[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ása Marinósdóttir fæddist á Krossum á Árskógsströnd 9. febrúar 1932. Foreldrar hennar byggðu nýbýlið Engihlíð þar stutt frá og fluttu í það jarðskjálftaárið 1934. Þar ólst Ása upp við hefðbundin sveitastörf þess tíma.

Ása Marinósdóttir fæddist á Krossum á Árskógsströnd 9. febrúar 1932. Foreldrar hennar byggðu nýbýlið Engihlíð þar stutt frá og fluttu í það jarðskjálftaárið 1934. Þar ólst Ása upp við hefðbundin sveitastörf þess tíma.

Ása gekk í barna- og unglingaskóla í Árskógi, Kvennaskólann á Blönduósi 1949-1950 og útskrifaðist haustið 1953 úr Ljósmæðraskóla Íslands, eftir eins árs nám. Hún hefur síðan sótt hin ýmsu námskeið í ljósmæðrastarfinu, tungumálum og mörgu fleiru.

Ása hóf sitt ljósmóðurstarf á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, fæðingardeild, í janúar 1954, en sjúkrahúsið nýja byrjaði starfsemi sína um miðjan desember 1953. Ása hafði þá starfað á Dalvík, í Svarfaðardal og Hrísey í einn mánuð fyrir ljósmóðurina sem þar var því hún þurfti að komast burt. Eftir þetta að mestu á FSA til ágúst 1958. Fór þó í millitíðinni til Svíþjóðar í eitt ár og eftir að hafa náð sænskunni vandræðalaust vann hún á fæðingardeild í Linköping í tvo mánuði og tók þar á móti 43 börnum. Hún hætti vinnu á F-deild á FSA í ágúst 1958, gekk í hjónaband með Sveini Jónssyni 30 ágúst 1958. Þau áttu heima í Reykjavík veturinn 1958-1959 og vann Ása þá við mæðraeftirlit á Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg. Hinn 5. júní 1959 fæddist svo frumburðurinn Jón Ingi og 15. júní sama ár tóku þau hjón við búinu í Kálfsskinni, þar sem þau stunduðu blandaðan búskap til ársins 1998 og fluttu svo þaðan árið 2005 á Hauganes í sömu sveit og hafa átt þar heima síðan.

Árið 1961 gerðist Ása umdæmisljósmóðir á Árskógsströnd, síðar líka á Dalvík og Svarfaðardal. Hún vann síðan á Heilsugæslustöðinni á Dalvík frá 1981 en um þær mundir var starfsheitið umdæmisljósmóðir fellt út á Íslandi. Ása vann við afleysingar á fæðingardeildinni á Akureyri allt til ársins 2002 og starfaði því við ljósmóðurstörf í 50 ár að nemaárinu meðtöldu.

Á bænum Ytra-Kálfsskinni var Sveinn fæddur og uppalinn og árið 1959 voru foreldrar hans að hætta búskap. Það var til þess að Sveinn og Ása tóku við búskapnum, í fyrstu með þeirra hjálp. Það gefur augaleið að þegar bæði hjónin stunduðu aðra vinnu utan heimilis ásamt búskapnum þurftu þau aðstoð og var því mikið um kaupafólk í Kálfsskinni á þessum árum. Auk þess bættu þau ferðaþjónustu við frá árinu 1983 með hjálp barnanna, sem nú voru orðin fjögur, það yngsta 12 ára. Ferðaþjónustan fór að mestu fram frá Ytri-Vík og er starfrækt enn og er nú í umsjón Marinós sonar þeirra.

Það mætti ætla að eftir slíka upptalningu á störfum væri ekki alltaf mikill tími aflögu, en þrátt fyrir það tóku þau hjón þátt í félagslífinu. Ása starfaði í mörgum félögum, svo sem ungmennafélögum, kvenfélögum, slysavarnafélögum, skógræktarfélögum, LMFÍ, Norðurlandsdeild LMFÍ og Félagi eldri borgara með meiru. Ása var ritari í nokkrum félögum og formaður í þremur. Hún var ritari sóknarnefndar í nokkur ár og formaður í tvö ár. Hún sat í húsnefnd Árskógarskóla og í barnaverndarnefnd, var í kirkjukórnum í sveitinni og í Mímiskórnum í Dalvíkurbyggð. Hún er heiðursfélagi í fjórum félögum. Ása hefur skrifað greinar í nokkur rit, er í ritnefnd fyrir ársritið Súlur og gaf út rit um fæðingardeildina á Akureyri árið 2012.

„Ég hef oft verið spurð: hvað hefur þú tekið á móti mörgum börnum? Mér finnst stundum að ljósmæður séu metnar eftir fjölda fæðinga, eins og það sé aðalatriðið í starfinu, sem er alls ekki. Það er svo margt annað sem ljósmæður gera; umönnun, mæðraskoðun, fræðsla, vitjanir og annað. Það er samt alltaf gaman að fá að taka á móti barni í heiminn. Ég hef ekki nákvæman fæðingafjölda hjá mér en talan í kringum eða yfir 700 er mjög líkleg. Flestar þessar fæðingar hafa farið fram á fæðingardeildum, en heimafæðingar voru samt nokkuð margar og á tímabili fæddu konur á mínu heimili. Þetta starf hefur gefið mér mikið.“

Fjölskylda

Eiginmaður Ásu er Sveinn Elías Jónsson, f. 13.1. 1932, húsasmíðameistari og fyrrverandi bóndi. Foreldrar hans voru hjónin Jóhanna Margrét Sveinbjarnardóttir, f. 4.12. 1893, d. 16.12. 1971, og Jón Einarsson, f. 12.10. 1892, d. 21.11. 1981, bændur í Kálfsskinni.

Börn Börn Sveins og Ásu eru: 1) Jón Ingi, f. 5.6. 1959, framkvæmdastjóri Kötlu ehf. Maki: Guðbjörg Inga Ragnarsdóttir, vinnur skrifstofustörf hjá Kötlu ehf. Börn þeirra eru þrjú og barnabörnin eru orðin fjögur; 2) Margrét, f. 27.9. 1960, framkvæmdastjóri markaða hjá Arion banka, maki: Óli Björn Kárason alþingismaður. Börn þeirra eru þrjú; 3) Erla Gerður, f. 15.4. 1966, heilsugæslulæknir og lýðheilsufræðingur, maki: Geir Borg, framkvæmdastjóri Gagarín ehf. Synir þeirra eru tveir; 4) Marinó Viðar Sveinsson, f. 11.9. 1971, framkvæmdastjóri Sportferða og ferðaþjónustu Ytri-Víkur, maki: Lilja Magnúsdóttir, vinnur við ferðaþjónustuna Ytri-Vík. Börn þeirra eru tvö og Marinó á einn son fyrir.

Systkini Ásu: Valgerður f. 5.12. 1927, d. 18.3. 1963, húsmóðir, Þorsteinn f. 30.12. 1934, fv. verkstæðiseigandi og bifvélavirki, Birgir, f. 27.10. 1939, d. 26.12. 2019, verktaki, kennari og tónlistarmaður, og Hildur, f. 24.9. 1941, handverkskona.

Foreldrar Ásu voru hjónin Guðmunda Ingibjörg Einarsdóttir, f. 15.11. 1905, d. 16.5. 1999, og Marinó Steinn Þorsteinsson, f. 28.9. 1903, d. 4.9. 1971.