Guðni Ágústsson
Guðni Ágústsson
Eftir Guðna Ágústsson: "Landbúnaðurinn er grunnatvinnuvegur matvælaframleiðslunnar. Svandísi Svavarsdóttur skal óskað velfarnaðar í mikilvægu starfi."

Fyrirsögn þessarar greinar er bein tilvitnun í ummæli Hjördísar Leifsdóttur á Brúnastöðum í Fljótum, sem komu fram í hlaðvarpsþætti mínum „Spjallvinir Guðna Ágústssonar um sveitina, bændur og búalið“ (landbúnaðarráðherra mannlíf.is.). Á Brúnastöðum er rekið eitt glæsilegasta sauðfjárbú landsins með um tvö þúsund fjár í sumarhögum. Þar er hafin framleiðsla á geita- og sauðaostum og rekinn fjölbreyttur búskapur ásamt ferðaþjónustu.

Það hefur legið fyrir um langa hríð að sauðfjárbændur glíma við erfiðleika vegna lágs afurðaverðs og nú bætist ofan á það hátt áburðarverð og hækkanir á öllum aðföngum. Trausti Hjálmarsson sauðfjárbóndi rekur ástæður verðlækkunarinnar í síðasta Bændablaði: „Árið 2016 varð 10% verðfall og árið 2017 hrundi afurðaverð um 30%.“ Þetta er meira en nokkur atvinnuvegur þolir, og lítið hefur þokast í rétta átt síðan. Ástæðan er offramleiðsla, ekki síst vegna þess að útflutningsmarkaðir brugðust, segir hann.

Um þessar mundir sýnir RÚV þættina Verbúðina sem segja frá hvernig komið var fyrir sjávarútveginum þegar stjórnmálamenn tóku upp fiskveiðistjórnunarkerfið og breyttu öllum lögmálum til að losa atvinnuveginn frá gjaldþrotum og eilífum áföllum. En gengisfellingar voru tíðar hér áður vegna þess að sjávarútvegurinn rak sig ekki. Sjávarútvegurinn bjó við umgjörð sem gerði það að verkum að útgerðir hvorki lifðu né gátu dáið. Enda var viðkvæðið að allt væri að fara „norður og niður og til andskotans“, eins og stjórnmálamaðurinn Sverrir Hermannsson orðaði það.

„Ræktum Ísland“ er leiðarvísir breytinga

Ég vona að löngu tímabili aðgerðaleysis sé að ljúka í landbúnaðarmálum, verkefni færist heim á ný í landbúnaðarráðuneytið og „skúffan“ og virðingarleysið gagnvart bændum heyri fortíðinni til. Að landbúnaðurinn fái ekki síðri aðbúnað og umgjörð en sjávarútvegurinn í nýju matvælaráðuneyti. Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn fólu Svandísi Svavarsdóttur að fara með bæði land og sjó í nýrri ríkisstjórn. Vonandi er það ekki merki um minnkandi stuðning flokkanna við þessa miklu grunnatvinnuvegi þjóðarinnar. Og nú sem jafnan áður verða þeir að taka á með ráðherranum og bændaforystunni. Ég vil trúa því að hinn nýi landbúnaðarráðherra láti verkin tala. Aðalatriðið er það sama og með sjávarútveginn forðum: að byggja upp umgjörð sem gerir sauðfjárbændum kleift að lifa. Og hinum fjölbreytta landbúnaði sem er lífakkeri landsbyggðarinnar að dafna eins og kemur fram í viðtali bóndans á Brúnastöðum í Fljótum.

„Ræktum Ísland“ er merkilegt umræðuskjal Björns Bjarnasonar fyrrverandi ráðherra og Hlédísar H. Sveinsdóttur, um landbúnaðinn og landsbyggðina, en Kristján Þór Júlíusson valdi Björn og Hlédísi til þessa mikla verks. Þau tilgreina 22 skref sem að mati verkefnastjórnarinnar er nauðsynlegt að stíga við gerð aðgerðaáætlunar sem yrði tímasett og kostnaðarmetin. Nítján efnisflokkar eru teknir til rækilegrar umfjöllunar. Með þeim unnu að tillögunum Sigurgeir Þorgeirsson og Bryndís Eiríksdóttir. Ríkisstjórnin hefur gefið nýtt fyrirheit gagnvart landbúnaðinum í stjórnarsáttmála sínum. Landbúnaðurinn er grunnatvinnuvegur matvælaframleiðslunnar. Svandísi Svavarsdóttur skal óskað velfarnaðar í mikilvægu starfi. Vonandi tekst henni að höggva á marga hnúta og leiða bændur og neytendur til nýrra tíma.

Höfundur er fv. alþingismaður og ráðherra.

Höf.: Guðna Ágústsson