Lífeyriskerfið á Íslandi er margslungið og því skiljanlegt að margir gefi því almennt ekki mikinn gaum. Í lífeyriskerfinu liggur hins vegar stór hluti sparnaðar landsmanna og því nauðsynlegt hverjum að það sé auðskiljanlegt og gagnsæi sé á lífeyrisréttindum. Flest erum við þó meðvituð um að lífeyriskerfi eru í grunninn byggð upp til þess að tryggja fólki viðurværi á efri árum og ef það dettur út af vinnumarkaði svo sem vegna örorku. Lífeyriskerfið grundvallast af þremur meginstoðum; almannatryggingum, skyldulífeyrissparnaði hjá lífeyrissjóðum og valkvæðum viðbótarlífeyrissparnaði. Þó hið eiginlega markmið stoða lífeyriskerfisins sé í grunninn það sama er þó grundvallarmunur á eðli þeirra. Hér á eftir er fjallað nánar um skyldu- og viðbótarlífeyrissparnað.
Hver er munurinn á skyldulífeyri og viðbótarlífeyri?
Íslenska lífeyrissjóðakerfið er svokallað sjóðsöfnunarkerfi. Í því felst í grunninn að hver kynslóð sparar fyrir sig með því að leggja til hliðar fjármuni í lífeyrissjóðina og myndar því rétt til greiðslu á lífeyrisgreiðslum í framtíðinni en jafnframt stofn til greiðslu útsvars og tekjuskatts á þeim tíma. Það sem markar íslenska lífeyrissjóðskerfinu sérstöðu er þó sú samtrygging sem í kerfinu felst en með því að greiða skylduiðgjald í lífeyrissjóð safnar sjóðfélagi réttindum í samtryggingu. Með samtryggingu er sjóðfélögum gert kleift að dreifa áhættu í hópi sjóðfélaga og sameinast þannig um að tryggja hver öðrum ævilangan ellilífeyri sem og örorku- og makalífeyri. Ákveðin vernd er því fólgin í fjöldanum sem deilir með sér áhættunni af sveiflum á mörkuðum, langlífi og öðrum forsendubreytingum. Skyldulífeyrissparnaður myndar þannig grunn sjóðfélaga að framfærslu frá starfslokum og til æviloka óháð því hve gamall hann kann að verða.Auk þess að greiða skyldulífeyri stendur launþegum til boða, valfrjálst, að greiða í viðbótarlífeyrissparnað. Launþegi getur greitt allt að 4% af launum sínum í slíkan sparnað og fær þá að jafnaði 2% mótframlag frá launagreiðanda. Viðbótarsparnaður er ólíkur skyldusparnaði þar sem í stað ávinnslu lífeyrisrétttinda í samtryggingarsjóði safnar sjóðfélagi séreign sem erfist að fullu. Auk þess eru útgreiðslur sveigjanlegri og geta hafist við 60 ára aldur eða við örorku. Þá ber einnig að nefna úrræði stjórnvalda síðustu ár þar sem veitt er heimild til skattfrjálsrar úttektar á uppsöfnuðu viðbótariðgjaldi vegna fyrstu íbúðarkaupa ásamt ráðstöfun viðbótariðgjalds inn á höfuðstól fasteignaláns. Við starfslok er algengt að ráðstöfunartekjur fólks lækki og getur viðbótarlífeyrissparnaður því verið mikilvæg viðbót vilji fólk leitast við að halda sambærilegum ráðstöfunartekjum fyrstu árin eftir starfslok. Þá má heldur ekki gleyma að vegna sveigjanleika í útgreiðslum viðbótarlífeyrissparnaðar er mögulegt að stýra útgreiðslum eftir hentugleika. Þannig má t.d. stýra greiðslum með þeim hætti að ráðstöfunartekjur séu hærri á fyrri hluta lífeyrisaldurs sem hugnast mörgum.
Samspil á milli skyldulífeyris og viðbótarlífeyris
Eftir að hafa reifað skyldulífeyrissparnað og viðbótarlífeyrissparnað sitt í hvoru lagi er ekki úr vegi að skoða samspil milli hvors tveggja. Skylduiðgjaldi í lífeyrissjóð má í mörgum tilfellum skipta á milli samtryggingar og séreignar kjósi sjóðfélagi svo. Í flestum tilfellum er þá um að ræða svokallaða tilgreinda séreign sem lýtur ákveðnum útgreiðslureglum en er að fullu erfanleg rétt eins og viðbótarlífeyrissparnaður. Nokkrir sjóðir bjóða svo upp á fleiri útgáfur af skiptingu milli samtryggingar og séreignar þar sem hlutfall skylduiðgjalds sem ráðstafað er í séreign er mishátt. Með þessum ráðstöfunum er erfanleiki lífeyrissparnaðar aukinn sem og sveigjanleiki í útgreiðslum.