Á mánudag rifjaði Karl Sigurbjörnsson upp gamalt vers á Feisbók: Stilli Jesús storm og sjó, stríði láttu linna, Kristur sem á krossi dó komi til bæna minna. Elvar H.

Á mánudag rifjaði Karl Sigurbjörnsson upp gamalt vers á Feisbók:

Stilli Jesús storm og sjó,

stríði láttu linna,

Kristur sem á krossi dó

komi til bæna minna.

Elvar H. Hallfreðsson skrifar í Boðnarmjöð: „Nú eru tæp 30 ár síðan ég flutti til útlandsins, og ýmislegt breytt í íslensku þjóðlífi. En íslenska rokið virðist vera samt við sig“:

Brjálað veður berst á land,

brim við strönd og hleinar.

Yfir kaldan eyðisand

ennþá fjúka steinar.

Ægir Breiðfjörð Jóhannsson segir að það séu allir að yrkja um veðrið:

Ekki verður oss um sel

yfir kvæða liði.

Ofviðrið er að ég tel

allt á Boðnarmiði.

Hallmundur Kristinsson segir að stundum verði vísur til af einhverju tilefni. En sumar vísur verða til að tilefnislausu. Þá verður maður að reyna að finna tilefni eftir á!

Oft við höfum smætt og smáð

smælingjanna vik,

yfir hverja drýgða dáð

dregið pennastrik.

Hér er limra eftir Eyjólf Ó. Eyjólfsson:

Er stormur á húsunum hamast

og í hríðinni samgöngur lamast

syngur Helga á Stöng

sinn heiðlóusöng

því henni er sólskinið tamast.

Gunnar J. Straumland yrkir:

Lemur hlíðar landsynningur

lægðartíðar arga vá.

Skafla ríður skafrenningur

skeiðar hríðarfáki á.

Guðmundur Arnfinnsson segir að ekki verði öllu bjargað:

Batt ég niður bátinn minn,

bjó mig undir rokið,

trampólínið lét ég inn,

en lánstraustið er fokið.

Gunnar J. Straumland yrkir:

Er grímuskyldan var búin í bráð

birtist minn forljóti kjaftur

þá fékk ég í sannleika sárum það ráð

að setja upp grímuna aftur.

Hér er limra eftir Anton Helga Jónsson:

Um bæinn var leiðin mín löng

og leitin að hálstaui ströng.

Þótt virðuleg bindi

í verslun ég fyndi

þá voru flest einum of þröng.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is