RIG Guðbjörg Jóna kemur fyrst í mark í 200 metra hlaupinu í gær. Tiana Ósk Whitworth er til hægri og hin finnska Milja Thureson er til vinstri.
RIG Guðbjörg Jóna kemur fyrst í mark í 200 metra hlaupinu í gær. Tiana Ósk Whitworth er til hægri og hin finnska Milja Thureson er til vinstri. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frjálsar Kristján Jónsson kris@mbl.is ÍR-ingurinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir sigraði í 200 metra hlaupi á Reykjavíkurleikunum í Laugardalshöllinni í gær á 24,05 sekúndum. Var það besti árangur Íslendings á mótinu samkvæmt alþjóðlegri stigagjöf en fyrir árangurinn fékk Guðbjörg 1.078 stig. Tiana Ósk Whitworth, einnig úr ÍR, hljóp á 24,50 sekúndum og voru þær báðar á undan Milju Thureson frá Finnlandi sem hljóp á 24,67 sekúndum.

Frjálsar

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

ÍR-ingurinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir sigraði í 200 metra hlaupi á Reykjavíkurleikunum í Laugardalshöllinni í gær á 24,05 sekúndum. Var það besti árangur Íslendings á mótinu samkvæmt alþjóðlegri stigagjöf en fyrir árangurinn fékk Guðbjörg 1.078 stig. Tiana Ósk Whitworth, einnig úr ÍR, hljóp á 24,50 sekúndum og voru þær báðar á undan Milju Thureson frá Finnlandi sem hljóp á 24,67 sekúndum.

Guðbjörg og Tiana kepptu einnig í 60 metra hlaupinu og þar mátti vart á milli sjá. Naomi Sedney sigraði á 7,39 sekúndum, Guðbjörg kom næst á 7,44 sekúndum og Tiana á 7,45 sekúndum.

„Ég er mjög ánægð. Auðvitað vill maður alltaf sjá bætingu en ég var mjög nálægt því að bæta mig í 60 metra hlaupinu. Ég var bara einu sekúndubroti frá mínum besta tíma. 200 metra hlaupið var að mestu leyti mjög flott en ég datt næstum því eftir 100 metra. Ég veit að ég á mjög mikið inni. Um leið og ég næ að útfæra hlaup fullkomlega þá mun ég henda í stóra bætingu. En maður á ekki að stressa sig á því hvenær bætingin verður heldur leyfa því bara að gerast,“ sagði Guðbjörg Jóna þegar Morgunblaðið spjallaði við hana í Laugardalshöllinni í gær en Íslandsmet Guðbjargar Jónu í 60 metra hlaupi innanhúss er 7,43 sekúndur.

Aukin samkeppni hjálpar til

Tiana Ósk Whitworth er að ná sér á strik á ný eftir að hafa verið frá vegna meiðsla en hún hljóp á 7,45 sekúndum í 60 metra hlaupinu.

„Á heildina litið er ég frekar ánægð með daginn. Ég er ánægðari með 60 metrana heldur en 200 metra hlaupið en bæði hlaupin voru fín,“ sagði Tiana þegar Morgunblaðið ræddi við hana. „Það hjálpar alltaf svo mikið að fá samkeppni frá erlendum keppendum. Við Guðbjörg erum svolítið vanar því að vera bara tvær að hlaupa en með alþjóðlegum mótum eins og RIG kemur önnur stemning. Sérstaklega þegar áhorfendur eru leyfðir. Það hjálpar mikið og því hefði verið gaman að ná bætingu í dag og nýta sér aðstæður,“ sagði Tiana Ósk og að svo búnu var þessum spretthörðustu konum landsins fylgt í lyfjapróf af lyfjaeftirliti ÍSÍ.

• Kristján Viggó Sigfinnsson undirstrikaði hversu öflugur hástökkvari hann er orðinn en þessi 18 ára gamli Ármenningur vippaði sér yfir 215 sentimetra.

• Hildigunnur Þórarinsdóttir úr ÍR sigraði í langstökki eftir jafna keppni. Stökk hún 5,84 metra í tveimur síðustu stökkum sínum en Þórdís Eva Steinsdóttir úr FH stökk 5,70 metra.

• Ólympíufarinn Guðni Valur Guðnason getur ekki keppt í kringlukastinu á veturna. Hann keppti hins vegar í kúluvarpi eins og hann hefur stundum gert á Reykjavíkurleikunum. Guðni náði sínum besta árangri í kúlunni og varpaði henni 18,84 metra.