Þingvallavatn Líkin fjögur fundust um áttaleytið í gærkvöldi en ekki var kafað eftir þeim þar sem veðurskilyrði voru ekki góð.
Þingvallavatn Líkin fjögur fundust um áttaleytið í gærkvöldi en ekki var kafað eftir þeim þar sem veðurskilyrði voru ekki góð. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Inga Þóra Pálsdóttir ingathora@mbl.is Flugvélin sem hafði verið saknað síðan um hádegisbil á fimmtudag í síðustu viku fannst í sunnanverðu Þingvallavatni á ellefta tímanum á föstudagskvöld.

Inga Þóra Pálsdóttir

ingathora@mbl.is

Flugvélin sem hafði verið saknað síðan um hádegisbil á fimmtudag í síðustu viku fannst í sunnanverðu Þingvallavatni á ellefta tímanum á föstudagskvöld. Fyrst var óljóst hvort þeir fjórir sem voru um borð vélarinnar væru enn í henni en leit með kafbáti seinni part laugardags leiddi í ljós að enginn var inni í flakinu. Þar með var ljóst að mennirnir hefðu komist úr vélinni af sjálfsdáðum eftir að hún lenti í vatninu en slysstaðurinn er um einn kílómetra frá landi þar sem styst er.

Í framhaldi af því var skipulögð áframhaldandi leit. Leitarhundar, bátar og drónar aðstoðuðu við leit meðfram bökkum Þingvallavatns í gær. Þá kafaði kafbátur á vegum fyrirtækisins Teledyne Gavia á svæðinu. Í gær bárust upplýsingar um að á sónarmynd úr kafbátnum hefði sést eitthvað sem gæti hafa verið útlínur á mannslíkama. Landhelgisgæslan og sérsveitin fóru í kjölfarið að kafa eftir því.

Hættu leit vegna veðurs

Um áttaleytið í gærkvöld var greint frá því að líkin fjögur hefðu fundist. „Búið er að finna og staðsetja líkamsleifar 4 einstaklinga á botni vatnsins á 37 metra dýpi eða neðar. Undirbúið var að kafa eftir þeim en þar sem veður er að versna hratt var ákveðið að hætta aðgerðum enda ekki hægt að tryggja öryggi kafaranna við þær aðstæður sem eru núna,“ sagði í tilkynningunni frá lögreglunni.

Lögreglan segir að skipulagning á björgunaraðgerðum sé hafin og gengið verði í þær strax og veður leyfi. Þá hafa aðstandendur beðið fyrir kærar kveðjur til björgunaraðila allra fyrir þeirra störf undanfarna daga.

Flugvélin er einnig enn í vatninu en ekki liggur fyrir hvenær hún verður sótt. Aðgerðin er tæknilega flókin og til þess að hún gangi vel fyrir sig þarf að vera veðurgluggi sem varir að minnsta kosti í tvo sólarhringa.