Ásgeir Sveinsson
Ásgeir Sveinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Inga Þóra Pálsdóttir ingathora@mbl.is Ásgeir Sveinsson sigraði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ á laugardag með 697 atkvæði eða 69 prósent gildra atkvæða og mun því leiða lista flokksins í vor. Alls greiddu 1.

Inga Þóra Pálsdóttir

ingathora@mbl.is

Ásgeir Sveinsson sigraði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ á laugardag með 697 atkvæði eða 69 prósent gildra atkvæða og mun því leiða lista flokksins í vor.

Alls greiddu 1.044 atkvæði í prófkjörinu, þar af voru gild atkvæði 1.010 talsins. Auð og ógild atkvæði voru því 34. Í öðru sæti var Jana Katrín Knútsdóttir með 380 atkvæði í 1. til 2. sæti eða 37,6 prósent gildra atkvæða. Í þriðja sæti var Rúnar Bragi Guðlaugsson með 429 atkvæði samanlagt í 1. til 3. sæti eða 42,5 prósent gildra atkvæða. Í fjórða sæti var Kolbrún G. Þorsteinsdóttir með 412 atkvæði samanlagt í 1. til 4. sæti eða 40,8 prósent gildra atkvæða. Í fimmta sæti var Hjörtur Örn Arnarson með 477 atkvæði samanlagt í 1. til 5. sæti eða 47,2 prósent gildra atkvæða. Í sjötta sæti var Arna Hagalínsdóttir með 437 atkvæði samanlagt í 1. til 6. sæti eða 43,3 prósent gildra atkvæða. Í sjöunda sæti var svo Hilmar Stefánsson með 497 atkvæði samanlagt í 1. til 7. sæti eða 49,2 prósent gildra atkvæða.

Ætla ekki að styðja flokkinn

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir bæjarfulltrúi og Kristín Ýr Pálmarsdóttir varabæjarfulltrúi ætla hvorug að styðja flokkinn þegar gengið verður til kosninga í vor. Þær tóku báðar þátt í prófkjörinu og saka Ásgeir Sveinsson, nýkjörinn oddvita sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ, um óheiðarlega kosningabaráttu. Kolbrún fór fram gegn Ásgeiri en laut í lægra haldi og hafnaði í 4. sæti. Kristín Ýr bauð sig fram í 3. sæti en var ekki á meðal sjö hæstu.

„Ég og mín persóna var algjörlega tekin niður í þessu prófkjöri,“ sagði Kolbrún í samtali við Morgunblaðið morguninn eftir prófkjörið.

„Ég hef fengið hótunarsímtöl frá stuðningsmönnum hans síðustu tvö ár. Það var ýmislegt sem gerðist á kjörtímabilinu þar sem sterkir menn í flokknum hótuðu mér öllu illu ef ég myndi ekki láta mig hverfa. Það var meðal annars ástæða þess að ég þurfti að hætta sem formaður bæjarráðs.“ Þá segir hún Ásgeir hafa notað fjármál fyrrverandi eiginmanns síns gegn sér.

Ásgeir hafnar ásökununum

„Ég er bara orðlaus. Þetta kemur mér í opna skjöldu,“ sagði Ásgeir vegna ásakananna. „Fyrir mér eiga þær ekki við nein rök að styðjast. Hvað varðar tímasetninguna þá er óþægilegt og skrítið að heyra af þessu núna, daginn eftir að niðurstöður prófkjörsins liggja fyrir.“

Þá segist Ásgeir ekki hafa vitað af hótununum og lítur málið grafalvarlegum augum. Hann hefði viljað vita af málinu fyrr.

„Það voru engar hótanir á mínum vegum. Þeir sem þekkja mig vita að ég myndi ekki beita mér þannig.“