Haukur Þór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Okkar bílaleigu, sem heldur utan um Kinto-þjónustuna hér á landi.
Haukur Þór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Okkar bílaleigu, sem heldur utan um Kinto-þjónustuna hér á landi. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Frá og með morgundeginum geta viðskiptavinir Toyota leigt sér Toyota- eða Lexus-bíl til 12-36 mánaða.

Þessi nýja þjónusta Toyota ber yfirskriftina Kinto ONE og er hluti af nýrri stefnu fyrirtækisins á alþjóðavísu. Haukur Þór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Okkar bílaleigu, sem heldur utan um Kinto-þjónustuna hér á landi, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að leigan henti þeim sem þurfi að hafa aðgang að bíl en vilji ekki endilega binda fjármagn með kaupum á einum slíkum.

Allt er innifalið í leiguverði nema bensínkostnaður og þrif, þar með talið tryggingar, bifreiðagjald, dekk og dekkjaskipti auk reglubundins viðhalds.

Bíllinn er kaskótryggður sem þýðir að ef notandi verður valdur að tjóni greiðir hann eigin áhættu upp á að hámarki 177 þúsund krónur fyrir hvert einstakt tjón.

Fjölbreyttari þarfir

Forsaga málsins er sú að sögn Hauks að árið 2019 stofnaði Toyota fyrirtækið Kinto með það að markmiði að koma til móts við stækkandi hóp viðskiptavina sem vilja leigja bíla til skemmri eða lengri tíma og hafa fjölbreyttari þarfir en hefðbundnir kaupendur sem eiga sinn bíl til lengri tíma og sinna þannig öllum sínum ferðaþörfum.

Ástæðan fyrir þessu skrefi Toyota er að sögn Hauks að móðurfyrirtækið skilgreinir sig ekki lengur sem bílaframleiðanda eingöngu, heldur fyrirtæki sem hefur á boðstólum margvíslegar lausnir til að auðvelda öllu fólki að komast á milli staða.

Haukur segir að langtímaleiga á Toyota- og Lexus-bílum sé einungis fyrsta skrefið því í raun séu engin takmörk á því hvað hægt er að gera innan Kinto-hugmyndafræðinnar.

Ísland er fimmtánda landið sem byrjar með Kinto.

Aðspurður segir Haukur að í framtíðinni snúist þetta um farartæki af öllum stærðum og gerðum. „Þetta snýst bara um að koma fólki frá a til b. Toyota er nú þegar búið að pakka saman sex mismunandi Kinto-þjónustum, allt frá þessari langtímaleigu eins og við erum að byrja með upp í svokallað Car Pooling, þar sem fólk deilir bíl.“

Enn er þó óvíst að sögn Hauks hvort sú þjónusta verður boðin hér á landi. „Slíkt deilibílafyrirkomulag er nú þegar komið í prófun hjá Toyota í Svíþjóð og á Írlandi sem tilraunaverkefni.

Netsíða opnuð á morgun

Haukur segir að á morgun, 10. febrúar, verði opnuð netsíða á vefslóðinni kinto.is þar sem hægt verður að skoða verð og þjónustuframboð.

Sem dæmi um opnunartilboð á heimasíðunni verður í boði leiga á Yaris-bíl til 36 mánaða á 83 þúsund krónur á mánuði. Annað tilboð hljóðar upp á 89 þúsund krónur fyrir leigu á Yaris í eitt ár.

Kórónuveiran hefur valdið miklum töfum í bílaframleiðslu í heiminum. Verður til nóg af bílum handa öllum?

„Já, við ætlum að passa upp á að hafa þokkalegan lager. Framleiðslugetan hjá okkar birgjum, Toyota og Lexus, er orðin fín og við horfum ekki á það sem vandamál. Það er því engin hámarksstærð á flotanum okkar og við bjóðum alla velkomna.“

Allir bílar í boði

Aðspurður segir Haukur að allir bílar sem Toyota og Lexus framleiðir verði í boði í Kinto-þjónustunni.

„Þessi þróun er bara viðbragð við þeirri þróun sem er að verða í heiminum. Hinn vestræni heimur er að fara frá því að eiga hluti yfir í að nota hluti. Það er mikil aukning í svona þjónustu, hvort sem litið er til Bandaríkjanna, Bretlands eða Norðurlandanna. Þetta er komið til að vera.“

Hugmyndafræðin inniheldur sex mismunandi þjónustuleiðir

Kinto One-þjónusta Okkar bílaleigu er hluti af Kinto Europe sem er með höfuðstöðvar í Köln í Þýskalandi.

Eins og fram kemur á heimasíðu Toyota Motor Europe (TME) var Kinto Europe upphaflega hleypt af stokkunum snemma árs 2019 og eins og segir í samtalinu hér til hliðar, er hugmyndafræðin sú að hjálpa öllum að færa sig frá punkti a til punkts b.

Kinto Europe er að 51% hluta í eigu Toyota Financial Services Corporation (TFSC) í Japan en hin 49% eru í eigu TME.

Bæði félögin eru að fullu í eigu Toyota-bílaframleiðandans japanska.

One, Flex, Share, Ride, Join og Go

Á heimasíðunni er þjónusta Kinto tíunduð en auk Kinto One, sem fer af stað hér á landi á morgun, eru fimm aðrar þjónustuleiðir í boði í Evrópu.

Kinto Flex er þannig áskriftarþjónusta farartækja, Kinto Share er deiliþjónusta farartækja þar sem ólíkir aðilar sameinast í bíl. Kinto Ride er þjónusta eins og Uber og Lyft þar sem bílstjóri ekur bílnum og Kinto Join er deiliþjónusta eins og Kinto Share, nema fyrir fyrirtæki. Að lokum er það Kinto Go sem er alhliða og víðtæk lausn til að koma fólki á milli staða. Þar er um samhæfingu og skipulag ferðalags að ræða, þar sem almenningssamgöngur koma meðal annars við sögu.