaður í meistaraflokki ÍBK, farinn að spila með yngri landsliðum og banka á dyr hjá A-landsliðinu. Leiðin lá síðan til BNA í háskóla á íþróttastyrk. Þar lenti hann á íþróttavegg en með því að breyta leikstíl og aðlagast átti hann góðan feril þar. Heimkominn tók Axel þátt í skrautlegu tímabili með ÍBK sem lauk með fyrsta Íslandsmeistaratitli liðsins eftir langa eyðimerkurgöngu. Axel lék vel í oddaleiknum á móti KR, á kvöldi sem keflvískir körfuknattleiksmenn munu seint gleyma.

Axel sagði stundum að hann væri útskrifaður úr ML (menntaskóla lífsins) og væri láglaunamaður (með lágar einkunnir). En það var ekki alveg rétt. Axel gekk vel í barnaskóla en var ekki mjög duglegur í gaggó og fyrstu árin í FS. En svo sýndi hann sinn innri námsmann og sú sýning hélt áfram í háskólanámi.

Starfsferill Axels var fjölbreyttur og honum gekk vel í vinnu. Axel var í sveit, í fiski, bankamaður, lögreglumaður, verslunarstjóri, kennari, þjálfari og fleira. Eitt best heppnaða verkefnið sem Axel kom að var 1976-landslið drengja. Það ævintýri er efni í heila bók. Síðar komst Axel í utanríkisþjónustuna, sem hann hafði lengi stefnt að.

Í byrjun ágúst 2016 veiktist Axel alvarlega. Við tók erfiður tími undir handleiðslu heilbrigðiskerfisins. Hann var æðrulaus í þessu ferli og barðist. Í bók sinni Einhver ár í Kína fer Axel þessum orðum um ótímabært fráfall vinar: „Kalt að hverfa af velli svona snemma leiks.“ Þótt Axel sé farinn af velli lifa áhrif hans og minningin um hugrakkan og góðan dreng.

Stefán A.

Mótherjarnir voru sammála um að inni á vellinum hefði hann ekki verið lamb að leika sér við. Líkamlegt atgervi og einstakur skilningur á körfuíþróttinni vísuðu honum oftast veginn til vinnings. Margir sömu eiginleikarnir og færðu honum bikara og afrekstitla reyndust honum síðar meir haldgóðir á lífsleiðinni. Hann var þrautgóður og ósérhlífinn, glaðsinna og trúfastur sínum samverkamönnum. Öllum þótti gott að vera í liði með Axel.

Mörgum árum síðar dró sjónarhorn Axels á tilveruna, orðfærið sem hann notaði og myndmálið, enn þá dám af körfuknattleiknum. En hann gerði líka greinarmun á leiknum og lífinu. Það var fleira sem skipti Axel máli en að vinna. Hann var gæfumaður í einkalífinu og tóku samferðamennirnir eftir því, á ferðum fyrir Ísland til fjarlægra heimshluta, að oft leitaði hugur hans heim til fjölskyldunnar. Hann var vinsæll meðal kollega og átti, eftir langan og metnaðarfullan feril á leikvellinum, auðvelt með að sýna öðrum auðmýkt og lítillæti. Hann var athugull og skyldurækinn og hlustaði vel eftir sjónarmiðum annarra. Oft var þá húmorinn líka skammt undan. Af þessum og öðrum ástæðum var Axel vel búinn undir sitt farsæla ævistarf – betur en hann sjálfur hefði nokkru sinni viðurkennt.

Hin síðustu ár er mér minnisstætt þegar ég sótti með Axel leiki í boltanum, m.a. í Vesturbænum, Breiðholtinu og Njarðvíkunum. Í leiksalnum dreif að honum alls staðar fólk til að fagna honum, ungir sem aldnir, þ.á m. gömlu kempurnar. Tók hann þeim öllum glaðlegur og hlýr í fasi. Þá laumaðist stundum sú hugsun að mér að svona móttökur væru einvörðungu ætlaðar fræknum þjóðhetjum.

Ég á góðar minningar um Axel, félaga minn í aldarfjórðung, og kveð hann að leiðarlokum með söknuði. Guðnýju og börnum þeirra votta ég innilega hluttekningu.

Gunnar Pálsson.

Með fátæklegum orðum langar mig að minnast Axels Nikulássonar, sem er fallinn frá – langt fyrir aldur fram. Kynntist honum fyrst sem nemanda í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Einn af þessum spræku og lifandi sem betra var að hafa með sér en á móti – rétt eins og í körfuboltanum þar sem hann var afreksmaður. Síðar lágu leiðir okkar saman þegar ég réði hann sem sögukennara í FS. Þar voru stigin stór heillaspor fyrir marga nemendur. Axel tókst nefnilega að gera söguna lifandi og vekja nemendur sína til umhugsunar um efnið. Minnisstætt er þegar hann kom skellihlæjandi á kennarastofuna og sagði frá því að nemendur hans sætu enn í kennslustofu þótt komnar væru frímínútur. Hann hafði skipt bekknum í tvo hópa til að nálgast sögulegt efni á ólíkum forsendum. Hóparnir enduðu í háværum deilum. „Þau eru a.m.k. farin að hugsa um þetta tímabil.“ Og svo hló hann þessum yndislega og smitandi hlátri. Afburðakennari og hrókur alls fagnaðar á kennarastofu.

Eftir að báðir voru hættir í FS hittumst við Axel á þingi Sameinuðu þjóðanna. Þangað kom ég í hópi íslenskra þingmanna en Axel tók á móti okkur sem starfsmaður íslensku sendinefndarinnar hjá SÞ. Og hvað maður fylltist stolti þegar hann gekk um þessa stóru og virðulegu byggingu. Hvar sem við fórum kom fólk af öllum stærðum og gerðum með bros á vör og faðmaði „Axel, my friend ...“. Þetta var einmitt svo dæmigert fyrir Axel Nikulásson. Rétt eins og í FS. Hann var vinur allra og laðaði að sér fólk enda skemmtilegur með afbrigðum og hlýr. Réttlætiskennd hafði hann ríka en þegar honum mislíkaði fékk hann útrás með sínum einstaka húmor. Maður er ríkari sem manneskja eftir að hafa kynnst honum Axel Nikulássyni.

Guðnýju og fjölskyldunni allri sem og ættingjum öllum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Hjálmar Árnason.

Árið er 1995, allir ungir og frískir í utanríkisráðuneytinu. Grétar Már Sigurðsson, þá skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu, biður mig að koma með sér upp á Keflavíkurflugvöll, „beisinn“, að keppa í körfubolta við vin hans Stanley W. Bryant aðmírál, yfirmann bandaríska hersins á Íslandi, sem hafði skorað á Grétar að taka einn leik, en báðir máttu hafa einn með sér. Í þá daga var ég tveggja pakka maður, en hvað gerði maður ekki fyrir Grétar vin sinn? Við höfðum körfuboltavöllinn fyrir okkur og svo var byrjað að spila. Tjaran í lungunum fór að segja til sín og sviti og mæði náði að hægja á mér, þeir Bryant aðmíráll voru að vinna og Grétar sagði mér að hvíla, nú?

Grétar öskrar: „Axel, inná!“ Axel hver?

Svo kemur þessi brosandi risi inn á völlinn, breiður og sterklegur, Stanley góndi, og svo byrjaði leikurinn fyrir alvöru. Grétar driplaði og gaf á Axel sem hoppaði upp yfir aðmírálinn og skaut að körfunni og hitti alltaf. Skælbrosandi. Enginn sviti, engin mæði, bara lífs- og leikgleði, sem Axel smitaði út frá sér. Grétar og Axel unnu leikinn, ég sat sveittur á hliðarlínunni og dáðist að þeim tveimur í sigurliðinu, Axel og Grétari Má, stórum og sterkum mönnum. Báðir urðu mínir bestu vinir í utanríkisráðuneytinu.

Bryant aðmíráll bauð í hádegismat á „beisnum“, ógleymanlegt, og þar byrjaði ég að kynnast Axel Nikulássyni, vinátta sem átti eftir að endast alla þá daga sem okkur hafa verið skammtaðir.

Leiðir okkar lágu oft saman. Þótt einhver ár skildu á milli í útlöndum, þá var alltaf eins og við hefðum hist í gær. Alltaf sama brosið, sama viðmótið, þessi sami yndislegi Axel.

Árið 1997 erum við hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, ógleymanlegur Axel. Alltaf gaman að vinna með honum, brosandi og jákvæður, allir dagar voru skemmtilegir.

Axel situr við tölvuna og ég geng um gólf, skrifum þetta og hitt, Axel leiðréttir, eiturfljótur að skrifa og mótmæla. Eftir tvo tíma erum við tveir búnir að skrifa ræðu utanríkisráðherra á Allsherjarþingi SÞ. Sendiherrann situr sveittur eftir að lesa drögin yfir.

Við förum út og kaupum samloku og Axel beyglu á delanum og sitjum úti í sólinni og kjöftum, dýrðardagar.

Hann hjálpar strákum frá Íslandi úr körfuboltanum að fóta sig í Bandaríkjunum, jákvæður og bjóðandi allt sem hann getur. Svo fór hann til Kína og naut sín þar með fjölskyldunni. Eftir 2013 erum við báðir í utanríkisráðuneytinu og þá var gott að hafa Axel að tala við. Það gustaði alltaf af þessum stóra, síbrosandi, velviljaða manni, sem gengur ekki lengur um gangana í ráðuneytinu og talar við alla, allir voru vinir hans.

Nú sit ég hérna einn, í huganum, á hliðarlínunni á „beisnum“. Liðið mitt er farið.

Axel vinur minn er nú fallinn frá langt fyrir aldur fram og völlurinn stendur auður.

Við Guðrún vottum Guðnýju og börnunum okkar dýpstu samúð, blessuð sé minning Axels.

Stefán Lárus Stefánsson sendiherra.

Kæri Axel. Ég gleymi aldrei fyrsta samtalinu okkar í nóvember 2011, þegar ég hringdi í sendiráðið í London til að fræðast um starfsnám mitt sem átti að hefjast í janúar næsta ár, hið mikla ólympíuár 2012. Þú varst svo jákvæður og hjálpfús, þá sem endranær, og það var einmitt eitt af því sem einkenndi þinn góða karakter. Ég var alltaf svo heillaður af því hvað þú varst tilbúinn að rétta hjálparhönd og lést fólki í kringum þig líða vel, enda ávallt stutt í húmorinn. Annað sem heillaði mig var hvað þú varst mikill ævintýramaður, enda þótt þér fyndist gaman að lesa um ævintýri í skáldsögum, lestrarhesturinn sem þú varst, þá lifðir þú þau sjálfur. Þú svafst lítið enda of upptekinn við að lifa lífinu.

Eftir að níu mánaða starfsnámi mínu lauk í sendiráðinu héldum við í vináttu okkar og ég er þakklátur fyrir öll þau skipti sem við hittumst yfir kaffibolla eða taílenskri núðlusúpu. Í hvert sinn sem við hittumst miðlaðir þú af visku þinni og gafst mér góð ráð, t.d. varðandi starf mitt hjá Háskóla norðurslóða, enda hafðir þú komið víða við, hitt mann og annan og þekki ég fáa sem eru betur lesnir.

Þú varst ekki einungis framúrskarandi starfsmaður utanríkisþjónustunnar og fulltrúi Íslands á erlendri grundu, þú varst einnig kærleiksríkur fjölskyldufaðir og eiginmaður sem settir familíuna ávallt í fyrsta sæti. Síðast en ekki síst varstu traustur vinur og okkar vináttu mun ég varðveita í hjarta mínu með þakklæti. Ég fagna lífi þínu og kveð þig að sinni í þessum efnisheimi og veit að við munum hittast aftur þegar tíminn kemur.

Guðnýju, Agli, Bjargeyju og Fríðu sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Eyjólfur Eyfells.

Margir menn brjótast úr fátækt til afreka en fáir eins og Axel. Orð hans bergmála víða; á Þjóðþingi alþýðunnar í Peking, sjoppu í Reykjanesbæ, höfuðstöðvum NATO í Brussel og íþróttahúsinu Austurbergi.

Hann sagði mér frá því hvernig móðir hans einstæð átti ekkert til að bíta og brenna fyrir systkinin. Hann var sendur niður á bryggju til að biðja um fisk í soðið. Seinna var hann rómaður fyrir að svara mönnum uppi í stúku í körfuboltanum. Ímynda mér að hann hafi verið með sama bros á vör, spyrjandi um fisk og svarandi sjálfskipuðum sérfræðingunum. Sama bros sem sagði – taktu lífinu létt.

Eitt minnisstætt sem hann sagði var að það væri einfaldast að lifa lífinu þannig að þú þyrftir aldrei að biðjast fyrirgefningar. Þó svo að hann væri löngu hættur að þjálfa mig í körfu hélt ég fyrst að hann ætti við olnbogaskot en síðar á lífsleiðinni rann upp fyrir mér að hann var að tala um lífið sjálft og hvernig maður kæmi fram við aðra og sjálfan sig.

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að kynnast Axel sem körfuboltaþjálfara, samstarfsmanni og vini. Hann hvatti mig áfram frá fyrsta degi. Ekki til að vera kumpánlegur heldur vegna þess að hann hafði trú á fólki. Eitt sinn tók hann mig unglinginn til hliðar á körfuboltaæfingu. Ég ætti að einbeita mér að hraða og tækni og verða hávaxinn leikstjórnandi. Löngu síðar kallaði hann yfir skrifstofuna sína „mikið rosalega lekur af þér smjörið“ þar sem ég var kominn í betri hold hálfþrítugur. Hvatning, kímni og gagnrýni voru alltaf og allt í senn jákvæð orð hjá honum.

Í bikarúrslitaleik með KR gegn sínum gömlu félögum í Keflavík var slagorð áhorfenda: „Axel er svikari, við vinnum bikarinn.“ Ímyndið ykkur brosið og þvílík hvatning það var fyrir hann að heyra. Sama bros og þegar hann þurfti að biðja um fisk og sama bros sem hann deildi með Guðnýju, börnunum og hverjum manni sem á vegi hans varð. Það var alltaf aðeins bjartara yfir þar sem Axel átti leið hjá og það ljós mun halda áfram að skína líkt og brosið sem vann bikarinn.

Hafliði Sævarsson.

Vinur minn Axel A. Nikulásson er fallinn í valinn eftir harða baráttu við erfið veikindi.

Fyrstu kynni mín af þeim tvíburabræðrum Axel og Óskari voru á lóð barnaskólans í Keflavík, fjörmiklir báðir tveir og áberandi í sínum árgangi. Sem krakki var Axel góður í fótbolta en knattspyrnuferill hans varð ekki langur því ungur fékk hann mikinn áhuga á körfubolta og lagði allan sinn metnað í þá göfugu íþrótt. Hann og fleiri lögðu síðan grunninn að því að Keflavík varð eitt af stórveldunum í íslenskum körfubolta. Axel var afburðaleikmaður og uppskar ríkulega; vann allt sem í boði var og lék 63 landsleiki fyrir Íslands hönd.

Í Fjölbrautaskóla Suðurnesja á árunum 1979-82 urðum við Axel nánir vinir og hélst sú vinátta óslitin í þau rúmu 40 ár sem liðin eru. Í FS unnum við saman ýmis verkefni sem við höfðum gaman af að rifja upp síðar á lífsleiðinni. Þau Bergljót Kristjánsdóttir og Matthías Viðar Sæmundsson kenndu okkur íslensku á þessum árum og kveiktu svo um munaði mikinn bókmenntaáhuga hjá okkur Axel og fleirum. Við hittumst varla án þess að rifja upp þessa tíma.

Við Axel vorum saman í nemendastjórn skólans sem samanstóð af einstökum vinahópi sem hefur hist reglulega allt til dagsins í dag og gert eitthvað skemmtilegt saman. Axel hafði mikla nærveru og verður hans sárt saknað á komandi stjórnarfundum.

Þó svo Axel hafi ekki náð háum aldri er huggun í þeirri staðreynd að hann náði að upplifa meira en flestir. Mestan sinn starfsaldur vann hann hjá utanríkisráðuneytinu og bjó og starfaði í mörg ár erlendis. Hann bjó m.a. í New York með Guðnýju konu sinni og börnum þegar árásin var gerð á Tvíburaturnana 2001. Þau hjón bjuggu svo í Kína í fimm ár og voru Ólympíuleikarnir í Peking 2008 Axel einkar eftirminnilegir. Axel var vel ritfær og árið 2011 fékk hann mig til að setja upp bók sína Einhver ár í Kína. Vorið 2013 fór ég ásamt konu og syni í ógleymanlega ferð til Englands og gistum við hjá Axel og Guðnýju sem þá bjuggu í London. Við áttum dásamlegar samverustundir með þeim og börnunum; fórum vítt og breitt um borgina, skoðuðum sýningar og fórum á söfn.

Eftir að Axel greindist með hinn illvíga óvin kom keppnismaðurinn upp í honum; sagði hann að hér væri komið verkefni sem þyrfti að takast á við. Hann væri staðráðinn í að leggja þennan fjanda að velli. Engin sjálfsvorkunn kom til greina þrátt fyrir erfiðar aðgerðir og lyfjameðferðir. Óvininn skyldi leggja að velli með húmor, auðmýkt og æðruleysi. Ég heimsótti hann nokkrum sinnum þegar hann var að jafna sig eftir baráttulotur. Hann tók á móti manni með þéttu faðmlagi og breiðu brosi, bauð til stofu þar sem allt milli himins og jarðar skyldi rætt og krufið til mergjar. Óvinurinn sem Axel barðist svo hetjulega við öll þessi ár reyndist að lokum vera of öflugur andstæðingur.

Ég votta Guðnýju, Fríðu, Agli og Bjargeyju mína dýpstu samúð, þeirra er missirinn mestur. Einnig sendi ég öllu hans skyldfólki og vinum kveðju vegna fráfalls Axels. Minningin um þennan afburðadreng mun lifa.

Þorfinnur Sigurgeirsson.

Fallinn er frá langt fyrir aldur fram félagi okkar og vinur Axel Nikulásson.

Axel var mjög góður körfuboltamaður og sigursæll. Hann var svo sannarlega keppnismaður með stóru k-i, algjör bardagamaður og sætti sig ekki við neitt nema slíkt hið sama frá liðsfélögum sínum. Axel gekk til liðs við okkur haustið 1989 og strax frá fyrstu æfingu var ljóst að þar var á ferðinni sá leiðtogi sem liðið vantaði til að fara alla leið. Kom það enda á daginn að um vorið stóðum við uppi sem sigurvegarar í Íslandsmótinu eftir magnað tímabil og taplausa úrslitakeppni. Það var ekki tilviljun að við KR-ingar urðum Íslandsmeistarar árið sem Axel gekk í okkar raðir, en árið áður hafði hann einmitt átt stóran þátt í fyrsta Íslandsmeistaratitli Keflavíkur.

En Axel var svo sannarlega margt annað til lista lagt en að spila körfubolta. Utan vallar var hann hrókur alls fagnaðar, hafði gaman af að segja sögur og aldrei logn í kringum kappann. Hæfileikar Axels á diplómatíska sviðinu komu svo sannarlega í ljós þegar við fórum fjórir félagarnir úr KR að heimsækja liðsfélaga okkar Anatolij Kovtoun, sem þá lá á sjúkrahúsi í Sovétríkjunum. Ókum við sem leið lá frá Lúxemborg alla leið til Svarta hafsins. Ýmis vandamál komu upp á leiðinni sem oftar en ekki kom í hlut Axels að leysa úr, sem hann gerði með sínum alkunnu persónutöfrum þó svo ekkert væri sameiginlegt tungumálið.

Mikill meistari er að kveðja okkur allt of snemma og við kveðjum góðan vin með sorg í hjarta. Hugur okkar er hjá Guðnýju, börnum og öðrum nákomnum og sendum við þeim okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Hvíl í friði vinur.

F.h. liðsfélaga úr KR 1990,

Guðni Ó. Guðnason.

Í dag kveðjum við kæran samferðamann, Axel Nikulásson.

Axel var ötull í foreldrastarfi Háteigsskóla og var skólanum ómetanlegur í störfum sínum. Þar skipti engu hvort um var að ræða utanumhald um einstaka viðburði, gjaldkerastörf eða þátttöku í skólaráði, allt var unnið af nákvæmni og fagmennsku.

Hann var sögumaður og þeir eru ófáir fundirnir sem urðu lengri en áætlað var þegar Axel fór að segja frá. Hann var stemningsmaður og húmoristi en líka með keppnisskap og vildi skólanum allt það besta. En umfram allt þá var Axel mannvinur.

Háteigsskóli sendir fjölskyldu Axels innilegar samúðarkveðjur.

Minning hans mun lifa með okkur um ókomna tíð.

Fyrir hönd Háteigsskóla og foreldrafélags Háteigsskóla,

Arndís Steinþórsdóttir skólastjóri.

Í dag kveðjum við stórvin okkar Axel Arnar Nikulásson. Axel var stór karakter í orðsins fyllstu merkingu, öll lífsins verkefni léku í höndunum á honum. Samviskusemi, jákvæðni, kraftur, einlægni og óþrjótandi áhugi á fólki voru hans aðaleinkenni. Axel var með fróðleiksfúsari mönnum, vel lesinn, þar sem mannkynssagan var sérstakt áhugamál, frábær penni og bloggari og ef Axel var ekki með bók í hendi, þá saumaði hann út, þar sem smæð nálarinnar var í skemmtilegri og hrópandi mótsögn við stóru hendurnar. En þannig var Axel; engin verkefni voru of stór eða lítil. Axel kryddaði lífið og verkefnin síðan með sínum einstaka húmor og hnyttni, orðsnilldin var mikil og hann vildi nú oftast eiga síðasta orðið, ekki síst þegar hann gerði garðinn frægan á körfuboltaárunum.

„It is what it is“ svaraði Axel til þegar veikindin bar á góma. Naglinn Axel tókst á við það verkefni af æðruleysi og þrautseigju. „Áfram gakk“ voru einkunnarorð hans í þessu langa og erfiða ferli.

Við vinirnir yljum okkur við ríkulegan minningabanka, áratuga vináttu og fíflagang, gestrisni, gleðistundir og vinafundi víða um heim.

Hugur okkar er hjá elsku Guðnýju, Fríðu, Agli og Bjargeyju, móður og systkinum. Missir ykkar er mikill.

Hvíl í friði kæri vinur.

Una og Reynir,

Kiddý og Eiríkur,

Hulda og Óli.