Áfall Þúsundir tjölduðu í kringum brunninn til þess að sýna fjölskyldu Rayans stuðning. Sumir héldu á vasaljósum til þess að lýsa upp svæðið.
Áfall Þúsundir tjölduðu í kringum brunninn til þess að sýna fjölskyldu Rayans stuðning. Sumir héldu á vasaljósum til þess að lýsa upp svæðið. — AFP
Marokkóska þjóðin varð fyrir miklu áfalli í gær þegar björgunaraðilar greindu frá því að drengurinn sem féll í brunn á þriðjudag væri látinn. Björgunaraðgerðir stóðu yfir í fimm daga og öll þjóðin fylgdist með, með öndina í hálsinum.

Marokkóska þjóðin varð fyrir miklu áfalli í gær þegar björgunaraðilar greindu frá því að drengurinn sem féll í brunn á þriðjudag væri látinn. Björgunaraðgerðir stóðu yfir í fimm daga og öll þjóðin fylgdist með, með öndina í hálsinum.

Drengurinn sem féll í brunninn hét Rayan og var fimm ára gamall, en björgunaraðgerðir vöktu heimsathygli og myllumerkið Björgum Rayan fór sem eldur í sinu um netheima. Óljóst var í vikunni hvort Rayan væri enn á lífi og höfðu yfirvöld áréttað að erfitt væri að meta lífslíkur hans.

Brunnurinn 32 metra djúpur

Í tilkynningu frá yfirvöldum segir að Múhameð, konungur Marokkó, hafi hringt persónulega í foreldra Rayans til þess að tilkynna þeim andlát hans. Síðdegis á laugardag komust björgunarmenn niður að botni brunnsins, sem er 32 metra djúpur, eftir að hafa grafið að honum með gröfum og jarðýtum.

Drengurinn var enn fastur og þurfti að bora í gegnum brunninn til þess að komast að honum, en björgunaraðilar þurftu að fara hægt í sakirnar þar sem mikil áhætta fólst í því að bora að honum, vegna grjóthruns sem getur myndast vegna titrings frá bornum. Því þurfti að bora gríðarlega hægt til þess að koma í veg fyrir það. Sjónarvottar sáu foreldra drengsins labba niður að botni brunnsins algjörlega niðurbrotin. Þúsundir höfðu tjaldað í kringum brunninn til þess að sýna fjölskyldu og björgunaraðilum stuðning og blaðamaður AFP sagði ástandið hafa verið spennuþrungið.

Fólk hvatti björgunaraðila áfram, söng trúarkvæði og bað fyrir drengnum. Björgunarmenn höfðu reynt að koma súrefniskúti og vatni niður til Rayans en óljóst er hvort hann hafi náð að nota það. Brunnopið var aðeins 45 sentimetrar og var það of þröngt til þess að hægt væri að síga niður og ná í drenginn og það var talið of áhættusamt að reyna að breikka það. Faðir Rayans hafði ávarpað marokkósku þjóðina á föstudag þar sem hann sagðist vona að drengurinn væri enn á lífi og þakkaði öllum fyrir stuðninginn. Því miður varð honum ekki að ósk sinni og þjóðin syrgir nú með fjölskyldunni. logis@mbl.is