Ari Arthursson tæknifræðingur fæddist í Reykjavík 12. mars 1948. Hann lést 28. janúar 2022 á Landspítalanum Hringbraut, 73 ára að aldri. Foreldrar hans voru Arthur Tómasson og Þóra Kristinsdóttir, þau eru bæði látin. Systur Ara voru Rannveig og Þóra Kristín sem einnig eru látnar.

Ari var í Laugarnesskóla sem barn og fór síðan í flugnám og lauk einkaflugmannsprófi. Ari útskrifaðist sem tæknifræðingur frá Tækniskóla Íslands 1978. Lengst af vann hann hjá Vatnsveitu Reykjavíkur, síðar Orkuveitu Reykjavíkur.

Eftirlifandi eiginkona Ara er Guðrún Birna Guðmundsdóttir leikskólakennari, f. 8. apríl 1948. Eldri dóttir Ara og Guðrúnar Birnu er Vigdís Klara, f. 21. febrúar 1968, eiginmaður hennar er Guido Bäumer, f. 30. apríl 1965. Þau eiga tvo drengi, Marek Ara og Matthías. Yngri dóttir þeirra er Halldóra Æsa, f. 20. maí 1975, eiginmaður hennar er Geir Thorsteinsson, f. 26. mars 1967. Þau eiga þrjú börn, Þorstein, Sigurð Breka og Heklu Maríu.

Útför Ara fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 7. febrúar 2022, klukkan 11.

Þegar við hjónin skráðum okkur í samkvæmisdans á níunda áratug síðustu aldar hvarflaði það ekki að okkur að við værum þar að hitta fólk sem við ættum eftir að hitta einu sinni í viku alla vetur síðan. En þannig var það, í þessum hópi voru þau Guðrún og Ari, hún opin og hvatvís, hann hægari.

Það var Guðrúnu og Ara mjög gefandi að finna hvernig þau náðu tökum á hverjum dansinum af öðrum; enskum valsi, cha cha cha og hvað þeir heita allir.

Við áttum margar góðar samverustundir með þeim hjónum fyrir utan dansinn. Hittumst í heimahúsi, eða við ýmsar aðrar aðstæður. Heimsóknir okkar til þeirra Guðrúnar og Ara í Kofann þeirra, en svo nefndu þau sumarbústaðinn sinn við Gíslholtsvatn, bar þó hæst. Þar áttum við margar góðar stundir með þeim hjónum. Þar var öllu haganlega fyrir komið og Ari í essinu sínu að gera við sláttuvélina eða koma bátnum út á vatn og þá var gjarnan veitt í soðið. Skógræktin var reglulega tekin út. Þar var búið að setja niður þúsundir trjáa, og þannig gerðu þau hjón skjól við bústaðinn.

Ari var rólegur að eðlisfari, en hann var fylginn sér sem hjálpaði honum að finna danstaktinn, koma sláttuvélinni sinni í gang eða hvað það var sem þurfti að redda. Enda var Ari alltaf svolítill sveitamaður í eðli sínu og kunni að redda málunum. Stutt var í húmorinn hjá Ara og það duttu oft upp úr honum ýmsar hnyttnar tilvitnanir.

Við munum sárt sakna Ara, sem var okkur einstakur félagi, en minningin um góðan dreng mun lifa áfram með okkur. Við sendum Guðrúnu Birnu, Vigdísi, Halldóru og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur og megi minningin um Ara lengi lifa með okkur.

María og Hjörtur,

Jónína og Guðmundur.

Ég hafði ekki heyrt í eða séð Ara í líkast til tvö ár eða meira. Samt kom mér andlátsfregnin sem gamall skólabróðir flutti mér á óvart.

Við Ari kynntumst í gegnum strák sem varð sessunautur minn þegar ég, nýfluttur frá Akureyri, kom í 12 ára bekk í Laugarnesskóla. Þessi strákur bjó í Sigtúninu í þriðja húsi frá Ara. Af einhverjum ástæðum þá smullum við Ari vel saman og héldum vel saman mörg næstu ár.

Ég minnist ferða í bíó með pabba Ara sem þá keyrði okkur sem ekki vorum komnir með bílpróf. Ég minnist líka ferða austur í bústað sem fjölskylda Ara átti austur við Gíslholtsvatn. Veiði í vatninu og ég man líka eftir að við Ari gengum eitt sinn í fleiri klukkutíma í leit að rjúpum án þess að sjá eða verða varir við nokkra slíka. Ég man eftir að við í lok göngunnar ákváðum að reyna okkur í skotfimi til að ferðin væri ekki alveg tilgangslaus. Held við höfum notað aflagðan girðingarstaur sem mark. Ari hafði betur, enda var þetta, ef ég man rétt, í fyrsta skipti sem ég skaut af byssu. Ýmislegt fleira brölluðum við saman og í minninu er ferð um mitt sumar í Þórsmörk þar sem við áttum góða helgi í fögru umhverfi. Ýmislegt fleira brölluðum við saman og þegar við vorum að nálgast tvítugt voru komnir tveir félagar til viðbótar í hópinn, sem var bara nokkuð duglegur að sækja Glaumbæ, Breiðfirðingabúð og seinna Hótel Loftleiðir um helgar.

Í lok þessa tíma vorum við báðir og reyndar allir komnir með vinkonur sem seinna urðu eiginkonur okkar.

Börn fóru að koma og á þessum tíma fór frekar að losna um það þétta samband sem við Ari höfðum átt saman.

Við héldum þó alltaf sambandi og hittumst stundum, þó ekki oft. Seinna varð þetta að símtölum, sem yfirleitt voru hálftíma eða allt að klukkutíma löng, um það bil tvisvar eða þrisvar á ári. Þarna vorum við komnir í aðra vinahópa og létum símtölin og einstaka hitting duga.

Ég votta Guðrúnu Birnu, dætrunum Vigdísi Klöru og Halldóru Æsu ásamt þeirra mönnum og barnabörnum mína innilegustu samúð við fráfall Ara.

Minningin lifir.

Jónas Brjánsson.