Samstarf Eggert, Jóna, Þóra, Kristín og Unnsteinn koma fram á tvennum tónleikum í kvöld og annað kvöld.
Samstarf Eggert, Jóna, Þóra, Kristín og Unnsteinn koma fram á tvennum tónleikum í kvöld og annað kvöld.
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Nýstofnaður kvartett kemur fram á tónleikum í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í dag og á morgun kl. 20, skipaður fjórum ungum söngvurum, þeim Jónu G.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Nýstofnaður kvartett kemur fram á tónleikum í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í dag og á morgun kl. 20, skipaður fjórum ungum söngvurum, þeim Jónu G. Kolbrúnardóttur sópran, Kristínu Sveinsdóttur mezzósópran, Eggerti Regin Kjartanssyni tenór og Unnsteini Árnasyni bassa en Þóra Kristín Gunnarsdóttir mun leika á píanó.

Söngvararnir fjórir eiga langa vináttu að baki, hófu að syngja saman í Kór Langholtskirkju undir stjórn Jóns Stefánssonar heitins og héldu svo í söngnám til Vínarborgar. Þar komu þau Jóna, Kristín, Eggert og Unnsteinn reglulega fram í ýmsum verkefnum og hafa einnig sungið á óperusviði víða um Evrópu. Kristín starfaði við La Scala-óperuna í Mílanó, Eggert við óperuna í Baden Wien og í Salzburg, Jóna söng nýverið við Konunglegu óperuna í Kaupmannahöfn auk þess að koma reglulega fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Unnsteinn hefur síðastliðin ár verið fastráðinn við óperuna í Innsbruck í Austurríki. Þóra Kristín píanóleikari er svo nýkomin heim frá Sviss þar sem hún var við nám og störf.

Jóna er spurð hvernig hafi staðið á því að þau fóru öll fjögur í söngnám til Vínarborgar. „Það var einhver bylgja, flott að fara til Vínarborgar!“ svarar hún kímin. Þrjú þeirra námu við Tónlistarháskólann í Vínarborg sem er ríkisskóli en Eggert fór í einkaskóla.

Fjölbreytt efnisskrá

Jóna er spurð að því hvað kvartettinn ætli að syngja á tónleikunum í safninu í kvöld og annað kvöld.

„Við erum að fara að taka svolítið af dúettum og kvartettum. Þetta verður svolítið blandað prógramm, við ætlum að taka tvo kvartetta eftir Brahms og svo íslensk einsöngslög, eftir Jórunni Viðar og Sigvalda Kaldalóns og svo einn kvartett eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, „Morgun“,“ svarar Jóna. „Svo ætlum við líka að taka flokk eftir Robert Schumann, „Spanisches Liederspiel“, sem samanstendur af dúettum, kvartettum og einsöngsljóði,“ bætir Jóna við.

Hún er spurð að því hvað henni finnist skemmtilegast að syngja.

„Það er náttúrlega skemmtilegast að syngja saman, eins og núna. Þetta er svo skemmtilegt af því það hefur verið lítið um stofnun kvartetta hér á Íslandi í mjög langan tíma. Við erum öll menntaðir söngvarar og ætlum að reyna að gera svolítið mikið úr þessu,“ svarar Jóna.

En hefur ekki verið erfitt að fá verkefni í kófinu? „Jú, auðvitað, við náðum að syngja aðeins um jólin en svo hægðist bara á öllu, allt datt niður og þetta hafa auðvitað verið erfið tvö ár,“ segir Jóna og er bjartsýn á að nú sé að létta til.

Jóna segir tónleikana verða um klukkustund að lengd og að á milli verka verði stuttar kynningar. 90 gestir mega vera í salnum og fer miðasala á tónleikana fram á tix.is. Jóna nefnir að lokum að kvartettinn ætli líka að flytja þrjú ljóð „a capella“, þ.e. án hljóðfæraleiks, verk eftir Helga Rafn Ingvarsson tónskáld. Börn sömdu ljóðin og Helgi tónlistina fyrir Óperudaga. „Þetta verður fjölbreytt og við prófuðum að renna þessu í gegn í gær og þetta kom bara vel út,“ segir Jóna að lokum.