Ebba Júlíana Lárusdóttir fæddist 7. mars 1934. Hún lést 1. febrúar 2022.

Útförin fór fram 8. febrúar 2022.

Við systkinin viljum, fyrir okkar hönd og Leu Rakelar Möller móður okkar, minnast Ebbu móðursystur með nokkrum orðum og koma á framfæri þakklæti fyrir samskipti liðinna stunda, samverustundirnar og vináttuna gegnum tíðina.

Ebba var næstyngst sjö systkina sem ólust upp á Staðarhóli, Silfurgötu 1 í Stykkishólmi. Elstu þrjú, Bjarni, Svanlaugur og Helga, eru látin en eftir lifa Lea Rakel, Hrefna og Gunnlaugur. Öll eigum við systkinin fallegar minningar úr Hólminum hjá Ástu ömmu og Lárusi afa. Þar og víða um land eigum við stóran ættlegg sem kominn er frá Páli Guðmundssyni frá Höskuldsey og Helgu Jónasdóttur frá Helgafelli, en Ásta amma og systkini hennar áttu æskuslóðir í Höskuldsey á Breiðafirði.

Systkinin tólf frá Höskuldsey báru ekki bara sterkan svip heldur höfðu, eins og Dagbjört Höskuldsdóttir frænka okkar hefur svo fallega bent á, eftirtektarverð persónueinkenni sem hafa endurspeglast í afkomendum þeirra. Þau lifðu við kjör og kost sem eru okkur sem nú lifum framandleg og óskiljanleg en þau mættu samt lífinu með jákvæðu hugarfari, glaðlyndi, vinnusemi og röggsemi. Það kvað að þeim og það sem við sem eftir komum fengum að upplifa og njóta var einstök og eftirminnileg frændrækni og væntumþykja. Knús og kossar á báðar kinnar, börnum var veitt athygli, sýnd virðing og traust sem efldi og byggði upp.

Ebba frænka sór sig sannarlega í Höskuldseyjarættina og bar sterk einkenni hennar. Hún var t.d. kappsöm um að við systrabörnin lærðum að standa á skíðum og kenndi ófáum frænkum og frændum þá list. Hún taldi ekki eftir sér að bæta við barni í bílinn þegar hún og Þorgeir Ibsen maður hennar, sá höfðingi og eðalmenni, fóru til fjalla á skíði. Við minnumst einnig jólaboða og afmælisboða þar sem fjölskyldan kom saman og stýrði Ebba oft dagskránni með sínum brag og röggsemi.

Ebba var glæsileg kona, falleg og flott, svo eftir var tekið. Það lék allt í höndum hennar. Hún var listræn og um árabil brenndi hún fallega hluti úr gleri sem hún miðlaði iðulega til ættingja sinna og vina við ýmis tilefni. Hún ræktaði grænmeti, plöntur, blóm og tré frá grunni og bjó til undurfagran garð í kringum hús sitt í hrauninu í Hafnarfirði – og miðlaði afurðum sínum til ættingja og vina af því örlæti sem henni var í blóð borið. Öllum hindrunum í lífinu mætti hún með seiglu, vandamál voru verkefni sem þurfti að leysa, lífsgleði og bjartsýni einkenndi framkomu hennar.

Foreldrar okkar áttu í fallegu vinasambandi við Ebbu og Þorgeir. Þau áttu margar góðar stundir saman í Hólminum, oft með Helgu og/eða Hrefnu og hittu þar fyrir bræðurna Bjarna, Svanlaug og Gunnlaug. Þau ferðuðust einnig mikið saman um landið og var Suðursveitin í sérstöku uppáhaldi. Þorgeir var einstakur maður og endalaus uppspretta fróðleiks, visku og skemmtilegheita.

Að leiðarlokum þökkum við Ebbu frænku fyrir samfylgdina gegnum lífið og allt sem hún kenndi okkur. Við vottum Ásgerði, Þorgeiri og fjölskyldum þeirra samúð okkar. Blessuð sé minning Ebbu Júlíönu Lárusdóttur frænku okkar.

Alma, Thomas,

Ásta og Edda.

Elsku Ebba frænka mín er dáin. Það er alltaf jafn sárt að syrgja. Samverustundirnar þökkum við og minninganna njótum við.

Ebba frænka ólst upp í sjö systkina hópi í litlu húsi í Stykkishólmi á Silfurgötu 1. Þar var mikil ástúð og samkennd; þrír bræður og fjórar systur. Ebba kynntist elskulegum eiginmanni sínum í gegnum skólann og líka sameiginlegt áhugamál þeirra badminton sem var mikið spilað í Hólminum og margir titlar unnir, meira að segja Íslandsmeistaratitlar. Ég man sérstaklega vel þegar Ebba kom heim frá Danmörku eftir húsmæðraskólavist að hún kom færandi hendi og gleymi ég aldrei rauða boxinu með Disney-myndum með sleikjóum í. Þetta box var síðan notað árum saman undir smákökur á hátíðastundum hjá Leu mömmu minni. Þegar Ebba og Þorgeir hófu búskap í Hafnarfirði voru þrjár systurnar sameinaðar á ný fyrir sunnan og komnar með fjölskyldur. Það var oft glatt á hjalla og mikið ástríki.

Minningar mínar eru alveg frá því ég var lítil í Stykkishólmi. Ebba og Hrefna yngri systur mömmu voru að passa mig og dekra við mig.

Eftir að ég eignaðist mína fjölskyldu var Ebba frænka ofarlega í huga dætra minna og þau Þorgeir kenndu tveimur eldri stelpunum á skíði og buðu þeim reglulega með sér í Bláfjöll. Þetta er þeim mjög eftirminnilegt. Við í Hæðarselinu og þau í Sævangi að gera garðana í stand; jeppakerra og steinar úr náttúrunni var sameiginlegt áhugamál á þeim tíma. Þau eru líka ófá sumarblómin í mínum görðum sem Ebba ræktaði úr fræjum.

Ég fékk gullfallega, stóra bláa skál frá listakonunni Ebbu frænku í afmælisgjöf þegar ég varð 60 ára. Ein fallegasta gjöf sem ég á frá henni og á ég þó nokkrar glerskálar í viðbót. Já, Ebba frænka var gjafmild og ófáar gjafirnar sem hún kom með handa systrum sínum þegar hún kom úr ferðum sínum til Flórída að heimsækja Þorgeir yngri og fjölskyldu.

Hluti úr Tárum úr ljóðabók eftir Sigurbjörn Þorkelsson:

Það er svo sárt að sakna

en það er svo gott að gráta.

Tárin eru dýrmætar daggir,

perlur úr lind minninganna.

Minninga sem tjá kærleika og ást,

væntumþykju og þakklæti

fyrir liðna tíma.

Minninga sem þú einn átt

og enginn getur afmáð

eða frá þér tekið.

Já, það er sárt að syrgja. Ég veit að fjölskyldurnar hennar Ebbu núna sameinaðar í Reykjanesbæ halda hver utan um aðra. Ég votta elsku Ásgerði og Þorgeiri og fjölskyldum þeirra innilega samúð. Minningin um góða og brosmilda frænku er falleg. Ég bið góðan Guð að veita fjölskyldunni styrk á þessum erfiðu tímum.

Margrét Kristín Möller.

Elsku Ebba okkar hefur nú fengið hvíldina löngu. Við sem eftir lifum söknum hennar og syrgjum. Margs er að minnast frá okkar langa og góða samstarfi. Hún var allt í senn vinkona, vinur, vinnufélagi og nágranni. Okkar vinskapur hófst þegar við unnum á sama vinnustað. Við áttum svo margt sameiginlegt, fjölskyldur okkar fengu lóðir í norðurbænum við sömu götu á sama tíma.

Eftir að við fluttum þurfti aðeins að ganga á ská yfir götuna til að hittast. Þá var vinsælt að fara í kvöldgöngu í alls konar veðrum um norðurbæinn fagra eftir hraunlögðum göngustígum. Auk þess gátum við farið samferða í vinnuna með skiptinemann minn í aftursætinu sem var dökkur Afríkubúi. Ebbu fannst alltaf svo skondið að líta í aftursætið og sjá bara hvíta úlpu og engan mann.

Sameiginleg áhugamál okkar voru mörg. Ferðir til útlanda með vinnufélögunum, rækta garðinn, flakka saman um bæ og borg, fara í bíó og kaffihús, líta inn á nytjamarkaði o.m.fl.

Síðasta ferðin verður alltaf minnisstæðust, þegar Ebba bauð okkur vinkonunum síðastliðið haust í helgarferð á æskuslóðir sínar í Hólminum eins og hún kallaði það. Við dvöldum í nýuppgerðu æskuheimili hennar. Sú ferð var einstök, skemmtileg samvera í þessu fallega húsi, útsýnið stórbrotið og haustlitirnir skörtuðu sínu fegursta. Ebba naut sín að aka með okkur um bæinn og segja okkur frá húsum og staðháttum. Fyrirhuguð var önnur ferð að ári liðnu á þennan fallega stað. Svo áttum við Ebba líka eftir að ganga saman niður Laugaveginn.

Það var gaman að hringja i Ebbu þegar hún var stödd á Flórída hjá syni sínum til að segja henni fréttir. Stórfréttin var að við vorum að flytja í húsið við hliðina á henni, þessu ætlaði hún aldrei að trúa. Nú vorum við komin nær henni svo aðeins þurfti að fara yfir lóðamörkin. Okkur auðnuðust tvö ár þarna saman áður en hún flutti til Keflavíkur nærri sínu fólki.

Ebba var sérstaklega góðhjörtuð kona og hún naut þess að gleðja aðra. Hún ræktaði fjölskyldu sína með miklum sóma og allan stóra frændgarðinn sinn. Hún hafði sérstakt yndi af að sýna myndir myndir af börnum og barnabörnum sínum við alls konar tækifæri. Gleði hennar var mikil þegar hún vissi að von var á nýju barni í fjölskylduna.

Sendi allri fjölskyldu Ebbu mínar innilegustu samúðarkveðjur. Því miður kemst ég ekki í jarðarförina til að fylgja vinkonu minni síðasta spölinn. Hvíl í friði elsku Ebba.

Ég vil gjarnan lítið ljóð

láta af hendi rakna.

Eftir kynni afar góð

ég alltaf mun þín sakna

(Guðrún V. Gísladóttir)

Guðrún.