Orri Hauksson
Orri Hauksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Orri Hauksson, forstjóri Símans, og Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, eru báðir á því að taka eigi Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði og að ríkið eigi ekki að veita styrki til einkarekinna fjölmiðla. Sagði Orri í samtali við mbl.

Orri Hauksson, forstjóri Símans, og Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, eru báðir á því að taka eigi Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði og að ríkið eigi ekki að veita styrki til einkarekinna fjölmiðla. Sagði Orri í samtali við mbl.is í gær að hann fagnaði þeim fyrirætlunum Lilju Alfreðsdóttur, viðskipta- og menningarmálaráðherra, að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði, en hún lýsti þeim yfir á málþingi á vegum Blaðamannafélagsins í fyrradag.

„Við erum mjög ánægð með þessar nýju áherslur sem ráðherra boðar, varðandi að taka Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði,“ sagði Orri.

Bætti hann við að vandamál íslenskra einkarekinna miðla væru fyrst og fremst af tvennum toga. Annars vegar væri umfang Ríkisútvarpsins og sífellt hærri hlutdeild þess af auglýsingamarkaðnum hérna heima, og hins vegar væri það samkeppni að utan, sem ekki væri á jafnréttisgrundvelli, þar sem erlendir miðlar greiddu ekki skatta í sama mæli og íslenskir miðlar, og bæru um leið ekki þýðingaskyldu.

Í erindi sínu í fyrradag vék Lilja að fjölmiðlum sem teldu sig „of fína“ fyrir styrkina, og vék þar sérstaklega að Símanum og Sýn. Spurði Lilja hvort miðlarnir gætu ekki þá vinsamlegast skilað peningunum í ríkissjóð og eftirlátið litlum og meðalstórum miðlum styrkina. Sagði Orri að hann furðaði sig á þessum ummælum þar sem Síminn hefði ekki fengið fjölmiðlastyrk, sökum þess að hann rekur ekki fréttaveitu. „Það er greinilega einhver grundvallarmisskilningur í gangi, við höfum ekki þegið krónu í styrk.“

Sýn leggst gegn styrkjunum

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, sagði í samtali við mbl.is að hann teldi réttast að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði og að falla frá fjölmiðlastyrkjum. „Um leið og svona styrkjakerfi byrjar vindur það upp á sig. Þetta getur skapað freistnivanda hjá smærri og veikburða miðlum sem gætu farið að flytja fréttir sem passa styrkjunum,“ sagði Heiðar. Færi betur á að halda úti frjálsum og óháðum fjölmiðlum sem ekki eru litaðir af ríkisinngripum.