Hitabeltisparadís Marga Íslendinga dreymir líklega um það að vera á Tenerife meðan lægðin gengur yfir. Vetrarvertíðin hefur verið erfið á Kanarí.
Hitabeltisparadís Marga Íslendinga dreymir líklega um það að vera á Tenerife meðan lægðin gengur yfir. Vetrarvertíðin hefur verið erfið á Kanarí.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Logi Sigurðarson logis@mbl.is Vetrarvertíð ferðaþjónustunnar á Kanaríeyjum hefur átt undir högg að sækja sökum Ómíkron-afbrigðisins. Sjötta bylgja faraldursins í landinu hefur haft mikil áhrif á efnahag eyjaklasans og valdið því að hagvaxtarspár hafa dregist saman og atvinnuleysi hefur aukist.

Sviðsljós

Logi Sigurðarson

logis@mbl.is

Ferðaþjónusta er stærsta atvinnugreinin í eyjaklasanum en um 35% af íbúum eyjanna starfa við hana. Í janúar ákváðu atvinnurekendur, eftir jólavertíðina, að fækka starfsfólki og tæplega 10.000 manns var sagt upp. Janúar hefur ávallt verið blóðugur mánuður fyrir starfsfólk í ferðaþjónustunni; árin 2016 og 2018 var um 6.000 manns sagt upp og má því sjá að óvenjumikið var um uppsagnir í ár.

Sigvaldi Kaldalóns, eða Svali, sem heldur úti ferðum á Tenerife, segir árið hjá ferðaþjónustunni fara mun hægar af stað en áður og vanalega sé brjálað að gera á fyrri hluta ársins. Hann segir að aðalástæða fjölda uppsagna sé óvissan sem ríkti í nóvember og desember varðandi alvarleika Ómíkron-afbrigðisins.

„Það er alveg rétt að starfsfólki hefur fækkað gríðarlega, menn þorðu ekki að veðja á að þetta myndi lagast stax,“ segir Svali og bætir við að eftir að lönd hafi farið aflétta takmörkunum í auknum mæli séu bókanir byrjaðar að hrannast aftur inn.

Hóteliðnaðurinn varð einna verst úti í síðasta mánuði og um 40% af þeim sem var sagt upp þá störfuðu hjá hinum ýmsu hótelkeðjum. Um 2.300 misstu starf sitt í verslunargeiranum og þar á eftir voru um 840 sem var sagt upp í byggingariðnaðinum.

Svali telur að í febrúar og sérstaklega í mars verði gríðarlega mikið að gera og bendir á að í október og nóvember, þegar ástandið var gott, hafi bókanir á hótelherbergjum aldrei verið meiri á Tenerife, ekki einu sinni fyrir faraldurinn.

„Ég geri fastlega ráð fyrir að það verði aftur álíka sprenging núna í lok febrúar.“

Svali segir einnig að yfirvöld á eyjunni stefni á að aflétta öllum takmörkunum í mars og bætir við að ferðamenn finni lítið fyrir þeim aðgerðum sem eru í gildi nú.

Ef litið er til framlagsgreiðslna til lífeyrissjóðs má sjá hækkun frá því í febrúar 2020, áður en faraldurinn skall á. Nú eru um 822 þúsund sem greiða í lífeyrissjóð miðað við 818 þúsund fyrir faraldurinn.

Ástæða þessarar aukningar er vöxtur í opinberum störfum í eyjaklasanum í heilbrigðisþjónustu, menntamálum og opinberri stjórnsýslu. Þessi vöxtur leiddi til 17.300 nýrra starfa á móti um 16.200 töpuðum störfum í ferðamannageiranum á tímum faraldursins.

Atvinnuleysi á eyjunni jókst um 2,14% í janúar í eyjaklasanum og um 207 þúsund manns voru á atvinnuleysisskrá í lok janúar.

Atvinnuleysi í hótelgeiranum jókst mest eða um 4,8% og svipað var í verslunargeiranum, en þar jókst atvinnuleysi um 4,2%.

Fleiri konur misstu vinnuna en karlar og fólk á aldrinum 25 til 45 ára varð fyrir meiri áhrifum niðurskurðarins.

Á eyjunni Fuerteventura jókst atvinnuleysi um 7,3%, mest allra eyja, miðað við 2,1% á Tenerife. Ef atvinnuleysistölur og töpuð störf nú eru borin saman við janúar 2021 hefur ástandið batnað verulega.

Alltaf sól og blíða á Tene

Tenerife hefur verið vinsæll áningarstaður Íslendinga síðustu ár. Svali Kaldalóns segir ástæður vinsælda eyjunnar vera margvíslegar en fyrst og fremst sé það veðrið sem heilli Íslendinga.

„Þetta er eini staðurinn sem tilheyrir Evrópu þar sem þú getur farið yfir hávetur í tuttugu gráður og strönd. Svo er enginn tímamismunur og beint flug. Þetta er svo auðvelt og þægilegt,“ segir Svali og bætir því við að gríðarlegur fjöldi Íslendinga sé á eyjunni og um sex vélar, fullar af Íslendingum, fari vikulega til Tenerife.

Hann segir einnig að framboð á ferðum til eyjunnar sé mikið og það endurspeglist í verðinu.

„Það er samkeppni milli ferðaskrifstofa. Þannig að verðið hefur verið nokkuð gott.“