Sigrún Þorleifsdóttir fæddist í Efri-Miðbæ í Norðfirði 4. júní 1930. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Grund 29. janúar 2022.

Foreldrar hennar voru Þorleifur Árnason, bóndi í Efri-Miðbæ, f. 26. október 1892, d. 14. nóvember 1974, og Guðríður Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 14. ágúst 1903, d. 2. október 1982.

Sigrún var ein af 11 systkinum, og sú sjöunda í röðinni sem fæddust í Efri-Miðbæ. Aðeins fimm komust á legg en sex börn létust í bernsku. Systkini Sigrúnar voru Guðlaug Anna, f. 28. nóvember 1922, d. 25. ágúst 1923; Guðlaug Anna, f. 7 febrúar 1924, d. 30. apríl 1928; drengur, f. 25. janúar 1925, d. 25. janúar 1925; Borghildur, f. 5. maí 1926, d. 7. október 2000; Guðríður Árnína, f. 5. júní 1927, d. 15. október 1927; stúlka, f. 26. febrúar 1929, d. 26. febrúar 1929; Guðmundur, f. 5. apríl 1932, d. 30. september 2019; drengur, f. 30. september 1933, d. 30. september 1933; Sigurlaug, f. 24. janúar 1934, d. 16. nóvember 1999, og Þórhildur, f. 17. apríl 1946, d. 31. ágúst 2012.

Sigrún sleit barnsskónum í Neskaupstað en árið 1951 fór hún í lýðháskóla í Danmörku. Þar kynntist hún fyrst Jóhanni eiginmanni sínum, en hann nam arkitektúr við Gautaborgarháskóla, þau urðu fljótt góðir vinir. Að hausti sama árs fór Sigrún heim og lagði fyrir sig ýmis störf, en lengst af starfaði hún við afgreiðslu í Reykjavíkur Apóteki. Jóhann flytur svo aftur heim til Íslands 1968 og tóku þau fljótlega saman og giftust árið 1969. Jóhann lést árið 2005.

Útför Sigrúnar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 9. febrúar 2022, klukkan 13.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Elskuleg frænka mín, Sigrún Þorleifsdóttir, lést á Litlu-Grund 29. janúar, tæplega 92 ára, södd lífdaga. Var, að ég held, full tilhlökkunar að komast í græna landið og hitta alla sína sem farnir eru. Við Sirra, eins og við í fjölskyldunni kölluðum hana, kynntumst ekkert að ráði fyrr en á fullorðinsaldri, þar sem ég var 5-6 ára þegar hún fór að austan. Man hvað mér fannst spennandi að heyra að hún ynni í Reykjavíkurapóteki, þar sem hún vann reyndar í tugi ára og eignaðist margt góðra vina. Þegar hún svo giftist Jóhanni frænda fórum við að hittast meira. Alltaf gott að koma til þeirra og fá þau í heimsókn. Sirra elskaði söng og tónlist af öllu tagi. Þau Jóhann fóru mikið á Vesturgötuna þar sem var söngur á föstudögum. Það var henni mjög erfitt er hans naut ekki lengur við. Þá fréttum við að söngvökunni í Stangarhyl, sem mikið var látið af, enda afburðamenn við stjórnvölinn, Helgi Seljan og Sigurður Jónsson. Þar mættum við aðra hverja viku í sönginn, líka á aðra viðburði sem þar voru, og skemmtum okkur vel, alveg þar til söngvakan lognaðist út af, vegna fólksfæðar. Þá vorum við að komast nálægt fermingarári í mætingu. Sirra var farin að missa sjón nokkuð fljótlega eftir að við byrjuðum að mæta þar, en það breytti engu, því hún kunni alla texta sem sungnir voru. Sönglög, sem hún lærði sem barn, mundi hún líka, alveg ótrúlegt. Enda alltaf syngjandi hvar sem hún gat komið því við. Hún var fljót að komast í kórinn á Grund og var þar, þar til heyrnin fór að daprast. En hún gat hlustað á hljóðbækur með því að keyra þær á fullum styrk, enda mikill bókaormur alla tíð.

Þessi Covid-tími er búinn að skera niður heimsóknir meira og minna en Steinar Logi, systursonur hennar og mikið uppáhald, hefur séð um þá hlið þennan tíma og reynst henni sem besti sonur alla tíð. Öllum hennar systkinabörnum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Gakk þú út í græna lundinn,

gáðu fram á bláu sundin.

Mundu, að það er stutt hver stundin,

stopult jarðneskt yndi þitt.

Vorið kemur, heimur hlýnar,

hjartað mitt!

(Jóhannes úr Kötlum)

Guð blessi Sirru og ykkur öll.

Guðlaug Guðjónsdóttir.

Elsku frænka mín og nafna, fallin frá. Hvar á ég að byrja? Svo margar minningar.

Ég vissi mjög snemma hvaðan nafnið mitt kom. Ég var skírð í höfuðið á Sigrúnu frænku, systur afa. Fyrstu árin mín skildi ég það ekki alveg, enda þekkti ég frænku mína lítið. Hún átti heima í Reykjavík og ég á Egilsstöðum, en hún minnti mig samt ávallt á að við værum nöfnur og frænkur. Á yngri árum fékk ég sendan pakka um hver jól, með kveðju frá Sigrúnu frænku. Systur mínar nutu líka góðs af því, enda leyndist ávallt sælgæti með, sem oft hafði verið keypt erlendis og það gladdi okkur sveitapíurnar.

Þegar mamma byrjaði að vinna hjá Íslandsflug fékk ég stundum að fljúga suður og heimsótti þá Sigrúnu og Jóhann. Þau höfðu búið sér fallegt heimili í Hesthömrum í Grafarvogi. Í eldhúskróknum leystum við saman krossgátur, ræddum daginn og veginn og var Jóhann oft sendur eftir pizzu handa landsbyggðardömunni, því ekki borðaði ég venjulegan mat, nei nei, það var alveg ómögulegt fyrir ungling. Jóhann stalst í sneið þegar frænka sá ekki til.

Eftir að Jóhann lést fann ég í fyrsta sinn fyrir ábyrgðinni sem fylgdi því að vera nafna. Það skipti ekkert máli lengur nema að vera til staðar fyrir Sigrúnu frænku og bjó ég hjá henni í nokkra daga eftir andlátið. Það var mér mikil huggun að finna hvað samfélagið í Grafarvogi tók hana og vafði utan um hana faðminum. Hvort sem það var á bókasafninu, í bankanum eða búðinni, að ég tali nú ekki um dásamlega félagsskapinn sem hún hafði hjá Korpúlfunum og sundfélögunum í sundhöllinni, allir þekktu hana og Jóhann vel og vildu allt fyrir frænku gera til að hjálpa henni í gegnum sorgina. Ég gat fljótlega farið heim og vissi að hún væri í góðum höndum.

Sigrún átti áfram gott líf, þó að missirinn væri mikill. Hún flutti fljótlega í Bláhamra og eignaðist þar fleiri góða vini, hélt áfram að ferðast og njóta lífsins. Það var yndislegt að heimsækja hana þangað, og hún alltaf svo glöð þegar við komum til hennar, sérstaklega þegar ég kom í fyrsta skipti með Hilmi litla í heimsókn. Þá var farið um alla blokkina til að sýna prinsinn.

Við tókum reglulega rúnt niður í miðbæ, en þar átti Sigrún frænka margar góðar minningar, sérstaklega frá árunum sem hún vann í apótekinu. Svo var farið að snæða á annaðhvort Brasserie Aski eða Ruby Thusday, mjög vinsælir hjá okkur nöfnum. Svo átti hún einnig eftir að heimsækja okkur austur á land nokkrum sinnum og má þar helst nefna heimsóknina á áttræðisafmælinu hennar, það er í dag dýrmæt minning.

Hvíl í friði elsku frænka mín, þín verður saknað og ég veit að Jóhann tekur vel á móti þér í sumarlandinu.

Þín nafna

Sigrún Hólm Þórleifsdóttir.

Í dag er borin til grafar ástkær móðursystir mín, Sigrún Þorleifsdóttir eða Día eins og hún var alltaf kölluð. Día var mér nánast eins og móðir og börnunum okkar eins og amma, enda kölluðu þau hana alltaf ömmu Díu.

Sem krakki og fram á unglingsár fór ég oft með móður minni til Reykjavíkur og dvöldum við í góðu yfirlæti hjá Sigrúnu og Jóhanni yfir helgar.

Þegar ég fullorðnaðist kom ég oftast við hjá þeim þegar ég fór í bæinn. Það átti líka við eftir að við Elsa giftum okkur og börnin fæddust. Krökkunum þótti alltaf skemmtilegt að koma til ömmu Díu, því þar fengu þau nánast allt sem þau vildu.

Eftir að mamma dó var Día alltaf til staðar fyrir okkur og fylgdist vel með öllum.

Eftir andlát Jóhanns fór hún að koma í helgarheimsóknir til okkar í Hveragerði og var hjá okkur flest jól og stórhátíðir. Þá var oft spilað á spil eða tekin fram söngbók og sungið, en Día kunni alla texta sem sungnir voru. Día var mikil matmanneskja og þegar hún kom til okkar var það hennar fyrsta verk að skipuleggja matseðilinn. Elsa sá svo um að búa til matinn, að sjálfsögðu kom ég þar hvergi nærri, því Díu þótti ég ekki eiga að sinna þeim verkum.

Alltaf þegar Día kom til okkar viku annaðhvort Árni eða Birgir úr herbergi fyrir hana og fyrir það greiddi hún þeim leigu.

Seinni árin dapraðist sjónin hjá Díu og eftir að hún varð lögblind komst ég samt að því hún sá ýmislegt sem manni datt ekki í hug að hún sæi.

Síðustu árin dvaldi hún á Grund, þar sem henni leið vel og starfsfólkið hugsaði afar vel um hana. Fyrir það erum við afskaplega þakklát.

Día var einlægur aðdáandi Síríus-suðusúkkulaðis og kom það fyrir að ég fékk hringingu frá þeim á Grund, þar sem mér var sagt að suðusúkkulaðið væri búið og mál að fylla á.

Elsku Día okkar, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur.

Minning þín lifir í hjörtum okkar.

Steinar, Elsa, börn og barnabörn.