RIG Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir kemur fyrst í mark í 200 metra hlaupinu á Reykjavíkurleikunum en fyrir aftan sést Milja Thureson frá Finnlandi.
RIG Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir kemur fyrst í mark í 200 metra hlaupinu á Reykjavíkurleikunum en fyrir aftan sést Milja Thureson frá Finnlandi. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frjálsar Kristján Jónsson kris@mbl.is Spretthlauparinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir byrjar nýtt ár vel á hlaupabrautinni eins og fjallað var um hér í blaðinu á mánudaginn. Guðbjörg Jóna nýtti tímann vel um jól og áramót og fór þá í hlýrra loftslag á Spáni og æfði þar við góðar aðstæður utanhúss.

Frjálsar

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Spretthlauparinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir byrjar nýtt ár vel á hlaupabrautinni eins og fjallað var um hér í blaðinu á mánudaginn. Guðbjörg Jóna nýtti tímann vel um jól og áramót og fór þá í hlýrra loftslag á Spáni og æfði þar við góðar aðstæður utanhúss.

„Það var æðislegt og ég held að það hafi munað öllu. Ég hef verið að glíma við óþægindi í ristunum síðan ég brotnaði fyrir tveimur árum. Síðan þá hafa verið eymsli þar. Það að fara út og æfa á langri braut gerði því mikið í stað þess að vera í kröppum beygjum á brautunum innanhúss. Einnig er auðvitað gott að æfa í hitanum,“ sagði Guðbjörg Jóna þegar Morgunblaðið spjallaði við hana eftir keppnina á Reykjavíkurleikunum á sunnudaginn.

Guðbjörg náði góðum tímum bæði í 60 metra hlaupi og 200 metra hlaupi á leikunum, sérstaklega miðað við árstíma. Hún segir íþróttafólkið lifna við þegar áhorfendum sé leyft að sækja mótin á nýjan leik.

„Það er geðveikt að keppa fyrir framan áhorfendur á ný. Mér finnst geggjað að keppa fyrir framan íslenska áhorfendur vegna þess að maður þekkir svo marga. Það er allt annað en að keppa í útlöndum þar sem enginn þekkir mann. Það er magnað að fá svona stemningu hérna heima og ég veit að fólk var mjög peppað fyrir þessu móti. Þegar ljóst var að áhorfendur yrðu leyfðir þá held ég að allir hafi lifnað við,“ benti Guðbjörg á en keppendur fengu fínan stuðning í Laugardalnum á sunnudaginn.

Munu fara undir 7,40 sek.

Guðbjörg Jóna hljóp 60 metrana á 7,44 sekúndum og 200 metrana á 23,98 sekúndum í frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna sem fram fór í Laugardalshöllinni. Guðbjörg finnur að innistæða er fyrir góðri bætingu á árinu ef fram heldur sem horfir.

„Ég veit að ég á mjög mikið inni. Um leið og ég næ að útfæra hlaup fullkomlega þá mun ég henda í stóra bætingu. En maður á ekki að stressa sig á því hvenær bætingin verður heldur leyfa því bara að gerast. Ég hef hlaupið þrjú hlaup í röð í 60 metrunum á góðum tíma. Þegar maður hleypur svona jafnt á stuttum tíma þá á maður inni bætingu. En í svo stuttri vegalengd þarf allt að heppnast. En þegar við Tiana (Ósk Whitworth) náum 60 metra hlaupi þar sem allt heppnast þá förum við báðar undir 7,40 sekúndur,“ sagði Guðbjörg Jóna í samtali við Morgunblaðið.

Keppir í Svíþjóð

Guðbjörg Jóna er á leið til Svíþjóðar og keppir þar á sunnudaginn kemur. Frjálsíþróttasambandið greindi frá því í gær hvaða Íslendingar taka þátt í Norðurlandamótinu í frjálsíþróttum innanhúss sem fram fer í Uppsölum á sunnudaginn kemur. Ísland og Danmörk tefla þar fram sameiginlegu liði í keppni við Finnland, Svíþjóð og Noreg.

• Elísabet Rut Rúnarsdóttir keppir í lóðkasti.

• Eva María Baldursdóttir keppir í hástökki.

• Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir keppir í 200 metra hlaupi.

• Guðni Valur Guðnason keppir í kúluvarpi.

• Hilmar Örn Jónsson keppir í lóðkasti.

• Hlynur Andrésson keppir í 3.000 metra hlaupi.

• Kristján Viggó Sigfinnsson keppir í hástökki.

• Óðinn Björn Þorsteinsson og Gunnar Guðmundsson eru þjálfarar íslenska liðsins.