[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Þórður Tómasson fæddist í Vallnatúni undir Vestur-Eyjafjöllum 28. apríl 1921. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi 27. janúar 2022.

Foreldrar hans voru bændurnir Tómas Þórðarson, f. 17.1. 1886, d. 17.11. 1976, og Kristín Magnúsdóttir, f. 12.2. 1887, d. 7.8. 1975. Systkini Þórðar eru: Kristinn, f. 11.5. 1920, d. 14.8. 2016, Þóra Sigríður, f. 13.7. 1923, d. 19.9. 2021, og Guðrún, f. 13.4. 1931.

Þórður gekk í barnaskólann á Ysta-Skála á árunum 1931-1933. Síðar lauk hann gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1941. Eftir skólagöngu vann Þórður ýmis störf. Um tíma var hann í vinnu hjá breska hernum í Hvalfirði, síðar starfaði hann í bókhaldsvinnu hjá Eysteini Einarssyni, þáverandi vegaverkstjóra. Einnig vann hann við bústörf á æskuslóðum sínum í Vallnatúni.

Frá unga aldri helgaði hann líf sitt því að varðveita menningararf þjóðarinnar. Árið 1949 opnaði Byggðasafnið í Skógum dyr sínar fyrir gestum í fyrsta skipti. Þórður var þar safnvörður frá stofnun og inn á annan áratug 21. aldarinnar. Þórður sinnti fjölbreyttum störfum á sviði þjóðlífs og menningar allt sitt líf. Um tíma starfaði hann sem kennari við Skógaskóla. Hann var organisti við Ásólfsskálakirkju og síðar við Eyvindarhólakirkju, hann sat jafnframt í sóknarnefndum þeirra í mörg ár. Hann starfaði fyrir Þjóðminjasafn Íslands um tíma og fólst það starf í þjóðháttasöfnun. Þórður var stofnfélagi í Lionsklúbbnum Suðra í Vík árið 1968 og var félagi í honum í rúma fjóra áratugi. Frá árinu 1979 til ársins 1989 sat Þórður í sýslunefnd Rangárvallasýslu. Á þjóðhátíðardegi Íslendinga árið 1997 var Þórður gerður að heiðursdoktor við heimspekideild Háskóla Íslands fyrir vel unnin störf í þágu þjóðar. Árið 2001 hlaut hann nafnbótina heiðursborgari Austur-Eyjafjallahrepps. Þórður miðlaði fróðleik sínum einnig í rituðu máli og eftir hann liggja fjölmörg rit. Fyrsta bók hans, „Eyfellskar sagnir“, kom út árið 1948 og á aldarafmæli hans síðastliðið vor kom út bókin „Stóraborg – Staður lífs og menningar“, sem var jafnframt sú þrítugasta sem Þórður sendi frá sér að undanskildum fjölda fræðirita. Árið 1962 stofnuðu þeir Þórður og Jón R. Hjálmarsson tímaritið Goðastein sem þeir gáfu út í sameiningu til ársins 1986.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Elsku Þórður frændi minn, þá er kveðjustundin runnin upp. Það er margs að minnast þegar ég hugsa um þig og þitt magnaða ævistarf. Að hafa fengið að njóta návistar þinnar í 22 ár hefur gefið mér margt. Alltaf tókst þú hlýlega á móti mér á heimili þínu og ömmu og afa í Skógum. Það var alltaf gaman að leita í þinn fróðleiksbanka, hvort sem það voru spurningar um forfeður mína eða upplýsingar sem mig vantaði fyrir verkefni í skólanum, alltaf hafðir þú frá miklu að segja. Að hafa umgengist þig hefur gefið mér fullt af fróðleik og betri tök á íslensku máli. Umhyggjusemi þín fyrir okkur barnabörnum ömmu Gunnu og afa Magga var alltaf mikil, í þér áttum við aukaafa má segja. Oftar en ekki þegar þú fórst í innkaupaferð til Víkur stoppaðir þú í Pétursey í bakaleiðinni, það ríkti alltaf spenna hjá okkur bræðrum þegar bíllinn þinn rann í hlaðið hvaða góðgæti þú værir nú að færa okkur úr búðinni. Það fór aldrei á milli mála hvað þér þótti vænt um fólkið þitt og þakklætið fyrir að eiga góða að. Ég gleymi því aldrei hvað þú gladdist mikið við að heyra það að ég stoppaði reglulega við leiði Þóru okkar og færi með faðirvorið með henni. Það mun ég líka gera með þér kæri frændi, trú mín er sterkari eftir að hafa umgengist þig og fyrir það er ég þakklátur. Ævistarf þitt í þágu þjóðar ber jafnframt merki um þann dugnað sem þér fylgdi alla ævi. Allur sá fróðleikur sem þú hefur fært á blað af menningu liðins tíma er ómetanlegur fjársjóður fyrir komandi kynslóðir. Við kveðjustund minnist ég þín með mikilli hlýju og þakklæti fyrir þína miklu umhyggju í gegnum árin og allar góðu samverustundirnar.

Ég kveð þig nú eins og þú gerðir svo oft þegar við kvöddumst á heimili þínu í Skógum: Vertu ævinlega blessaður minn kæri frændi.

Blessuð sé minning þín elsku Þórður.

Sigurður Eyjólfur

Sigurjónsson.

Ég var lánsöm að fá að fara austur að Skógum til afa, ömmu, Gunnu og Þórðar til sumardvalar þegar ég var krakki. Ég fór í rútu og Gunna sótti mig út í skóla á bjöllunni.

Þegar heim kom byrjaði ég á að heilsa ömmu, afa og Þórði og flutti kveðjur að heiman. Þórður spurði frétta en mátti sjaldnast vera að því að bíða eftir svari og var horfinn inn í stofu áður en litið var við. Alltaf með hugann fullan af alls konar.

Ég man þegar bílar stoppuðu við safnið og við kölluðum: Þórður! Bíll í safnið! Og Þórður greip lyklana og skokkaði út í safn, léttur á fæti, alltaf tilbúinn að miðla þekkingu sinni.

Ég man að ég elti hann oft og tíðum út í safn, skrifaði nafnið mitt jafn oft í gestabókina, hlustaði á hann spjalla við fólk af ýmsu þjóðerni, jafnvel á þeirra eigin tungu, sagði frá Pétursey, stoltinu sínu, smíðisgripum Sigurjóns í Hvammi o.fl. Skemmtilegast fannst mér þegar hann sýndi hvernig músafellan virkaði.

Ég man þegar hann spilaði á langspilið og söng, við mikinn fögnuð viðstaddra.

Ég man þegar hann smíðaði langspilið og mótaði spæni.

Ég man þegar hann tók mig með sér austur í Mýrdal í heimsókn til fólks til að afla upplýsinga um gamla tíma og kannski falast eftir gömlum munum.

Ég man þegar við fórum út í Hjörleifshöfða, með manni úr Vík, sennilega í sama tilgangi, og á leiðinni heim að Skógum sungum við „Ljósið kemur langt og mjótt, logar á fífustöngum“.

Ég man þegar ég fór með honum niður að Stóru-Borg.

Ég fann pottlöpp og prjón og ákvað samstundis að ég vildi verða fornleifafræðingur. Hann sýndi mér hauskúpur sem sjórinn hafði sorfið ofan af en af virðingu huldi hann þær með torfi.

Ég man eftir kóræfingum heima, sem ég tók stundum þátt í og lærði býsnin öll af lögum og textum sem ég man enn í dag.

Ég man þegar hann fékk mig til að syngja með kirkjukórnum í Eyvindarhólum.

Ég man að þegar ég fór heim á haustin laumaði hann peningum í lófa minn.

Ég man þegar kvígur voru á beit þar sem nú standa Holt og Skál, kirkjan og skólahúsið. Svo eru það torfhúsin og smiðjan hans afa.

Ég hvet alla sem leið eiga í Skógasafn til að staldra við, horfa yfir sviðið og hugsa um að ekkert af þessu væri þarna nema vegna þess að ungur sveitadrengur hafði hugsun á að bjarga menningarverðmætum frá því að verða eldi að bráð.

Auðvitað hefði þetta heldur aldrei orðið nema fyrir það að Þórður átti gott bakland þar sem mín æðrulausa, umburðarlynda og frábæra Gunna frænka og hennar fjölskylda stóðu við bakið á honum.

Ég get ekki þakkað forsjóninni nógsamlega fyrir að fá að vera samvistum við fólkið mitt í Skógum.

Stórkostlegur maður er horfinn á braut. Hann sýndi mér og mínum afkomendum ævinlega áhuga og vinsemd. Þóra frænka kvaddi okkur hinn 19. september sl. Ég kveð þau með virðingu og þakklæti fyrir allt.

Áslaug Kristinsdóttir.

Við viljum með nokkrum orðum minnast vinar okkar og uppfræðara, Þórðar Tómassonar í Skógum.

Kynni Mjallar af Þórði tengjast umfram allt fornleifauppgrefti á Stóruborg, bæjarhól með miklum rústum, sem ágangur sjávar og tveggja vatnsfalla var að spilla upp úr miðri síðustu öld. Þórður hafði lengi fylgst með þessum stað og safnað saman lausafundum, gripum sem lágu á yfirborði eftir stórviðri og hefðu farið forgörðum nema af því að Þórður gekk um svæðið og tók þá til handargagns. Gripirnir sem hann tíndi þar saman eru varðveittir í Skógasafni og á Þjóðminjasafni og skipta þúsundum. Á árunum 1978-1990 voru rústirnar svo rannsakaðar með uppgrefti á vegum Þjóðminjasafns Íslands en þar voru margir tugir húsa/herbergja og fundnir gripir á fimmta þúsund. Það má ekki síst þakka Þórði að þessi uppgröftur skyldi fara fram. Þórður var rannsakendum til halds og trausts, var ráðhollur og hjálpaði i hvívetna. Þórði, Gunnu og Magga kynntist Guðrún þegar hún bjó í Skógum ásamt fjölskyldu sinni. Hlýlegri og vinsamlegri nágranna en þau er vart hægt að hugsa sér. Það var mikill fjársjóður að geta leitað til Þórðar um fjölbreytt menningarsöguleg málefni gömul og ný, safngripi í Skógasafni og þær fornleifar sem verið var að vinna að hverju sinni.

Undanfarin ár höfum við verið að rannsaka kerfisbundið forngripina frá Stóruborg en þar hafa rannsóknir Þórðar og vönduð skráning hans á hinum fjölbreyttu safngripum í Skógasafni haft gríðarmikla þýðingu. Til Þórðar var alltaf hægt að snúa sér með spurningar um það sem fannst og þarfnaðist skýringa. Hann var minnugur með afbrigðum, þekkti gripi fyrri alda ótrúlega vel, enda hafði hann frá unga aldri fræðst af sér eldra fólki og aflað sér mikillar þekkingar um þjóðlíf og verkhætti fyrri alda. Það var ekki oft að maður kom að tómum kofanum hjá Þórði – hitt þóttist maður líka vita að ef Þórður Tómasson vissi það ekki þá vissi það enginn núlifandi maður – og skrifuðum við það gjarnan hjá okkur fyrir komandi kynslóðir sem munu halda áfram að rannsaka menningararfinn.

Af lífsverkum Þórðar ber hæst uppbygging hins stórmerka byggðasafns Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga í Skógum sem mun til langframa verða óþrjótandi uppspretta fjölbreyttra rannsókna og veita dýrmæta innsýn í sögu lands og þjóðar. Þórði féll aldrei verk úr hendi og var að fram á síðustu stund og eftir hann liggur fjöldi ritverka um menningarsöguleg efni.

Að baki hverju stórmenni stendur traust fólk og á það svo sannarlega við um fjölskyldu Þórðar. Hann hélt lengi heimili í Skógum með Guðrúnu systur sinni og mági sínum Magnúsi. Þangað hefur alltaf verið einstaklega gott að koma og gestum tekið af sérstakri alúð og höfðingsskap.

Við þökkum innilega fyrir að hafa fengið að þekkja Þórð og sendum fjölskyldu hans okkar einlægustu samúðarkveðjur.

Mjöll Snæsdóttir og

Guðrún Alda Gísladóttir.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

Svo segir í Hávamálum og þessar ljóðlínur eiga afar vel við þegar minnst er fræðimannsins Þórðar Tómassonar í Skógum. Þórður er gott dæmi um sjálfmenntaðan alþýðumann sem öðlast hefur viðurkenningu langt út fyrir landsteinana fyrir störf sín. Þórður helgaði líf sitt ævistarfi sínu við söfnun gamalla muna og uppbyggingu Byggðasafnsins í Skógum. Starf hans og forystuhlutverk er einstakt og ber að þakka af alhug. Pálmi Eyjólfsson yrkir afmælisljóð til Þórðar:

Lífsmátinn á liðnum tíðum

löngum á þinn hug.

Safnið þekkta, merkra minja

mótað viti og dug.

Það er enginn Þórði líkur,

þú sérð verkin hans.

Vökumannsins, væna drengsins,

vini sögu og lands.

Þó að Þórður sé faðir safnsins á Skógum hefur hann ekki verið einn að verki. Hann hefur í gegnum árin notið stuðnings skólastjóranna í Héraðsskólanum á Skógum, sýslumanna, sýslunefndar- og héraðsnefndarmanna svo má ekki gleyma þætti systur Þórðar, Guðrúnar Tómasdóttur, og fjölskyldu hennar sem hafa hlúð einstaklega vel að fræðimanninum. Þórður hefur þó staðið í stafni lengur en nokkur annar og nú er Skógasafn orðið stórfyrirtæki sem veitir fjölda fólks vinnu og sannar að menning getur verið atvinnuskapandi og breikkað sjóndeildarhringinn.

Það er hverju samfélagi nauðsynlegt að eiga fólk sem fer ekki troðnar slóðir. Þórður var einn þeirra manna. Mörgum þótti furðuleg söfnunarárátta hans sem leitt hefur til þess ýmsir munir, hús og híbýli hafa varðveist í tímans rás. Þórður hefur einnig verið ötull við skriftir og varðveitt sögu stað- og atvinnuhátta og hugtök, t.d. um veður svo að dæmi séu nefnd. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna með Þórði, Sverri Magnússyni sem tók við starfi safnstjóra af Þórði og nú síðast með Andra Guðmundssyni sem tók við starfinu af Sverri. Á stjórnarfundum safnsins flutti Þórður gjarnan ræður en stoppaði stutt við í önn dagsins. Hann var kvikur, fékk sé örlitla tóbakslús í nefið og innan tíðar mátti heyra orgelspil og söng frammi á gangi. Þegar eldri kynslóðin sat í stjórn byggðasafnsins enduðu allir stjórnarfundir með söng en oft er talað um að söngurinn lengi lífið. Alla vega fengum við að njóta krafta þessa kraftaverkamanns lengur en flestra annarra.

Það er sjónarsviptir þegar Þórðar nýtur ekki lengur við. Þakklæti er okkur Rangæingum efst í huga og lífsferill Þórðar er vísbending um það hvað einstaklingur, í samvinnu við gott fólk, getur látið af sér leiða. Við Rangæingar- og Skaftfellingar erum stolt af byggðasafninu sem Þórður Tómasson átti sinn stóra þátt í að skapa. Blessuð sé minning Þórðar. Ég sendi aðstandendum Þórðar innilegar samúðarkveðjur.

Ísólfur Gylfi Pálmason.

Sárt er að missa meistara og sannan vin. Ég kynntist Þórði fyrst þegar ég var að rannsaka minjasöfn á Íslandi og komst að því að hans merka verk var einstakt á heimsvísu og svo viðamikið að tæki mörg líf að kortleggja og meta að verðleikum. Þó þurfti ekki nema augnablik inni á Skógasafni í gjöfulli návist Þórðar til að skynja hinn sérstæða anda. Að sjá hann spinna á hrosshárssnældu fyrir safngesti var töfrum líkast: Maður hringsnerist milli tíma og inn í aðra vídd.

Þórður hafði skýra sýn og vakandi meðvitund um minjaveruleikann; um tengslin milli minja og manna sem eru lifandi í ósýnilegum vef sem stöðugt þarf að hlúa að. Og hann mætti til leiks á hverjum degi, einarður og bjartsýnn. Hann hélt óteljandi þráðum í hendi sér og byggði upp tengslanet og traust. Smám saman varð til stórveldi á sviði minjarannsókna á Íslandi. Hann var vissulega ekki einn að verki, safnastarfið í höndum góðs fólks og sérstaklega mætti þar nefna systur hans Guðrúnu Tómasdóttur, afburðamanneskju á sviði hugar og handar og mág hans Magnús Tómasson, hagleiks- og listamann. Saman vöktu þau yfir safninu í áratugi og sinntu því og gestum þess af örlæti og skapandi ástríðu; ávallt reiðubúin að bæta og opna sýn.

Þórður Tómasson var á undan sínum samtíma þótt dveldi að hluta í fortíð. En brautryðjandastarf hans var á stundum misskilið. Ég minnist þess þegar ég sá hann tilsýndar úti á túni, veifandi að reyna að stöðva för traktorsgröfu yfir minjasvæði. Svo kom hann skokkandi heim tröðina til mín í kaffi, dustaði moldina af jakkafötunum, afsakaði útganginn, hló og hristi höfuð yfir hugsunarleysinu; bóndinn hafði ekki viljað heyra neinar kerlingabækur um „sameiginlega arfleifð“ í sínu eigin túni.

Það má segja að lífsstarf Þórðar Tómassonar hafi falist í að varpa ljósi á fyrirbæri sem í fljótu bragði virtust einskis verð en urðu við nánari skoðun og eftir hans heilandi viðgerðir að merkum heimildum, jafnvel helgigripum. Hann bjargaði ævisögum, orðasamböndum og aðferðum frá gleymsku og gaf nýtt líf. Þórður var óþreytandi í þekkingarleit og rannsóknum á arfleifð þjóðar, honum var hugleikin háþróuð fagurfræði alþýðufólks sem hann vildi gefa rödd og hvatti til að mynda ófáar konur í sveitinni til skrifta.

Bækur hans veita innblástur og skilning. Skerpa, hraði, nákvæmni, viska, innsæi, leikur. Hann var áræðinn í umfjöllun og ályktunum, opinn fyrir samræðu en trúr sinni sannfæringu. Og engu gleymdi hann. Hann miðlaði af öryggi, æðrulaus varðandi viðtökur. Það er hollt að vera í námunda við manneskju með svo heilbrigt sjálfstraust og sannfæringu um eigin köllun en finna um leið að aldrei var miklast heldur dvalið í þakklæti og auðmýkt gagnvart mannanna gjöfum, guðs og náttúru.

Þórður var örlátur í vináttu. Orðasamböndin að samhryggjast og samgleðjast fengu nýja merkingu. Í söknuði rifja ég upp örvunarorð hans um að vakta sína vitjun. Þræðirnir eru nú í okkar höndum.

Fjölskyldu hans og vinum votta ég samúð. Blessuð sé minning Þórðar Tómassonar.

Oddný Eir Ævarsdóttir.

Á kveðjustundu vil ég fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands minnast Þórðar Tómassonar í Skógum. Þórður var safnvörður Skógasafns frá stofnun þess árið 1949 og starfaði þar um áratuga skeið fram á efri ár. Hann var safnmaður af heilum hug og sinnti starfi sínu af mikilli hugsjón og framsýni. Safnsvæði Skógasafns ber þess fagurt vitni. Hann var metnaðarfullur fagmaður sem ávallt vildi veg Skógasafns sem mestan. Honum var þar annt um hvert framfaraskref, gömlu húsin sem unnt var að hlúa að á svæðinu, safnhúsin sem hýstu faglega starfsemi og safnkirkjuna fögru sem vígð var fyrir tveimur áratugum. Þórður bauð gesti ávallt velkomna í safnið og fræddi, spilaði og söng af einlægri gestrisni og starfsgleði. Með safnastarfi sínu var honum annt um að varðveita einkenni þess samfélags sem umbyltist með iðnvæðingunni og leggja jafnframt grunn að framtíðarstarfi sem byggðist á gömlum merg þekkingar. Þar sá hann fyrir sér framsækið safn á tímum ferðaþjónustu og faglegra áherslna samtímans. Hann gladdist yfir árangri og góðu starfi arftaka sinna í safninu og miðlaði til þeirra af sinni reynslu. Vert er að þakka hið ríkulega veganesti Þórðar til framtíðar.

Þórður var virtur fræðimaður og var menningararfurinn og saga fólksins í landinu honum hugleikið efni. Í sínum fræðistörfum var honum umhugað um að varðveita þekkingu um starfshætti í landinu og hefðir genginna kynslóða. Eftir Þórð liggja tugir bóka um þjóðmenningu og þjóðhætti liðins tíma. Þá tók hann þátt í útgáfu tímaritsins Goðasteins um árabil auk þess að rita greinar um þjóðlegan fróðleik og safnastarf. Árið 1997 var Þórður gerður að heiðursdoktor við Háskóla Íslands. Þá var hann heiðursfélagi í samfélagi þjóðminjavörslu og safnastarfs.

Þórður var traustur samstarfsmaður um áratugaskeið og kær vinur. Við ræddum reglulega saman og ferðuðumst um Suðurlandið, heimsóttum fólk og sögustaði, já og snæddum kjötsúpu þegar svo bar við. Í samverustundum okkar var rætt um minjar og safnastarf sem og bækur sem hann hafði á prjónunum, söguleg hús sem hann vildi bjarga og þjóðleg fræði hvers konar. Við ræddum einnig um hvernig taka mætti höndum saman til þess að ná sem bestum árangri. Á ferðum okkar og fundum sló Þórður gjarnan á létta strengi og fór með vísur, rakti ættir og sagði sögur. Ótal minningar koma upp í hugann um fróðleiksmanninn og sögumanninn Þórð í Skógum. Á tímamótum í lífi Þórðar gladdi hann ekkert fremur en áform um verndun menningarminja og þá sérstaklega torfhúsa sem hann vissi að tímans tönn myndi annars granda. Þar brýndi hann til góðra verka og hvatti til dáða. Hann var maður traustrar samvinnu og góðra samskipta.

Fyrir ári fögnuðum við tíræðisafmæli Þórðar Tómassonar í Skógum. Af því tilefni sendi Þórður frá sér bók um Stóruborg undir Eyjafjöllum sem var hans þrítugasta bók. Á afmælidaginn tók hugsjónamaðurinn Þórður til máls við hátíðlega athöfn í Skógasafni og horfði yfir farinn veg með afar eftirminnilegum hætti. Það var dýrmætt að fá tækifæri til þess að samgleðjast honum á afmælisdaginn. Ég met mikils okkar hlýju samskipti og þakka fjölmargar gæðastundir á liðnum áratugum. Undanfarin ár hefur verið einstaklega ánægjulegt að heimsækja Þórð og Guðrúnu systur hans og njóta gestrisni á hlýlegu heimili þeirra. Minningar um gæðastundir lifa. Með þökk og hlýju votta ég Guðrúnu mína innilegustu samúð.

Fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands vil ég þakka Þórði fyrir hans ómetanlega framlag hans til íslenskrar menningar. Heiðruð sé minning Þórðar Tómassonar í Skógum.

Fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands,

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður.

Þórður sem lagði að mér fyrir 40 árum að skrifa um merka áa mína í Garðsauka. Fólk sem hann vissi þó miklu meira um en ég nokkurn tíma. Við hittumst á göngum Safnahússins gamla, hann þá jafngamall og ég er núna, ég rétt kominn af barnsaldri. Á þessum okkar fyrsta fundi talaði hann þó við mig eins og jafningja, sem og alltaf síðan.

Þórður sem nokkrum áratugum fyrr hafði verið dugmesti smalinn í snarbröttum hlíðum Eyjafjallanna, þindarlaus og síkvikur. Kannski ekki hið dæmigerða bóndaefni en barn sinnar sveitar þá og enda alla tíð.

Þórður sem ungur maður vingaðist helst við konur fæddar á 19. öld og dró upp úr þeim óbrotgjarnan fróðleik sem var við það að hverfa í útsogi nýrra tíma. Sama gilti raunar um hinar margvíslegu menjar Stóruborgar. Hvarvetna kom hinn ungi Eyfellingur fram sem bjargvættur þess sem var að tapast. Jafnt í munum sem þekkingu.

Þórður sem lesið hafði allar bækur um íslensk fræði og var alls staðar heima. Þegar ég var að brjótast í gegnum hina þykku og píetísku Sjálfsævisögu Þorsteins á Staðarbakka kom ég sem oftar austur í Skóga. Það var ekki víða sem ég gat fært bók þessa í tal en skaut því fram við Þórð þar sem við vorum að undirbúa hluti undir myndatöku. Viðbrögðin, eins svo oft í samræðum okkar, eru mér minnisstæð. Safnvörðurinn gamli leit á mig með undrun og sagði svo með nokkrum þunga: Það er mikið vond bók.

Þórður sem yfirleitt hnjóðaði ekki í bækur um íslensk fræði og átti sjálfur mikinn hlut í þeim heimi. Fræðirit Þórðar brúa þriggja alda bil. Heimildamennirnir eru flestir 19. aldar og hann sjálfur alinn upp í fornlegu bændasamfélagi þar sem hann lærði hin ævafornu vinnubrögð. Það varð síðan hlutskipti hans miðla sama menningararfi til barna 21. aldarinnar og til þeirra verka hafði hann einstaka gáfu og lipurð.

Þórður sem í hverri bók kom okkur á óvart með óvanalegri skarpskyggni í skrifum sínum og tilvitnunum í fágætar heimildir sem enginn í okkar umhverfi hafði hugmynd um að væru til.

Þórður sem í starfi sínu heillaði gesti úr öllum hornum veraldar með lifandi frásögn, söng og hljóðfæraleik. Brá ótrúlega fyrir sig erlendum málum þegar þurfa þótti en hafði líka þá tjáningu að þeir sem lengra komu að skildu þó orðin vantaði.

Þórður sem byggði af eigin atorku og að hluta til með eigin höndum upp það stórveldi í Skógum sem átti eftir að veita fjölda manns atvinnu og ánægju. Eignaði sér samt aldrei staðinn heldur lét héraðinu það eftir og þvert á venjur síns samtíma, hugsaði lítið um eigin hag.

Þórður sem hafði yfir að ráða einstöku æðruleysi þegar hans mikla sköpunarverk, safnið sjálft, snerist gegn sumu af því sem var honum hugleikið. Hann víkur stuttlega að kjörum sínum í formála bókar sinnar um Heyannir fyrri tíma sem út kom 2018. Þórður segir þar frá án þess að gera mikið úr og algerlega án beinna ásakana. En til að lifa slíkt sem á hann var lagt á tíræðisaldri, þarf ómælanlegt þrek og æðruleysi sem er fáum mönnum gefið.

Blessuð sé kær minning Þórðar Tómassonar og þökk þeim fallegu sveitum sem gátu af sér slíkan yfirburðamann.

Bjarni Harðarson.

Kveðja frá Minjastofnun Íslands

Að Þórði Tómassyni gengnum lýkur mikilvægum kafla í sögu minjaverndar á Íslandi. Kaflanum þar sem fræðimaðurinn varði öllum sínum tíma og kröftum í að vernda menningarminjar og tryggja að íslenskum menningararfi og þekkingu um hann yrði skilað óspilltum til komandi kynslóða. Allt fram á síðasta dag var Þórður að miðla ómetanlegum fróðleik sem yngri fræðimenn eiga eftir að nýta sér um ókomna framtíð. Tengsl starfsfólks Minjastofnunar við Þórð ná langt aftur, til þess tíma þegar rannsóknir hófust á kirkjugarðinum og bæjarhólnum í Stóruborg. Þórður hafði hvatt til að minjarnar yrðu rannsakaðar áður en þær hyrfu allar í hafið. Við fornleifafræðingarnir fengum aðstöðu í barnaskólanum í Skógum og nutum þar fróðleiksbrunns og aðstoðar Þórðar.

Árið 2009 réð Fornleifavernd ríkisins, nú Minjastofnun Íslands, minjavörð til starfa á Suðurlandi. Ákveðið var að skrifstofa hans og heimili yrðu í Skógum. Var þar horft til þess að í Skógum hafði Þórður byggt upp ómetanlegt safn og lengi starfað sem safnstjóri, og hafði yfirburðaþekkingu á öllu sem viðkom fornleifum og byggingararfi á Suðurlandi. Þórður og fjölskylda hans tóku af hlýhug á móti minjaverðinum og fjölskyldu hans og Þórður aðstoðaði minjavörðinn við að taka fyrstu skrefin í nýju starfi.

Þórður var ávallt reiðubúinn að sýna starfsfólki minjavörslunnar staði á Suðurlandi og fræða um minjar og sögu. Eins kynnti hann okkur fyrir öðrum fræðimönnum á svæðinu. Minnisstæðar eru tvær ferðir. Sú fyrri var farin með Þórði og Þór Magnússyni fyrrv. þjóðminjaverði um Suðurland árið 2007, þar sem minjastaðir í Rangárvalla- og Skaftafellssýslum voru skoðaðir.

Árið 2010 var farið í eftirminnilega ferð með Þórði að skoða minjar á Orustustöðum á Brunasandi með merkilegum fjárhúsum. Urðum við að hafa okkur öll við að hlaupa á eftir Þórði og skrifa niður allan þann fróðleik sem hann miðlaði.

Vandi er að gera grein fyrir samskiptum við Þórð í stuttri grein. Slík var yfirburðaþekking hans á minjum, gamla byggingararfinum og þjóðháttum. Þannig er sleppt að segja frá ferðinni til Parísar, þar sem Þórður hvarf skyndilega, því franskur blaðamaður sem hafði komið í Skógasafn, vildi taka viðtal við hann sem birt var í einu helsta dagblaði Frakklands. Eða hvað hann var fús að hlusta þegar við yngra fólkið vorum að predika um fyrirbyggjandi forvörslu. Þá eru ótalin öll þau skipti sem hann tók á móti okkur í safninu, sýndi það, spilaði á orgelið og söng fyrir okkur. Það er dýrmætt að hafa kynnst þessum merka manni.

Fyrir hönd starfsfólks Minjastofnunar Íslands þökkum við Þórði fyrir ómetanlegan fróðleik og samveru og óskum honum blessunar. Guðrúnu og fjölskyldu og öðrum ættingjum og vinum sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður

Uggi Ævarsson minjavörður.

Kær vinur og félagi er látinn.

Margs er að minnast þegar litið er yfir farinn veg samskipta okkar Þórðar í Skógum. Að leiðarlokum er mér efst í huga þakklæti fyrir áralanga vináttu og heilladrjúg samskipti.

Þórður var landsþekktur safnvörður og rithöfundur, sem hélt óskertu starfsþreki allt til hinstu stundar. Og þá átti hann ennþá eftir miklu að miðla til samtímans frá þeirri veröld er var. Þórður var gæddur miklum mannkostum, einstökum gáfum og vinfastur, sannur Íslendingur. Líf og störf Þórðar tengdust með afgerandi hætti þeim bautasteini sem honum auðnaðist að reisa sér, það er Byggðasafninu í Skógum. Þetta stóra og glæsilega safn er einstakur minnisvarði um hans elju og ást til viðfangsefnisins. Hann naut stuðnings margra en líka andstöðu og hann gafst aldrei upp.

Þórður var hafsjór af fróðleik um byggðasögu Sunnlendinga og var stálminnugur, afar ritfær og skrifaði fallegt íslenskt mál. Hann skrifaði eitt sinn: „Verk mitt er líkt og afborgun upp í þá skuld sem ég stend í við þá þjóðmenningu sem ól mig upp og við kynslóðina sem lagði mér gull í lófa með fræðslu um líf og starf forfeðra og formæðra.“ Afrek hans á ritvellinum eru einstök og út eru komnar yfir fjörutíu bækur eftir hann um íslenska þjóðhætti, sögu og mannfræði. Enn liggja fyrir handrit hans sem miklu skiptir að búið sé þannig um, að aðgengileg verði fyrir komandi kynslóðir. Hann ritaði einnig mörg hundruð greinar í bækur, tímarit og fjölmiðla. Bjarni Harðarson hjá Bókaútgáfunni Sæmundi á mikinn heiður skilinn fyrir útgáfu bóka hans á síðari árum. Ekki má gleyma framlagi Sigurlínar Sveinbjarnardóttur en hún vélritaði handrit hans fyrir prentun. Margir fleiri hollvinir hans studdu hann með ráðum og dáð.

Þórður hafði einstakt landlæsi þegar kom að leit að fornum minjum í landslaginu. Ótal gripum forðaði hann frá eyðingu og ekki skal gleyma því að sjórinn hefði hirt alla forngripina í Stóru-Borg ef Þórðar hefði ekki notið við.

Það var ógleymanlegt að ferðast með Þórði um Suðurland og fræðast af honum, ekki síst um hans heimabyggð og ekki síður Vestur Skaftafellssýslu. Þar hittum við sagnamenn eins og Vilhjálm á Hnausum og leituðum rústa af ævagömlum sofnhúsum, þar sem Skaftfellingar verkuðu kornið af melgresi til matargerðar. Síðar hannaði Þórður og málsetti eigin teikningu af slíku húsi sem byggt var við Sagnagarðinn í Gunnarsholti. Því fylgdi einnig frá hans hendi fjöldi fornra hugtaka og orða er vörðuðu þessa iðju og fáir þekkja í dag.

Þórður var einn minnisstæðasti persónuleiki sem ég hef kynnst og það var mér heiður að fá að eiga við hann samskipti. Það voru forréttindi að kynnast honum og minningin um góðan dreng lifir.

Ættingjar og vinir kveðja nú mikilhæfan mann með söknuði og þakklæti fyrir að hafa fengið að njóta samvistanna við hann. Ég bið þeim Guðs blessunar og votta þeim mína dýpstu samúð. Megi almættið, sem leiðir okkur og alla þá er hjarta þitt sló fyrir, leiða þig í sólina, kæri vinur.

Sveinn Runólfsson.

Það skeði af nokkurri skyndingu að ég kom til starfa á þjóðháttadeild Þjóðminjasafns 1969. Ég hafði að vísu fyrstur manna skrifað lokaritgerð um þjóðháttaefni (Jól á Íslandi) við Háskóla Íslands átta árum fyrr og gluggað í þvílík fræði meðan ég var sendikennari við þýska háskóla. En það voru ekki nema tvær stöður á þessu sviði hjá ríkinu, báðar nýlegar, önnur hjá Árnastofnun og hin hjá safninu. Orðið þjóðháttafræði var ekki einu sinni til í Íslenskri orðabók. Ég hafði því búist við að una um ókomna tíð sem kennari við MR. Svo gerist það sumarið 1968 að Kristján Eldjárn þjóðminjavörður er kjörinn forseti Íslands og Þór Magnússon við þjóðháttadeildina varð eftirmaður hans. Ég freistaði þess að sækja um starf Þórs og hafði heppnina með.

Það skal fúslega viðurkennt að ég var ekki mikið búinn undir þetta starf fyrir utan fyrrnefnda könnun á hátíðis- og merkisdögum og það forskot að hafa alist upp í sveit. Engin háskólakennsla hafði átt sér stað á þessu sviði á Íslandi. Og ég þekkti ekki einu sinni Þórð Tómasson þótt ég hefði nokkrum sinnum gist á sumarhótelinu í Skógum sem leiðsögumaður erlendra ferðalanga. En Kristján Eldjárn hafði þá þegar í heilan áratug fengið Þórð til að semja spurningaskrár um gamla atvinnuhætti og siði og sendar voru fróðleiksmönnum sem báðir þekktu víða um land. Þessi viskubrunnur varð minn eiginlegi háskóli í þjóðlegum fræðum.

Það var lærdómsríkt að ferðast með Þórði og heimsækja fólk. Hann hafði merkilegt lag á að laða fróðleikinn fram úr mönnum án þess að bera fram beinharðar spurningar. Fæddur stjörnuspyrill. Þórður hélt lengi vel áfram að semja grunninn að spurningaskrám þjóðháttadeildar. Smám saman var þó tekið að senda út skrár um önnur svið en gamla sveitasamfélagið sem var að hverfa, svosem sjávarhætti og borgarlíf. Og sífellt þurfti að bæta í skörð heimildarmanna sem týndu tölunni.

Þórður vildi hafa sinn eigin hátt á hlutum. Ég gætti þess ekki eitt sinn. Lúðvík Kristjánsson var þau árin að gefa út stórvirki sitt um íslenska sjávarhætti. Mér fannst sambærilegt ritverk eiga að verða til um íslenska búnaðarhætti og vissi engan hæfari til að semja það eða ritstýra en Þórð. Ég fékk Jónas búnaðarmálastjóra til liðs og málið fékk góðar undirtektir á búnaðarþingi og loks framlag frá sjálfu alþingi. En mér hafði láðst að hafa nógu náið samráð við Þórð sjálfan. Og þegar til kom vildi hann fara fram eftir eigin höfði og nýtti fjármunina á annan veg.

Til voru þeir sem töldu Þórð ekki alvitran. Þeir voru yfirleitt eldri en hann og úr öðrum sveitum. Ég tek sem dæmi Guðmund Þorsteinsson frá Lundi, Magnús Gestsson og fyrrnefndan Lúðvík Kristjánsson. Þórður tók þessu með sínu jafnaðargeði. Hann hafði jafnvel í hyggju að setjast við fótskör Magnúsar vestur á Fellsströnd. Af því varð því miður ekki. Hinsvegar skrifaði hann heila bók um sjósókn og sjávarfang við brimsanda Suðurlands. Við fráfall Þórðar kemur manni óvart í hug það sem Hallfreður vandræðaskáld orti um langtum verri mann:

Norðr eru öll of orðin

auð lönd at gram dauðan.

Árni Björnsson.

Það eru tímamót í Skógum þegar fallinn er frá Þórður Tómasson. Minningin um Þórð er samofin minningum okkar í Skógum á 7. og 8. áratugnum enda var hann góður vinur foreldra okkar og móðir okkar kveður hann nú eftir vináttu í tæp 70 ár. Daglegur samgangur var á milli heimilanna og Þórður, sem alltaf var léttur í spori, kom iðulega í heimsókn með því að banka fyrst þrjú högg létt á glugga, kalla „hér sé guð“, áður en hann vatt sér inn, greip gjarnan í eitthvert okkar systkinanna og tók nokkur dansspor á leiðinni inn í eldhús. Sameiginlegur áhugi Þórðar og foreldra okkar á þjóðlegum fróðleik og mannlífinu á Suðurlandi var mikill og gaf oft tilefni til líflegra umræðna. Á þessum árum voru samskiptin ekki síst mikil vegna tímaritsins Goðasteins sem Þórður og faðir okkar gáfu út í alls 25 ár. Goðasteinn er áberandi klettur sem blasir við efst í Eyjafjallajökli en þangað gengu ritstjórarnir í ferð sinni upp á jökulinn síðsumars árið 1968.

Heimili Þórðar og fjölskyldu var okkur alltaf opið og tilheyra foreldrar hans, þau Tómas og Kristín, einnig þessum minningum. Kristín hlustaði mjög gjarnan á íþróttalýsingar í útvarpinu og prjónaði um leið og Tumi, eins og við kölluðum hann, var sístarfandi í smiðjunni sinni.

Ein okkar systranna hefur átt því láni að fagna að starfa við byggðasafnið síðastliðin ár og kynnast Þórði sem fagmanni þótt hann hafi verið hættur þar daglegum störfum. Skráningar hans og virðing fyrir safngripunum bera vott um safnamann sem var einstakur í sinni röð. Við glöddumst með Þórði þegar kirkjan hans reis við brekkufótinn og varð hluti af húsasafni Skógasafns, og fullkomnaði ævistarfið. Oft var kirkjan full af ferðafólki sem söng við raust og undir spilaði Þórður á orgelið. Tónlist var mikið áhugamál hjá honum og spilaði hann einnig oft á langspilið sem hann smíðaði sjálfur. Hann stjórnaði lengi kirkjukórum undir Eyjafjöllum auk þess að kenna og stjórna söng í Skógaskóla.

Alveg fram til síðasta dags fylgdist Þórður vel með öllu, skrifaði bækur og bar hag Skógasafns ætíð fyrir brjósti.

Vinátta okkar við Þórð slitnaði aldrei því eftir að við fluttum frá staðnum þá byggðum við hús í brekkunni ofan við safnið. Þess vegna lánaðist okkur að halda ávallt góðu sambandi við Þórð sem er ómetanlegt og þökkum við honum góða vináttu frá fyrstu kynnum.

Við vottum Guðrúnu, systur hans, og fjölskyldu innilega samúð.

Guðrún Hjörleifsdóttir, Dóra, Oddný og Helga.

Með Þórði Tómassyni í Skógum er genginn sá þjóðfræðingur sem gleggsta og víðfeðmasta þekkingu hafði á alþýðumenningu og lífsháttum í gamla bændaþjóðfélaginu svonefnda. Aldrei mun þjóðin eignast viðlíka fræðimann, sem lifað hafði og lýst gat af eigin reynd þeim tíma og síðan tímaskiptum við lok járnaldar að segja mætti.

Þegar ég kom til starfa á Þjóðminjasafninu gekk ég inn í verk sem Þórður hafði þá lagt grundvöll að, söfnun heimilda um þjóðhætti og þjóðlíf fyrri tíðar. Kristján Eldjárn hleypti þjóðháttasöfnuninni af stað og enginn fannst þá Þórði hæfari til að vinna slíkt verk.

Við Þórður áttum síðan langt og farsælt samstarf á safnasviði. Verk sín fyrir Þjóðminjasafnið vann hann sem hliðarstarf við umsjón byggðasafnsins í Skógum. Þekktastur varð hann fyrir byggðasafnið, sem hann kom á laggir og jók stöðugt af óþrjótandi áhuga og elju með öflun hvers kyns gripa er vitnuðu um þjóðlíf fyrri tíðar. Þetta varð einstætt sýningar- og heimildasafn, nánast óskabarn Þórðar sem hann hugsaði til allt til hinsta dags. Þar var hugarheimur hans.

Hann var mannblendinn, fræddi safngesti um gripi, sögu þeirra og þýðingu og glæddi skilning fólks á þjóðmenningunni. Hann var tónelskur og lengi organisti við kirkjur þar eystra og stjórnaði söngkórum.

Þórður átti hvarvetna vini og velvildarmenn sem skildu og mátu verk hans og studdu í hugsjónastarfi sínu. Hann taldi það gæfu sína að alast upp með gömlu og langminnugu fólki, af því nam hann fróðleik allt frá bernsku, fræði sem borist höfðu frá einni kynslóð til annarrar.

Honum var létt um skrif og málfarið hreint og skýrt, mótað í barnæsku. Hann var hagmæltur en bar lítt skáldskap sinn á torg, unni fornri ljóðahefð, kunni fjölda ljóða og lausavísna og kvæði góðskáldanna lágu honum létt á tungu og minnið var einstætt.

Þórður bjó lengst með foreldrum sínum meðan þeir lifðu, einnig síðan með Guðrúnu systur sinni og Magnúsi manni hennar. Þar var styrkur hans og stoð í daglegu lífi, og miklar þakkir á fólk hans skilið fyrir umhyggju sína og skilning. Ella hefði lífsstarf hans ekki orðið svo sem varð.

Þórður barst ekki á í daglegu lífi. Hann var ljúfur í lund, laus við yfirdrepsskap og steigurlæti. Hann afþakkaði fálkaorðu er boðin var, en vænt mun honum hafa þótt um það er Háskóli Íslands sæmdi hann heiðursdoktorsnafnbót fyrir fræðarannsóknir sínar og varðveislu menningararfs þjóðarinnar.

Hann hélt lengst af góðri heilsu, var léttur til gangs og afar fótfrár. Sagt var að sumir bændur hefðu séð eftir honum í safnið, þótti slæmt að missa hann frá smalamennskum, í eltingarleik við ljónstyggar fjallafálur.

Um Þórð mætti segja það sem Jón Þorkelsson forni orti um Ólaf Davíðsson látinn:

Ótal fræðin afreksmanns

eru á letraskránum,

meira þó í huga hans

hvarf með honum dánum.

Hafi hann nú þökk fyrir öll okkar kynni. Hans er sárt saknað en minningarnar munu lifa enn um sinn.

Þór Magnússon.

Þórður Tómasson frá Vallnatúni var fæddur í þennan heim til að gegna stærra hlutverki en nokkur maður annar, til björgunar og varðveislu á rangæskum og skaftfellskum minjum. Án Þórðar hefði Byggðasafnið í Skógum sennilega ekki orðið til og án ötulleika hans væru sennilega flestir munir safnsins nú glataðir. Þórður var þeirrar manngerðar að honum var lagið að fá valda- og áhrifamenn til samstarfs, hann ólst upp í sveit þar sem margir trúðu á tilveru landsins vætta og héldu til haga gömlum fróðleik. Hann var líka uppi á réttum tíma til söfnunar á minjunum, því ný tæki og tól voru að koma og hann var nógu fljótur til að fanga gömul verkfæri og innanstokksmuni, áður en þeim yrði fargað.

Þegar litið er yfir sögu Þórðar og Byggðasafnsins er engu líkara en örlagadísirnar hafi spunnið honum og starfi hans hamingju og heill í lífi og vegferð. Röð atburða réði því að Héraðsskólanum var valinn staður í Skógum og kann það að hafa stuðlað að staðsetningu Byggðasafnsins þar. Það hefur verið Þórði og starfi hans lyftistöng, að lengi var í Skógum skólastjóri, sagnfræðingurinn Jón R. Hjálmarsson, sem gerði sér grein fyrir gildi þess að varðveita forna muni. Með Þórði og Jóni tókst gott samstarf. Á árunum 1962-1986 gáfu þeir saman út tímaritið Goðastein og voru þar birtar margar greinar um sagnfræði og menningarmál.

Það vekur mér undrun hvernig Þórður gat haft tíma til að rita allar þær bækur sem komu út eftir hann. Að vísu lét hann ekki ónauðsynleg símtöl eða mas um fánýt dægurmál tefja sig frá ritstörfum. Í þessum ritum liggur annað það afreksverk Þórðar til varðveislu á fornum fróðleik og horfnum starfsháttum. Frá barnsaldri var Þórður þeirrar gerðar að hlusta á það sem aðrir sögðu og hann mundi allt. Í sumum þessara bóka sinna segir hann frá atburðum sem geymst höfðu í frásögnum margra kynslóða. Lærðir háskólamenn sem alist hafa upp í erilshávaða nútímans geta illa skilið að slíkar frásagnir hafi varðveist munnlega.

Nú stendur yfir samantekt á Landnámsaldar sögu Rangárvallasýslu. Það er Þórður sem er höfundur þess hluta bókarinnar sem spannar Eyjafjallasveitirnar. Þar þekkir hann hverja laut og hvern hól og með þeim skrifum hans varðveitist margt sem hann einn þekkti.

Þórður hélt undragóðri heilsu til æviloka. Ætli starfsorkuheilsa hans hafi ekki að miklu byggst á þeirri íslensku sveitafæðu sem hann neytti; landdýrum og afurðum þeirra, auk silungs úr Ósnum, og svo reru Eyfellingar stundum til fiskjar út frá hafnlausri ströndinni.

Eigi veit ég gjörla um trú Þórðar. Það var eitt kveld nú síðla sumars, að ég sofnaði með það í huga, að hringja í Þórð hinn næsta morgun, sem ég og gjörði. Þórður svaraði og sagði þetta vera undarlegt, því hann hefði dreymt mig og ég sagt í draumnum „Þórður minn – ég þarf að tala við þig“ og við það vaknaði hann. Ég féllst á að engu væri líkara en hér væri um hugskeyti að ræða og svo virtist sem fleira væri til í veröldinni en það eitt sem væri sýnilegt og áþreifanlegt. Sé líf að þessu loknu gæti Þórður því átt eftir að senda mér hugskeyti með svörum við ýmsum álitamálum, varðandi ritun mína á áðurnefndri Landnámsbók.

Gunnar Guðmundsson frá Heiðarbrún.

Ungur ég var, er ég stóð við austari bæjarmörk Hvolsvallarkaupstaðarins, með puttann upp í loft.

Nokkru áður höfðu brýrnar á Skeiðarársandi verið kláraðar, landsmönnum gafst í fyrsta sinn tækifæri til að aka hringveginn, og núna var komið að mér að skoða m.a. Sveitina milli sanda. Vegna bílleysis reyndi ég að húkka mér far inn á milli rútuferða.

Eftir langa bið stansaði loks farartæki, lítil Volkswagen-bjalla. Úr henni steig virðulegur maður með hatt og spurði hvert ég ætlaði. Fyrst til Víkur og síðan áfram austur, svaraði ég.

Hann gæti a.m.k. kosti skutlað mér áleiðis, og í Skógum væri foss og safn og annað fallegt og staðurinn alveg þess virði að dvelja þar lengur en aðeins í stuttu myndastoppi.

Þegar þangað var komið spurði maðurinn hvort ég ætlaði virkilega að slá upp tjaldinu mínu í þessu veðri.

Þennan dag var aftur ansi hátt rakastig í sunnlenska sólskininu.

Svari mínu var hafnað og fyrr en varði vorum við komnir inn á Edduhótelið og mér vísað inn á herbergi eftir að bílstjóri minn hafði talað við móttökuna. Í bílnum hafði ferðafélagi minn tjáð mér að hann væri tengdur skólanum og því áleit ég í einfeldni minni að hann mætti ráða yfir herbergjunum og dvölin mín þar yrði „í boði hússins“. Mér varð ekki ljóst fyrr en miklu seinna að þennan dag hafði bjargvættur minn borgað úr eigin vasa svefnpokagistingu undir bláókunnugan puttaling!

Þannig hófust kynni okkar Þórðar Tómassonar í Skógum.

Áður en ég hélt áfram næsta dag hvatti Þórður mig til að líta inn til Ragnars í Skaftafelli og hringdi til að kynna komu mína. Féll mér þannig í skaut að kynnast öðrum öðlingi Suðurlands fyrir tilstilli Þórðar í fyrstu ferð minni til Hornafjarðar. Hef ég verið Þórði ævinlega þakklátur fyrir þessar minningar.

Nokkrum árum seinna fór ég í leiðsögunám og byrjaði að fara inn á Skógasafnið með erlenda ferðamenn.

Ekki leið á löngu þar til Þórður sagði við mig: viltu ekki fara inn til Gunnu systur og fá þér kaffisopa?

Í fjóra áratugi núna hef ég gripið hvert tækifæri til að heimsækja heiðurshjónin Guðrúnu og Magnús og þykir mér afar vænt um að vera ætíð velkominn inn á hlýlega heimilið þeirra.

Vestan við safnið fellur Skógafoss af fjallsbrún, einn af mest heimsóttum fossum landsins. Vestan við Skógá rís svo Drangshlíðarfjall sem langflestir ferðamenn sjá einungis að neðan. Í hvert einasta skipti sem ég fer að fossinum verður mér hugsað til dagsins, sem Þórður tók sér tíma til að þramma upp á hrygginn með mér til að sýna borgarbarninu fegurðina þar sem hann hljóp um sem smali í bernsku.

Ég á Þórði margt að þakka fyrir utan vinskap og gestrisnina. Hann opnaði fyrir mér sýn inn í menningarheim fyrri kynslóða.

En einnig í spjalli okkar um líðandi stundir gat ég lært af honum. Aldrei heyrði ég hann tala illa um nokkurn mann, þótt hann gæti verið ákveðinn í málefnum sem honum lágu á hjarta.

Síðast sá ég Þórð fáeinum vikum eftir stórafmæli hans í fyrra. Ekki grunaði mig að það gæti verið hans síðasta, eins sprækur og hann var þá og minnugur um fyrri fundi okkar.

Vertu blessaður, gamli vinur!

Ingólfur Herbertsson.

Fyrstu kynni mín af Þórði Tómassyni voru þegar ég hóf vinnu við Skógasafn sumarið 2014 sem leiðsögumaður. Þá hafði ég nýlokið námi í þjóðfræði við Háskóla Íslands og var hann afar áhugasamur um námið og kennarana. Strax og ég byrjaði á safninu sá ég hvað það var einstakt, þarna voru gripir sem ég hafði aldrei séð áður á söfnum á Íslandi. Nálgun Þórðar á uppsetningu safnsins var ekki einungis fagurfræðileg heldur voru þar allir þeir munir sem tengdust lífinu í gamla sveitasamfélaginu á Íslandi. Enginn gripur sem hafði einhverja merkingu í þá daga var skilinn eftir, sama hversu undarlegur hann virtist vera fyrir gesti og gangandi.

Þegar Þórður var ekki við vinnu á safninu þá lagði hann stund á skriftir og fræðimennsku. Aldrei féll honum verk úr hendi og hann sinnti skrifum sínum af brennandi áhuga og fagmennsku. Það var alltaf hægt að leita til hans varðandi safnastarfið. Hann tók ævinlega vel á móti manni að gömlum og góðum sveitasið, þá var oft gaman að spjalla um alla heima og geima. Þórður hafði líka mikla kímnigáfu og það var upplífgandi að spjalla saman, ekki eingöngu um fræðin.

Eftir að hann lét formlega af störfum þá stundaði hann skriftir og gaf út bækur þar til hann kvaddi þennan heim. „Þetta er gott fyrir safnið“ sagði hann stundum. Það var gaman að aðstoða Þórð við útgáfuna á bókunum hans sem munu áfram verða mikilvægur hluti af íslenskri þjóðfræði. Starfsfólk safnsins aðstoðaði hann eftir bestu getu, og þá helst við myndatökur. Öll þessi vinna að skrá niður þekkingu sem hann upplifði í æsku og á vegferð hans að safna gripum til safnsins er gjöf til íslensku þjóðarinnar.

Það eru fáir sem geta fetað í fótspor Þórðar Tómassonar. Allt safnastarfið, allir gripirnir sem hann safnaði og allar bækurnar sem hann skilur eftir sig. Bækurnar hans ná að kveikja áhuga hjá lesandanum og þar lifnar hversdagslíf gamla sveitasamfélagsins við. Það var hans meginhugsun að varðveita þekkinguna um hversdaginn eins og hann var áður fyrr, passa upp á menningararfinn, ekki síst verkmenninguna.

Þakka þér fyrir samstarfið og allt sem þú gerðir fyrir safnið. Hvíldu í friði vinur. Ég votta aðstandendum innilega samúð.

Andri Guðmundsson.

Þórður Tómasson í Skógum kvaddi jarðlífið á fyrsta ári annarrar aldar sinnar. Hann var á Heilsustofnun Suðurlands á Selfossi í fáa daga, hresstist og kom heim. Skömmu síðar veiktist hann á ný og andaðist á Selfossi 27. janúar 2022, hundrað ára gamall. Andlát hans var friðsælt og fagurt, eins og líf hans hafði verið. Hann fæddist á bænum Vallnatúni undir Eyjafjöllum 28. apríl 1921, þar bjuggu foreldrar hans. Hann átti þar heima til 1949, en bjó í Skógum rúm 70 ár með Guðrúnu systur sinni og manni hennar Magnúsi Tómassyni frá Skarðshlíð. Faðir systkinanna var um stund á heimili þeirra eftir að kona hans dó. Ég átti um árabil fjölskyldu hans að góðkunningjum. Þórð taldi ég meðal minna bestu vina og heimsótti hann oft, síðast í Skógum, fáum dögum fyrir andlát hans. Hann virtist engu hafa gleymt, þuldi nöfn og ættir manna og sögur af þeim, sem um var rætt. Ég vonaði að hann ætti mörg ár ólifuð. Síðasta eintak af héraðsriti Rangæinga, Goðasteini 2021, geymir greinar eftir Þórð, skýrar og skilmerkilegar eins og allt sem frá honum kom. Á kápu ritsins er mynd af Þórði með Eyjafjöll hans í bakgrunni. Þórður var líf og sál í Byggðasafninu í Skógum, stofnuðu 1949. Léttum fótum tók hann á móti og leiðsagði gestum frá víðri veröld og mælti á tungum, sem þeir skildu. Hann settist oft við orgelið í móttökusalnum, lék og söng með gestunum ættjarðarlög þeirra. Ég fór með nokkra dýrgripi í safnið til Þórðar. Einn þeirra var laugartrog frá Keldum á Rangárvöllum, sem Svanborg húsfreyja gaf Kristínu móður minni. Í því voru ungbörn lauguð nýfædd. Þar á meðal var Guðmundur Brynjólfsson forfaðir Keldnamanna fæddur 1794. Hann átti 28 börn, 24 með þremur eiginkonum, eitt milli kvenna og þrjú börn utan um. Annar dýrgripurinn var rafknúinn spunarokkur á borði á stærð við saumavél, sem tengdafaðir minn Einar í Kaldrananesi smíðaði 27 ára gamall fyrir elskuna sína Ragnhildi Sigríði Guðjónsdóttur. Í gripnum var góðviður úr franska spítalaskipinu St. Paul, sem fórst við Kúðaós á Meðallandsföru 4. apríl 1899. Hið þriðja sem ég færði Þórði voru hjúin Grýla og Leppalúði ásamt 13 jólasveinum, sem Halldóra eiginkona mín, dóttir Einars, skapaði í Jólasveinaverksmiðju sinni í Grafarholti. Í heimsókn til Þórðar með samstúdentum mínum frá MA ´61 afhentum við honum teikningu eftir Ólaf Th. Ólafsson, listamann á Selfossi. Þar situr Þórður við orgel á túni við safnið og leikur fyrir heiminn með fagrar brekkur og fjallahring í baksýn. Með fylgdi þessi vísa:

Safnið er lifandi, saga þess öll

segir frá afrekum nógum.

Með lífsstarfi sínu flutt hefur fjöll

fræðarinn Þórður í Skógum.

Hlýjar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar,

Sigurður dýralæknir

frá Keldum.

Sjaldan í Íslandssögunni var eins langt á milli landsfjórðunga og á þriðja fjórðungi 20. aldar, einkum þó milli Austurlands og Suðurlands. Hestaferðir höfðu lagst af sem samgöngumáti og samfellt akvegasamband komst þar ekki á yfir jökulár og sanda fyrr en 1974. Á þessum áratugum lagði Þórður Tómasson grunninn að Byggðasafninu í Skógum. Þangað kom ég fyrst í heimsókn vestan að sumarið 1966 og naut leiðsagnar Þórðar um safnið sem þá hafði verið áratug í eigin húsnæði. Á Austurlandi var þá aðeins til veikur vísir að minjasafni, varðveittur í húsi skáldsins á Skriðuklaustri.

Mér þykir líklegt að þessi heimsókn í Skógasafn hafi ýtt undir hugmyndina að Safnastofnun Austurlands (SAL), sem Samband sveitarfélaga á Austurlandi tók myndarlega undir árið 1972. Þegar kom að aðgerðum næstu árin við að skjóta fótum undir safnvísa eystra leitaði ég sem stjórnarformaður SAL til Þórðar í Skógum og Gunnlaugs Haraldssonar, þá þjóðfræðinema í Svíþjóð, um söfnunarleiðangur á Austurlandi. Saman fóru þeir í ferð um fjórðunginn sumarið 1975 og skiluðu árangri sem birtist í stórri minjasýningu í grunnskólanum á Egilsstöðum sumarið 1976 sem Gunnlaugur hafði veg og vanda af.

Á þessum árum var grunnur lagður að Þjóðgarðinum í Skaftafelli á vegum náttúruverndarráðs með þátttöku bænda þar á staðnum, Jakobs í Bölta og Ragnars Stefánssonar; varð sá síðarnefndi þjóðgarðsvörður þar í tvo áratugi. Það leyndi sér ekki að Þórður í Skógum hafði gengið þar um garða og hlúð að varðveislu um horfna tíð. Uppskeran birtist síðar í riti hans „Skaftafell – þættir úr sögu ættarseturs og atvinnuhátta“.

Þegar litið er til verka Þórðar í Skógum sem óbornar kynslóðir eiga eftir að njóta, blasir við áskorun um að samþætta með skýrari hætti en hingað til vernd sögulegra minja og náttúruvernd sem víðast á landinu, bæði í löggjöf og framkvæmd. Þannig verður minningu þessa afreksmanns bestur sómi sýndur.

Hjörleifur Guttormsson.

Undur var lífið endur,

ör hönd og hyggja snör,

spor létt og heilar hendur.

(Sigurður Einarsson)

Eyfellingar og þjóðin öll hafa mikið misst þegar fræðimaðurinn og öldungurinn Þórður Tómasson hverfur af sjónarsviðinu. Hann skilur eftir sig í sögu þjóðfélagshátta og íslenskrar menningar arfleifð sem halda mun minningu hans á lofti um ókomna tíð. Ég var aðeins 11 ára gamall árið 1948 þegar Þórður, 27 ára nærsveitungi minn, gaf út hið merka rit Eyfellskar sagnir. Vegna aldursmunar þekkti ég Þórð þá lítið, en seinna áttu leiðir okkar eftir að liggja saman og ég varð svo gæfusamur að geta fylgst að nokkru með þeim ótrúlegu afrekum sem þessi að mestu sjálfmenntaði fræðimaður afrekaði. Ég minnist þess, sem eyfellskur unglingur, þegar tíðar fregnir bárust um að þessi ungi höfundur Eyfellskra sagna væri farinn að safna gömlum munum í sveitinni og nærsveitum. Á þessum árum, að lokinni heimsstyrjöldinni síðari, ruddi sér til rúms tæknibylting í búskaparháttum á Íslandi og var þá nánast algilt að hvers konar nýjungum var gagnrýnilítið fagnað og aldagömlum siðum ýtt til hliðar og munum fargað. Nærri má geta að athygli vakti þegar fram kom einstaklingur, ungur maður úr héraði, sem hafði allt aðra sýn á gildi hinna gömlu siða og muna en almennt var upp komin. Ég er sannfærður um að enginn annar en maður með eiginleika Þórðar hefði getað áorkað því sem hann gerði á þessum árum. Hann var heimamaður en jafnframt heimsborgari, öllum kunnur, fluggreindur og fróður, snyrtimenni og gat átt uppbyggilegar og fyrirstöðulausar samræður við fólk á öllum aldri og úr öllum stéttum. Þrátt fyrir þessa félagslegu yfirburði, eða vegna þeirra, var honum afar vel tekið þá þegar á fyrstu safnárum sínum meðal sveitunga og einnig síðar sem fræðimanni og safnverði í einu merkilegasta byggðasafni landsins. Ég minnist þess þegar ég var nemandi í Skógaskóla, um miðja síðustu öld, að fyrstu safngripum Þórðar var komið fyrir í einu herbergi í kjallara skólans, en fram að því hafði hann varðveitt þá á æskuheimili sínu, Vallnatúni undir Vestur-Eyjafjöllum. Nú röskum 70 árum síðar hverfist athygli og umsýsla fyrrverandi skólasvæðisins öll um lífsstarf Þórðar, Byggðasafnið í Skógum. Starfsþrek hans og andleg heilsa var með ólíkindum þótt aldurinn færðist yfir. Það er ekki nema ár síðan hann 99 ára gamall hringdi til mín og bað mig um nokkrar myndir af Eyfellingum: „Þær þurfa helst að ná 400 kb eftir skönnun Sigurður minn og þú sendir mér þær bara á gamla mátann – í pósti.“ Bréfið til Þórðar er síðasta bréf sem ég sendi á gamla mátann í frímerktu umslagi. Þær eru nú trúlega á leiðinni í útgáfu síðustu bókarinnar sem þessi merki safnamaður vann að á 100. æviári sínu.

Sigurður Óskarsson

Þórður á Skógum var eftirtektarverður maður, sem setti mark sitt á samfélagið. Ég á af honum sögu sem mér er sérstaklega kær. Eins og flestir Íslendingar kom ég á safnið og gaf mig á tal við hann fyrir einhverjum áratugum. Þegar hann heyrði að ég væri af Hlíðarendaætt í Fljótshlíð stóð ekki á svörum og hann rakti ættir okkar saman til Ísleifs söngs, undir Eyjafjöllum, sem hann bar mikla lotningu fyrir sökum tónlistargáfu. Allar götur síðan hef ég kunnað romsuna sem tengir okkur saman og haft gaman af.

Þegar við héldum ættarmót í Hlíðarendaættinni buðum við Þórði að slást í hópinn í tvígang, enda sýndi hann ættinni mikinn áhuga. Sagan sem mig langar að deila er frá því síðara, sumarið 2014. Það varð úr í samtali okkar Þórðar að hann myndi segja nokkur orð um forfeður okkar, þá sem hann hefði þekkt og verið honum samferða. Hópurinn kom saman í Hlíðarendakirkju í lok ættarmóts og Þórður upphóf lesturinn, sem varð öllu veglegri en við höfðum rætt um. Tók hann sig til og gerði skil forfeðrum okkar allt frá árinu 1703, lýsti mannkostum og sérstaklega tónlistarhæfileikum, væri þeim fyrir að fara. Af ellefu handskrifuðum blaðsíðum lýsti hann fumlaust þessum gengna hópi samferðamanna og þeim sem hann kunni minni skil á fletti hann upp og spurðist fyrir um, þannig að enginn var undanskilinn. Allir fengu sína umsögn í listvefnaði ættarinnar.

Við sátum sem bergnumin og hlustuðum á öldunginn leika list sína fyrir okkur af örlæti og artarsemi. Á milli línanna mátti heyra hvernig vinarþelið í garð ættarinnar hafði sprottið af þeim skilningi sem ömmubræður mínir höfðu sýnt á áhuga unglingsins Þórðar á því sem öðrum þótti á þeim tíma gamalt drasl, og þeim stuðningi sem þeir höfðu veitt honum til að skapa minjasafn úr þessari ástríðu. Öllum þessum áratugum seinna jós Þórður þakklæti sínu og elsku yfir stóran hóp afkomenda og ættingja þessara manna á þann hátt að ekki gleymist þeim sem þess nutu. Blessuð sé minning Þórðar á Skógum sem kunni flestum betur að gefa til baka.

Ragnheiður

Jóna Jónsdóttir.

Margir verða til þess, að minnast hins merka og ógleymanlega manns, Þórðar Tómassonar frá Vallnatúni, þessa dagana. Ég varð svo lánsamur að kynnast Þórði og hitti hann oft síðustu áratugina í safninu á Skógum. Ég á margar minningar frá langri ævi um þennan góða og merka mann, en hann þekkti móður mína vel og kom oft í heimsókn til okkar að Hemlu í Landeyjum þegar ég var unglingur.

Ég var í Héraðsskólanum á Skógum í tvo vetur, síðasta vetur Magnúsar Gíslasonar þar og fyrsta vetur Jóns R. Hjálmarssonar, 1954-55. Þórður Tómasson var þá tíður gestur á Skógum, enda var hann þá að safna munum, sem hann fékk geymda í skólahúsinu og báðir skólastjórarnir kunnu sannarlega að meta Þórð, hugsjónir hans og vinnu og vildu allt fyrir hann gera. Alltaf var Þórður svo vingjarnlegur og gaf sig á tal við okkur unglingana og við bárum mikla virðingu fyrir þessum manni og menningarlegu starfi hans. Síðan eru nánast liðin 70 ár og einhvern veginn finnst mér í minningunni, að Þórður hafi aldrei breyst neitt, alltaf þessi sami eldhugi, sívinnandi, ljúfur, vingjarnlegur og hjálpsamur.

Mér er það í fersku minni, að daginn eftir að við félagarnir komum aftur í skólann eftir jólafríið í ársbyrjun 1955, kom skólastjórinn inn í herbergi okkar og sagði, að nú vantaði Þórð nokkra sterka og vaska menn til þess að taka farm af vörubíl fyrir austan skólann. Við fórum auðvitað strax, vænn hópur suður á túnið, rétt að fjárhúsum sem þá voru þar. Þar stóð þá stór vörubíll og stóreflis bátur var á pallinum. Þarna var komið skipið Pétursey sem átti að varðveita í Skógum, í byggðasafni sem við vissum að ætlunin var að byggja og Þórður hafði valið staðinn þarna.

Þórður Tómasson var þarna glaður að vanda og stjórnaði verkinu. Hann sagði til um það, hvernig og hvar skipið skyldi sett niður og hvernig það skyldi snúa. Þetta tókst eftir heilmikil átök og bras. Þetta ár var svo fyrsta hús Byggðasafnsins í Skógum byggt þarna utan um skipið þar sem það stóð. Þegar húsið var risið, var skipið Pétursey inni á gólfi þess, þar sem það er og það er sannarlega einn af mörgum dýrgripum safnsins.

Oft lá leið okkar Sjafnar að Skógum í öll þessi ár sem liðin eru. Alltaf fagnaði Þórður okkur vel og aldrei tók hann annað í mál, en að við settum hjólhýsið okkar niður á túninu ofan við safnið. Þar áttum við marga dýrðardaga með horfnum vinum okkar Birni Ólafssyni, sem var líka bekkjarbróðir á Skógum, og Elínu Jónsdóttur konu hans.

Þegar við bræðurnir gáfum úr teikningar og minningar móður okkar, Kristínar Skúladóttur frá Keldum á Rangárvöllum, skrifaði Þórður formála í bókina fyrir okkur. Teikningar hennar og marga gamla muni sem hún átti, fékk hann til varðveislu í Skógasafni.

Arfleifðin sem Þórður skilur eftir sig í sögu menningar og þjóðfélagshátta, mun halda orðstír og minningu hans á lofti um ókomna tíð.

Guð blessi minningu Þórðar Tómassonar í Skógum.

Skúli Jón Sigurðarson.