Sigurður Þórðarson fæddist 11. janúar 1974 á Akranesi. Hann lést á sjúkrahóteli Landspítala 24. janúar 2022.

Foreldrar hans eru Þórdís Sigurðardóttir, f. 5. janúar 1956, og Þórður Jóelsson, f. 29. september 1955. Systir Sigurðar, sammæðra, er Vaka Antonsdóttir, f. 1978. Maki hennar er Björn Lindberg og börn þeirra eru Ása, Saga og Hulda. Sigurður ólst upp á heimili móður sinnar og Guðbjargar Pálsdóttur, f. 24. apríl 1956. Sonur Guðbjargar og uppeldisbróðir Sigurðar er Héðinn Björnsson, f. 1981. Maki hans er Susanne Lilja Buchardt og börn þeirra eru Elín og Astrid.

Sigurður kvæntist hinn 14. júní 1998 Hlín Einarsdóttur, f. 1977. Foreldrar hennar voru Einar Oddgeirsson, f. 1949, d. 2005, og Valgerður Kristín Brand, f. 1947, d. 2008. Sigurður og Hlín skildu eftir tíu ára hjónaband. Börn þeirra eru Alvin, f. 10. september 2004, og Blædís Birta, f. 6. apríl 2006.

Sigurður ólst upp í Reykjavík ef undanskilin eru árin 1983-1988 þegar hann bjó ásamt fjölskyldu sinni í Árósum í Danmörku. Á barnsaldri var Sigurður mikið hjá móðurafa og –ömmu á Akranesi. Þar átti hann stóra fjölskyldu og eignaðist góðan vinahóp. Hann eignaðist einnig marga vini í Árósum sem hann hélt tengslum við ævilangt.

Sigurður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1995 og B.Sc.-gráðu í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2017. Sigurður starfaði við ýmislegt um ævina, seinni árin einkum í byggingariðnaði.

Sigurður verður jarðsunginn frá Háteigskirkju í dag, 7. febrúar 2022, og hefst athöfnin kl. 13.

Í dag kveð ég Sigga bróður minn sem nú er fallinn frá. Í æsku leit ég mjög mikið upp til Sigga eða brósa eins og honum líkaði best að vera titlaður. Mér þótti hann svo klár og skemmtilegur. Alltaf snyrtilegur og flottur til fara. Ég var líka handviss um að hann hlyti að vera svakalega vinsæll. Ég man hvernig ég baðaði mig í stolti í hvert sinn sem ég gat komið því að að Siggi væri bróðir minn.

Siggi var stútfullur af hæfileikum. Hann var góður á bókina og einbeittur. Hann gat setið yfir námsbókum í margar nætur ef stærðfræðipróf var á næsta leiti. Krufið efnið og þekkinguna til fullkomnunar. Hann var handverksmaður. Gat málað og smíðað og gert við. Vandvirkni og nákvæmni einkenndu vinnu hans. Hann vildi að öll verk væru unnin samkvæmt þeim gæðastöðlum sem hann hafði sett sjálfum sér.

Sigga þótti svo innilega vænt um börnin sín tvö og fjölskylduna sína alla. Í eðli sínu var hann trúr og trygglyndur og mat vináttu mikils. Stundum bárust óvæntar gjafir frá honum með póstinum. Oftar en ekki einhver vitleysa, skemmtileg vitleysa. Hans gjafir áttu ekki að vera praktískar eða hafa uppeldislegt gildi. Þær áttu að gleðja.

Siggi trúði á hinn æðri mátt og ég trúi því að nú hvíli hann í sumarlandinu fallega. Með þessum fátæklegu orðum kveð ég minn kæra stóra bróður sem mér þótti svo afskaplega vænt um.

Farvel elsku Siggi.

Þýtur í laufi, bálið brennur,

blærinn hvíslar sofðu rótt.

Hljóður í hafið röðull rennur,

roðnar og býður góða nótt.

(Tryggvi Þorsteinsson / Aldís Ragnarsdóttir)

Vaka systir.

Sem barni fannst mér gífurlega spennandi að fylgjast með Sigga, svala stóra bróður mínum. Hann var með herbergi á loftinu sem var fullt af stórabróðurhlutum. Græjur og safn af plötum og geisladiskum, rafmagnsgítar og alls konar dót og snúrur frá bílskúrsbandinu sem hann var í, sverð og kylfur úr bardagaíþróttunum í bland við alls konar handverkshluti sem hann hafði gert af natni. Þetta var ævintýraland fyrir lítinn strák, en hann Siggi hafði hlutina sína í röð og reglu og vissi alltaf ef maður hafði verið að stússa í leyfisleysi í dótinu hans, þótt hann tæki því yfirleitt vel.

Hann var mikill fjölskyldumaður og hann hafði mig með frá pottormaaldri í leikjum með stóru spennandi frændsystkinunum. Við áttum líka sameiginlegt að eiga sterk tengsl við eldri fjölskyldumeðlimi, en hann var mikill ömmustrákur. Meðan ég var oft óttalega gamaldags tókst Sigga einhvern veginn áreynslulaust að láta það ganga hönd í hönd, að halda upp á það gamla, þjóðlega og fylgja alþjóðlegum tískustraumum.

Eftir því sem við fullorðnuðumst þróaðist líf okkar hvors í sína áttina, og hvor sínum megin við Atlantshafið, en alltaf lifði væntumþykja, sem aðeins þurfti klukkutímaspjall hér og þar til að halda lifandi. Við fylgjum Sigga nú til grafar og ég sé hann fyrir mér hinum megin, að leysa hnúta í garni fyrir ömmu sína og með litla hundinn sinn hann Rebba sér við hlið, reytandi af sér aulabrandarana.

Héðinn Björnsson.

Í dag kveð ég kæran frænda og samferðamann. Sigurður frændi eða Siggi eins og hann var kallaður var jafn gamall og ég – nánast upp á dag. Við lágum saman einn dag á fæðingardeildinni, vorum skírð saman og fermd saman. Margar góðar minningar koma upp þar sem ég fékk að kynna þennan framandi og fallega frænda minn fyrir vinum mínum. Siggi bjó nefnilega stóran hluta af sínum bernskuárum í Danmörku. Hann var heimsmaður sem kom með mér í skólann á Akranesi ef fríið hans lenti á skóladegi hjá mér. Ég fékk svo á móti tækifæri á að búa hjá honum í Árósum og fara með honum í skólann og kynnast ævintýralegu lífi stórborgarinnar Beder. Siggi einfaldlega vissi allt, gat allt og þekkti alla í sínum heimabæ og við hin nutum góðs af því.

Það var einstaklega fallegur þráður í honum Sigga, eitthvað sem gerði hann svo hlýjan og traustan. Hann þoldi ekki óréttlæti eða óheiðarleika, var vinur vina sinna og mikill fjölskyldumaður.

Siggi sýndi stuðning sinn fyrstur manna og alltaf þegar eitthvað kom upp. Þau eru ófá skilaboðin frá honum þar sem hann hefur lagt mikið í að finna réttu orðin til þess að tjá gleði sína fyrir mína hönd eða sorg. Skilaboð sem var ætlað að stappa í mig stálinu eða gleðjast fyrir mína hönd. Það síðasta sem hann sendi mér var afmæliskort nú um miðjan janúar sem endar með þessum orðum: Þinn frændi og næstum tvíburi.

Ég mun sakna þessa dugmikla og fallega frænda mikið. Hann var einn af þessum sem snerta mann djúpt.

Líf vort er tónn; á hörpu ljóss og húms

það hljómar skammt,

grætur og hlær við hliðskjálf tíma og rúms,

en hljómar samt;

síðan einn dag, þann dag veit engin spá,

er dauðaþögn og tónninn liðinn hjá.

Vinur í raun: hér hvílir þú svo hljótt,

en hjarta nær

ómar þitt líf sem lýsi gegnum nótt

einn logi skær.

Traust var þín hönd og trú við hlutverk sitt,

en tónsins djúp var góða hjartað þitt.

Þökk sé þér vin: Við lifum lítil börn

og líðum burt.

Vor tónn er sár, við eigum enga vörn

- um allt er spurt.

Líf þitt er svar: á bak við skúr og skin

við skynjum þig, hinn liðna trygga vin.

(Árni J. Árnason)

Helga Viðarsdóttir.

Ég vil minnast Sigga frænda míns. Ég var fimm ára þegar ég man fyrst eftir okkar ferðum saman. Við fórum í Laugardalslaugina og eftir sund bauð hann upp á pylsu og kókómjólk. Þegar ég var unglingur áttum við okkar fyrstu ferðir í keilu eða bíó og ég gisti heima hjá honum. Sumarið 2018 stendur upp úr af okkar ferðum eða ævintýrum en þá sáum við cover-hljómsveit Iron Maiden og fórum á Hard Rock Cafe. Á afmælinu mínu fórum við sunnudagsrúnt að Seljalandsfossi, spiluðum mínígolf á Slakka og enduðum í sundi og úti að borða á Selfossi. Við toppuðum síðan sumarið á tónleikum með Gun's and Roses. Við höfðum sama góða tónlistarsmekk og rokkið var okkar. Siggi var alltaf góður og traustur vinur minn. Hvíldu í friði elsku frændi.

Magnús Viðarsson.