Samgöngur Breyttir atvinnuhættir kalla á aukna uppbyggingu og þjónustu, segir Bergþóra Þorkelsdóttir, hér í stjórnstöð Vegagerðarinnar þar sem helstu leiðir á landinu og jarðgöng eru í mynd og stöðugri vöktun.
Samgöngur Breyttir atvinnuhættir kalla á aukna uppbyggingu og þjónustu, segir Bergþóra Þorkelsdóttir, hér í stjórnstöð Vegagerðarinnar þar sem helstu leiðir á landinu og jarðgöng eru í mynd og stöðugri vöktun. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Okkar verkefni eru að byggja upp og reka samgöngukerfi sem fylgir örri þróun þjóðfélagsins,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Okkar verkefni eru að byggja upp og reka samgöngukerfi sem fylgir örri þróun þjóðfélagsins,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar. „Aukin umsvif í ferðaþjónustu og breyttir atvinnuhættir kalla á aukna uppbyggingu og þjónustu. Meiri áhersla á valkosti sem hvetja til virkra samgöngumáta kalla á uppbyggingu samgöngukerfa fyrir önnur farartæki en bílinn svo sem hjóla- og göngustíga. Þörfin fyrir góðar samgöngur er rík og vilji okkar sá að gera jafn mikið og hægt er fyrir þá fjármuni sem til ráðstöfunar eru hverju sinni.“

Umbætur á höfuðborgarsvæði

Framkvæmdafé Vegagerðarinnar í ár er um 17 milljarðar króna, borið saman við 23 ma. kr. í fyrra. Bergþóra segir að í samdrætti þessum verði þó að taka tillit til þess að tveir ma. kr. hafi verið færðir frá samgönguáætlun til Betri samgangna ohf . sem halda utan um samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Vegagerðin annast undirbúning og framkvæmd verka fyrir félagið sem áætlar verklegar framkvæmdir fyrir þrjá ma. kr. á þessu ári.

Lengi hefur verið kallað eftir róttækum umbótum í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu, svo umferð þar verði greiðari. Slíkt þykir nú komið í framvindu með sáttmálanum. Stærsta verkefni undir merkjum sáttmálans árið 2022 er uppbygging á þriðja og síðasta áfanga Arnarnesvegar. Kaflinn sá er frá Rjúpnavegi í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík og er um 1,3 km.

Önnur verkefni á höfuðborgarsvæðinu nálægt í tíma eru Sæbrautarstokkur, frá Elliðaárdal og um einn km í átt að Vogahverfi. Framkvæmdir hefjast eftir um tvö ár. Samhangandi því er endurgerð gatnamóta Bústaðavegar og Reykjanesbrautar við Sprengisand. Framkvæmdir við Vesturlandsveg í Mosfellsbæ hefjast svo á næstunni, en þar er verið að ljúka breikkun og aðskilnaði akstursstefna í öryggisskyni.

Byrja á borgarlínu

„Forhönnun fyrstu lotu borgarlínu er hafin. Gert er ráð fyrir því að hönnun Fossvogsbrúar fari fram á þessu ári og framkvæmdir á því næsta. Brúin er ætluð almenningssamgöngum, gangandi og hjólandi og verður sterkt kennimark í umhverfinu. Mun jafnframt stórbæta umferðarflæði nærri HR. Brúin nýja mun marka tímamót í mörgu tilliti,“ tiltekur Bergþóra.

Í nágrenni borgarinnar í næstu framtíð eru svo framkvæmdir við annan áfanga breikkunar Vesturlandsvegar á Kjalarnesi og Reykjanesbrautar frá Hafnarfirði og suður fyrir Straumsvík.

Í vegagerð hefur lengi verið áherslumál að fækka einbreiðum hættulegum brúm. Í ár koma tvíbreiðar brýr yfir þrjú fljót í Vestur-Skaftafellsýslu; það er Jökulsá á Sólheimasandi, Hverfisfljót og Núpsvötn. Þá standa nú yfir framkvæmdir við nýja brú yfir Stóru-Laxá í Hreppum. Innan tíðar verður gengið frá samningum um vegagerð við Hornafjörð, þar sem þrjár einbreiðar brýr fara úr umferð en í staðinn koma fjórar tvíbreiðar, það er yfir Djúpá, Hornafjarðarfljót, Hoffellsá og Bergá.

Útfæra samvinnuverkefni

Rétt eins og fólk hefur gjarnan miklar meiningar um hvernig vegagerð skuli háttað hafa líka margir sterkar skoðanir á notendagjöldum af samgöngumannvirkjum. Sá háttur verður m.a. á hafður á nýjum vegkafla á hringvegi um Hornarfjarðarfljót, nýrri Ölfusárbrú við Selfoss og á nýjum vegi yfir Öxi austur á landi. Gert er ráð fyrir að ljúka samningum um framkvæmdir við Hornafjarðarfljót í vor en kynningarfundir með fjárfestum og verktökum verða haldnir nú í febrúar sem marka upphaf ferils hinna verkefnanna, samningar verða væntanlega undirritaðir í byrjun næsta árs.

„Við höfum skoðað ýmsar útfærslur samvinnuverkefna, þar sem leitað er samstarfs við einkaaðila um framkvæmd og fjármögnun. Þetta eru skilgreind verkefni þar sem einkaaðilar taka að sér ýmsa þætti svo sem fjármögnun, hönnun, framkvæmd eða rekstur. Verkefnin eru að jafnaði fjármögnuð að hluta með notendagjöldum. Við horfum meðal annars til þess hvernig Danir og Norðmenn standa að málum. Þarna þarf að finna hagkvæma útfærslu svo að veggjöld geti verið sem lægst. Þetta verður til dæmis leiðarljósið í undirbúningi vegna nýrrar brúar yfir Ölfusá, sem við gerum ráð fyrir að verði tilbúin árið 2025. Ég hef í sjálfu sér ekkert fyrir mér í því, annað en tilfinninguna, en mér finnast viðhorfin gagnvart veggjöldum vera að breytast. Andstaðan sem finna mátti fyrst virðist ekki jafn mikil og áður.“

Vetrarþjónustan er dýr

Nú á fyrstu mánuðum ársins er allra veðra von. Á eirðarlausum tímum á 21. öld er mikilvægt að leiðir séu greiðfærar. Því eru miklar kröfur gerðar til Vegagerðarinnar sem á sl. ári varði 3,4 mö. kr. í vetrarþjónustu, sem er stýrt frá stöðvum Vegagerðar í Garðabæ og á Ísafirði. Fjölfarnir staðir eru í mynd og mælingum svo hægt er að fylgjast með og stýra þjónustu eftir því.

„Vorið 2021 var óvenjulétt og það hjálpaði okkur að ná jafnvægi í fjárhag. Þó var haustið í fyrra og nýliðinn janúarmánuður þungur og aukin þörf á hálkuvörnum. Í ár áætlum við að setja 3,8 ma. kr. í vetrarþjónustuna. Óskir um aukna þjónustu vaxa stöðugt en þar ráða meðal annars breytingar á notkun vegakerfisins. Sveitarfélög og skólar hafa verið sameinuð og fólk sækir atvinnu um lengri veg. Þá er mikil atvinnuuppbygging á landsbyggðinni, svo sem í sjávarútvegi, fiskeldi og ferðaþjónustu, sem kallar á aukna þjónustu að vetri,“ segir Bergþóra.

Hver er hún?

• Bergþóra Þorkelsdóttir er fædd árið 1963 og hefur verið forstjóri Vegagerðarinnar frá 2018. Hún er dýralæknir að mennt, en hefur einnig menntun í viðskipta- og rekstrarfræðum. Var stjórnandi í atvinnulífinu í meira en tuttugu ár, síðast forstjóri ÍSAM ehf.

• Vegagerðin skiptist í Miðstöð og fimm svæði. Höfuðstöðvar eru í Garðarbæ, þar sem fer fram stefnumótun og heildarstjórnun. Svo koma Suður-, Vestur-, Norður-, Austur- og Höfuðborgarsvæði.

Hvert svæði annast framkvæmdir, viðhald, rekstur vega og þjónustu.

Rýna reynslu úr Reykhólasveit

Nú eru framkvæmdir við nýjan Vestfjarðaveg í Reykhólasveit komnar vel á veg, það er þverun fjarða og vegagerð um Teigsskóg. Um 20 ár hefur tekið að koma verkefninu yfir hindranir leyfisveitinga, kærumála og slíks. Tafir hafa verið miklar og af því segir forstjóri Vegagerðarinnar brýnt að draga lærdóm.

„Reynslan úr Reykhólasveit er sú að rýna þarf í samspil þeirra þátta sem geta haft áhrif á nauðsynleg innviðaverkefni og framgang þeirra,“ segir Bergþóra. „Auðvitað vilja allir vanda til verka og taka tillit til ólíkra sjónarmiða. Hjá Vegagerðinni er til dæmis algengt að breytingar verði á endanlegri hönnun vega eftir að drög eru kynnt. Samt þarf ferillinn að vera þannig að niðurstaða fáist án áralangra tafa, þótt skoðanir séu skiptar.“