Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Séra Dagur Fannar Magnússon, prestur í Heydölum í Breiðdal, var valinn til að gegna starfi sóknarprests í Skálholtsprestakalli. Frá þessu sagði í frétt í Morgunblaðinu í gær. Hann var einn fimm umsækjenda um starfið.
Þetta er í fyrsta sinn í kirkjusögunni, að skipaður prestur í Heydölum sækir um annað prestakall. Þetta upplýsir séra Gunnlaugur Stefánsson sem tók við prestsembætti í Heydölum í byrjun árs 1987 og sat staðinn í tæp 33 ár.
„Þetta sagði mér Guðjón Sveinsson, skáld og rithöfundur á Breiðdalsvík,“ segir séra Gunnlaugur.
Sr. Róbert Jack sat Heydali í tvö og hálft ár, en fór þaðan í Grímsey, en sr. Róbert var aldrei skipaður sóknarprestur í Heydölum, var settur í embætti tímabundið eða þar til sr. Kristinn Hóseason sótti um í kjölfar auglýsingar og hlaut kosningu og sat staðinn í 40 ár. Sr. Róbert sótti þá ekki um Heydali.
„Ég sótti svo um í lok árs 1986 og hlaut embættið í prestkosningu, sem var sú síðasta samkvæmt gömlu lögunum sem kváðu á um að öll embætti skyldu veitt í kjölfar prestkosningar,“ segir Gunnlaugur.
Guðjón skáld sagði Gunnlaugi að hann væri 33. í röð nafngreindra presta í Heydölum. Sr. Dagur Fannar er því sá 34. í röðinni. Talið er að prestur hafi setið Heydali allt frá því fljótlega eftir kristnitöku. Fáir höfðu rannsakað kirkjusögu Heydala betur en Guðjón skáld og sögu sr. Einars Sigurðssonar, prests í Heydölum (Nóttin var sú ágæt ein), og urðu rannsóknir Guðjóns og skrif hans um sr. Einar t.d. í Breiðdælu, til þess að vekja athygli á sálmaskáldinu svo fræðafólk í Háskóla Íslands tók við sér og setti sálmaskáldið á dagskrá með ítarlegum rannsóknum og útgáfu fræðirita, segir Gunnlaugur.
Guðjón Sveinsson fæddist á Þverhamri í Breiðdal 25. maí 1937. Hann lést 21. ágúst 2018. Guðjón var mikilvirkur rithöfundur og skáld.
Þetta er ekki það eina sögulega í sambandi við prestsembættið í Skálholti. Eins og fram kom í fréttinni í gær sóttu hjón um embættið sem er einsdæmi í kirkjusögunni. Um er að ræða séra Arnald Arnold Bárðarson prest á Eyrarbakka og séra Ingibjörgu Jóhannsdóttur, sem tók vígslu í Noregi.