Anna Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 16. mars 1945. Hún lést 24. janúar 2022.

Hún var dóttir hjónanna Guðrúnar Þorkelsdóttur verkakonu, f. 2.6. 1902, d. 22.2. 1994, og Guðmundar Jónassonar vörubílstjóra, f. 10.8. 1908, d. 3.8. 1964. Anna átti eina systur, Kristínu Jónu, f. 14. janúar 1943, d. 14. október 1995.

Anna ólst upp í Langholtshverfinu og sótti Langholtsskóla, lauk gagnfræðaprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1962, burtfararprófi frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1968 og stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð 1986.

Hún giftist hinn 1. mars 1968 Gunnari Magnúsi Bjarnasyni viðskiptafræðingi, f. 10.1. 1930, d. 12.4. 2010. Þau áttu tvö börn: Örnu Björk, f. 28.5. 1969, og Bjarna Magnús, f. 13.9. 1973.

Seinni maður Önnu var Gunnar Sigurgeirsson múrari, f. 3.6. 1942, d. 3.12. 2011.

Anna starfaði lengst af sem skrifstofumaður; hjá Heklu, Kristjáni Ó. Skagfjörð og Leiklistarskóla Íslands. Þá rak hún á tímabili hannyrðaverslunina Jenný og kaffiteríu Norræna hússins. Síðustu árin starfaði hún við fyrirtæki barna sinna Aðalhreinsi Drífu.

Útför hennar fer fram frá kirkju Óháða safnaðarins í dag, 7. febrúar 2022, klukkan 15.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Í dag kveðjum við Önnu frænku eins og við kölluðum hana alltaf, sem mér þykir svo undur vænt um. Á kveðjustundum koma upp í hugann alls konar skemmtilegar minningar.

Anna hefur alltaf átt sér stað í lífi mínu alveg frá því ég fæddist en við bjuggum í sama húsi, Efstasundi 81, þegar ég var barn. Hún bjó ásamt Stínu systur sinni og foreldrum þeirra, Guðrúnu, sem var systir ömmu minnar Úrsúlu, og Guðmundi, á efri hæðinni og við á þeirri neðri. Pabbi og Guðmundur byggðu húsið í sameiningu á árunum eftir stríð. Það var töluverður samgangur á milli hæðanna, að minnsta kosti sóttumst við Ebba systir í það að fara í heimsókn upp á loft. Þar var alltaf tekið vel á móti okkur. Þær systur pössuðu okkur oft og í mínum huga voru þær órjúfanlegur hluti af yndislegri æsku.

Anna var skemmtileg og falleg kona, ljóshærð, smávaxin með svolítið dimma rödd. Hún fékk leiklistarbakteríuna sem ung stúlka og fór í leiklistarskóla og lauk þaðan námi. Á þeim árum var ég í Kvennaskólanum í Reykjavík og fékk þá stundum að fara með henni á æfingar eða þá að ég „kom við“ í skólanum hjá henni á leiðinni heim og dvaldi fram eftir degi, hugfangin af leikhúsinu en þá var kennt í Þjóðleikhúsinu. Það var sko ekki amalegt að eiga frænku í þeim heimi og fá að fylgjast með æfingum hjá leiklistarnemunum, sitja eins og lítill ungi á öftustu bekkjum Þjóðleikhússins til að trufla ekki. Hún starfaði stutt í leikhúsinu enda fljótt komin með heimili og tvö ung börn. Seinna var hún svo ráðin sem ritari í Leiklistarskólanum og þar líkaði henni lífið, var eins og ungamamma að hugsa um leiklistarnemana.

Ég man sérstaklega eftir því þegar hún kom upp í Mosó eftir að við fjölskyldan fluttum þangað, á sólardegi um hásumar, á nýjum Volkswagen sem hún hafði eignast, íklædd rósóttum sumarkjól og hvítum hælaskóm, með hárið uppsett í sátu en svo kallaðist túperað hár í denn. Hún var svo falleg og fín og ekki var verra að hún kom vopnuð snyrtivörum í stórri tösku og síðan var tekið til við að mála mig ellefu ára stelpuna – því það fannst mér toppurinn á tilverunni. Anna var mjög skemmtilegur karakter, því hún hafði bein í nefinu eða einhvers konar röggsemi yfir að ráða, var lítið fyrir væl og tók auðveldlega ákvarðanir eða gekk í verkin óhikað.

Alltaf þegar við Laxárnesfólkið hittumst var sjálfgefið að Anna og hennar fjölskylda kæmu enda voru þær systur svo nátengdar okkur. Ég man eftir mörgum skemmtilegum fjölskylduboðum og einnig útilegum eða ferðum í Kjósina sem oftast urðu ævintýraferðir með söng og gamni.

Nú er komið að leiðarlokum og við hittumst ekki í leikhúsinu lengur. Takk fyrir að vera góða frænkan mín og okkar systkinanna sem óska þér góðrar ferðar í Sumarlandið og hjartans þakkir fyrir samfylgdina í lífinu. Innilegar samúðaróskir til Örnu og Bjarna sem reyndust mömmu sinni svo vel og eiga nú um sárt að binda.

Hrafnhildur.

Ég hef sjaldan verið þakklátari en þegar ég fékk símtal fyrir rúmum 20 árum frá Önnu eða Önnu ömmu eins og hún er kölluð á mínu heimili. Ég þekkti hana rétt aðeins á þessum tíma í gegnum Örnu dóttur hennar. Hún vildi bjóða fram aðstoð sína við að gæta Birgis Steins, níu mánaða gamals sonar míns. Ég var þarna þreytt móðir þriggja ungra barna og öll hjálp vel þegin. Mig grunaði hins vegar ekki mikilvægi þessa símtals og þetta yrði upphafið að fallegu sambandi milli þeirra tveggja sem hefur haldist til dagsins í dag.

Það var ákveðið að Birgir Steinn færi til Önnu alla miðvikudagsmorgna. Hægt og rólega bættust við stöku dagar um helgar og svo fór Anna að fá hann lánaðan í næturgistingar. Við fórum að kalla hana Önnu ömmu því svona gera bara ömmur.

Árin liðu og Anna amma varð einn mikilvægasti hluti af lífi Birgis Steins. Sem foreldri var yndislegt að sjá að einhver var tilbúinn að elska barnið manns skilyrðislaust og jafnvel án þess að blóðtengsl kæmu þar að. Birgir Steinn vissi það líka að hann átti í henni hvert bein og gat alltaf treyst því að hún vildi honum allt hið besta.

Það var líka alveg ljóst að á meðan á heimsóknum hjá Önnu ömmu stóð vildi hann sem minnst af okkur foreldrunum vita og tók helst ekki á móti símtölum frá okkur. Því hjá ömmu var hann í dekri, fékk allar sínar óskir uppfylltar. Amma var búin að baka og smyrja ofan í hann og útbúa allt sem hann óskaði sér í það skiptið. Þau voru búin að ná sér í spólu til að horfa á og eina sem vantaði var hundur eða köttur í fangið og það fékk hann við það eitt að nefna það. Amma skapaði honum draumaheim og símtal frá okkur truflaði þann heim.

En amma Anna átti líka sinn draumaheim, sem var heimur leikhússins, og Birgir Steinn varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast þeim heimi í gegnum hana. Ég velti því þó stundum fyrir mér í seinni tíð hvort ástin til leikhússins hefði líka með eitthvað annað að gera en það augljósa. Hún var jú útskrifuð leikkona og afspyrnuvel gefin, þekkti flestöll þau verk sem sett voru þar upp. En það var nefnilega ekki bara Birgir Steinn sem hafði fengið úthlutað pláss í hjarta hennar heldur meira og minna allir sem útskrifuðust úr leiklistarskólanum þegar hún vann þar. Þetta voru allt „börnin“ hennar. Væntumþykjan skein í gegn þegar hún talaði um þessi börn sín og ferð á leiksýningu var eins og vel heppnað ættarmót þar sem hún gat fylgst stolt með sínu fólki. Birgir Steinn hefur ábyggilega furðað sig á ríkidæmi sínu að eiga Önnu sem ömmu og að líklegast væri stór hluti leikarastéttarinnar nákomnir ættingjar!

Nú er komið að leiðarlokum rúmum 20 árum eftir að ég fékk símtalið góða. Hvernig getur maður þakkað fyrir þetta allt? Hvernig getur maður komið í orð hversu djúpt þessi gæska hennar hefur snortið okkur öll? Þvílík gæfa fyrir Birgi Stein að fá að kalla hana ömmu og njóta hennar sem slíkrar. Á tímum sem þessum, þegar allir eru að flýta sér, staldraði Anna við og bauð Birgi Steini það verðmætasta sem við fáum hér á jörð: Tíma og ást.

Anna Margrét,

Birgir Steinn.