Axel Arnar Nikulásson fæddist 2. júní 1962. Hann lést 21. janúar 2022.

Útför hans fór fram 7. febrúar 2022.

„Ég mun halda áfram að angra þig, Malli minn, þú getur treyst því,“ sagði Axel og hló við örfáum dögum áður en hann kvaddi. Ekki það að hann hafi nokkru sinni angrað mig en mér finnst þessi setning lýsa Axel betur en mörg orð. Baráttujárnviljinn og bjartsýnin óþrjótandi – húmorinn ekki langt undan þrátt fyrir að verulega hefði dregið af honum.

Ég kynntist Axel Arnari Nikulássyni fyrir aldarfjórðungi þegar ég hóf störf í utanríkisþjónustunni. Þessi vörpulega körfuboltahetja tók á móti nýliðanum í EES-málunum með bros á vör, einstakri hjálpsemi og hlýju. Það myndaðist einhver notalegur strengur á milli okkar sem ávallt hélst þótt við byggðum ból út og suður og sjaldnast samtímis á sama stað í heiminum.

Axel gekk til liðs við utanríkisþjónustuna um miðjan tíunda áratug síðustu aldar og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum á sínum starfsferli. Í ráðuneytinu fékkst hann m.a. við rekstur EES-samningsins, fiskveiðisamninga, auðlindamál, málefni norðurslóða og mannréttindamál. Þá starfaði hann við fastanefnd Íslands í New York og varð síðar staðgengill sendiherra í Peking og London. Hann settist í yfirstjórn ráðuneytisins 2016 þegar hann tók við starfi mannauðsstjóra. Það er vandasamt verk að vera mannauðsstjóri í utanríkisþjónustunni þar sem starfsmenn eru, ásamt fjölskyldum sínum, fluttir heimshorna á milli með reglulegu millibili. Axel virtist einfaldlega í blóð borið að leysa farsællega snúin og viðkvæm starfsmannamál. Eflaust kom þar bakgrunnur körfuboltakappans að góðum notum auk innsæis, virðingar fyrir náunganum, hlýju og passlegrar hreinskilni, svona í bland.

Tryggari liðsmann og traustari félaga en Axel er erfitt að hugsa sér. Axel hafði ríka réttlætiskennd og lét í sér heyra ef honum fannst á einhvern hallað. Þá tók hann á móti - stundum fast – en alltaf af sanngirni. Fyrir stuttu greindi okkur á en þegar ég yfirgaf skrifstofuna hans sagði hann íbygginn: „Þetta leystum við án blóðsúthellinga og vináttan stendur traustari en nokkru sinni.“ Auðvitað komu þessi viðbrögð landsliðskempunnar ekkert á óvart – að leik loknum takast menn í hendur.

Axel var sannkallaður sagnameistari og ef einhver þurrð varð á sögunum þá munaði hann ekkert um að kasta fram ferskeytlu, oftar en ekki með glettni í augum. Skemmtikraftur Axels hefur verið virkjaður með útgáfu skemmtisögukvers úr utanríkisþjónustunni. Að frumkvæði Axels kom fyrsta kverið út fyrir síðustu jól og vakti mikla lukku. Verður nýjum sögum bætt við kverið um hver jól framvegis.

Myndin af Axel verður ekki að fullu upp dregin án þess að minnast á hversu heitt hann unni fjölskyldunni. Honum varð tíðrætt um hvernig börnunum reiddi af og hversu lánsamur hann hefði verið að kynnast henni Guðnýju sinni – sem var ekki „bara“ ástkær eiginkona heldur líka hans besti og tryggasti vinur.

Fyrir hönd utanríkisráðherra og starfsfólks utanríkisþjónustunnar votta ég eiginkonu hans Guðnýju, Fríðu, samstarfsfélaga okkar í ráðuneytinu, Agli og Bjargeyju dýpstu samúð. Minningin um góðan dreng og mikinn mannvin lifir.

Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri.

Það var eftirmiðdaginn 22. desember sl. sem við Axel kvöddumst í síðasta sinn á bílastæðinu fyrir framan Kjarvalsstaði. Við skiptumst á gjöfum fyrir komandi hátíð og ræddum hvenær við ætluðum að hittast næst. Við höfðum endurnýjað kynni okkar fyrir um sjö árum þegar við hittumst á fundum innan Stjórnarráðsins. Það var svo á síðastliðnu ári sem við fórum að hittast reglulega á Kjarvalsstöðum, spjalla og njóta félagsskapar hvor annars.

Axel var einstakur maður. Eftir situr í huga mér hreinskiptinn, heiðarlegur, hlýr og um fram allt skemmtilegur maður. Axel var ein þeirra mannvera sem gera jarðveg samfélaga okkar betri. Mannvera sem í sjálfleysi sínu og auðmýkt þjónaði sameiginlegri heild, viðhélt gróanda mannflórunnar.

Við töluðum um körfubolta, stjórnsýsluna, ættfræði og allt milli himins og jarðar. Axel bar sig ávallt vel og aldrei var að skynja á honum annað en ást og gleði yfir lífinu og tilverunni, sama hvernig viðraði.

Mig langar með þessum fáu orðum að kveðja Axel Nikulásson, þakka honum samveruna og votta fjölskyldu hans og ættingjum innilega samúð. Minning hans lifir.

Héðinn Unnsteinsson.

Axel vinur minn er fallinn frá alltof snemma. Hann varð að lúta í lægra haldi fyrir krabbameini þrátt fyrir hetjulega baráttu í langan tíma.

Tvíburarnir Axel og Óskar voru með mér í bekk í byrjun skólagöngu okkar. Kennari okkar, Ólafur Jónsson, ákvað að hefja körfuboltaæfingar fyrir okkar aldurshóp við 11 ára aldurinn og við ásamt rúmlega 50 öðrum mættum á fyrstu æfinguna. Af þessum hópi náðu nokkrir að leika með landsliðum Íslands. Á unglingsárum jókst vinátta okkar Axels enn meira þegar við vorum valdir í unglingalandsliðshóp og þurftum við reglulega að koma okkur til Reykjavíkur á æfingar með rútunni, það var ekki verið að skutla unga fólkinu um allar trissur þessi ár. Þegar kom að því að við fengum bílpróf vorum við nokkrir félagarnir mikið á rúntinum í Keflavík, en alltaf með körfuboltann í bílnum og pásan á rúntinum fólst í því að hoppa út á völl og slást aðeins þar með tónlistina í botni.

Það var ekki þekkt að körfuboltamenn stunduðu æfingar allt árið, en eitt sumarið tókum við Axel og Valur Ingimundar okkur til og fórum daglega upp á Keflavíkurflugvöll og lékum við bandarísku hermennina, sem varð til þess að við náðum slíkum framförum að við vorum allir valdir í landsliðið skömmu síðar. Við Axel upplifðum stóra stund saman árið 1989 þegar við Keflvíkingar urðum Íslandsmeistarar í körfubolta, sem var upphafið að stórveldi Keflavíkur í íþróttinni fögru. Það sem einkenndi Axel á vellinum var baráttugleði hans, hún smitaði okkur liðsfélagana, hann var afskaplega duglegur að láta okkur heyra það ef við vorum ekki að leggja okkur fram. Það var frábært að eiga Axel sem liðsfélaga.

Oft á tíðum enduðum við á Smáratúninu eftir æfingar, þar var líflegt og gaman að koma. Mamma Axels, Óskars og Binna hristi oft höfuðið þegar lætin voru mest og Nikki pabbi þeirra var jafn hávær og drengirnir. Axel hafði gaman af því að segja sögur og gerði vel og það sem einkenndi frásagnir hans voru heilu frasarnir sem hann gat farið með og við höfðum gaman af.

Eftir körfuboltaferilinn hóf Axel störf hjá utanríkisráðuneytinu og þau Guðný fóru á flakk um heiminn, þá minnkuðu samskiptin eins og gengur og gerist en nú síðari ár höfum við hópurinn verið duglegri að hittast með reglulegu millibili og áttum skemmtilegar stundir saman þar sem minningar frá yngri árum voru oft ofarlega í huga okkar.

Við vinirnir fengum að fylgjast með baráttu Axels í veikindunum og það er erfitt að horfa á eftir góðum vini sem fékk alltof stuttan tíma á meðal okkar. Ég hugsa með þakklæti til vinskapar okkar í gegnum öll þessi ár.

Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til Guðnýjar, barnanna og fjölskyldu.

Blessuð sé minning baráttujaxlsins Axels Nikulássonar.

Jón Kr. Gíslason.

Hér er fækkað hófaljóni –,

heiminn kvaddi vakri Skjóni.

Enginn honum frárri fannst ...

(Jón Þorláksson)

Fallinn er frá langt um aldur fram kær vinur og fyrrverandi samstarfsfélagi, Axel Nikulásson, eða „vakri Skjóni“ eins og hann kallaði sig gjarnan sjálfur. Leiðir okkar lágu fyrst saman seint á síðustu öld, þegar ég hóf, ung og óreynd, störf á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Það fór ekki fram hjá neinum þegar Axel mætti á svæði, það gustaði af honum í bestu mögulegu merkingu þess orðs. Hár, þrekinn og skrefstór svo um munaði. Fyrir hvert spor sem hann tók þá tók ég a.m.k. þrjú. Honum lá hátt rómur, tilsvör hans iðulega hnyttin og gott ef það vottaði ekki fyrir örlítilli kaldhæðni líka.

Á þessum tíma var fólk ráðið á flutningsskyldu til hins opinbera. Ég datt því heldur betur í lukkupottinn þegar við vorum bæði send út til starfa hjá fastanefnd Íslands hjá Sþ í New York, svo að segja á sama tíma. Ég leit upp til hans í orðsins fyllstu merkingu! Hann hafði ráð undir rifi hverju og þegar ég leitaði til hans hvort sem var með eitthvað tengt vinnunni eða mínu einkalífi þá gat ég alltaf treyst á heiðarlegt og hreinskilið svar. Það var mér óendanlega dýrmætt svo fjarri heimahögunum.

Við Axel röltum gjarnan saman út í hádeginu til að ná okkur í hádegissnarl og ræddum þá um heima og geima. Ég spurði hann eitt sinn hvort það breytti ekki lífinu stórkostlega að eignast barn, hann þurfti ekkert að hugsa sig um og svaraði um hæl: „Þú eignast bara annað og magnaðra líf.“ Ég skildi það betur síðar. Ég var svo lánsöm að fá líka að kynnast Guðnýju konunni hans, og börnunum þeirra Fríðu og Agli sem þá voru lítil krútt. Missir þeirra og Bjargeyjar er mikill.

Þó svo leiðir okkar í utanríkisþjónustunni skildi þá var vinskapur okkar kær og héldum alltaf tengslum hvar svo sem við vorum stödd í heiminum. Þegar ég var nýflutt aftur til Íslands hittumst við í jarðarför okkar gamla yfirmanns, Þorsteins Ingólfssonar. Axel sagði mér frá því að þá hefði hann nýverið greinst með fjandans krabbann en það væri nú bara eitt af þessum verkefnum í lífinu sem hann ætlaði að takast á við eins og hvert annað. Ég trúði því svo innilega að ef einhver myndi sigrast á þessum vágesti þá væri það hann.

Ég hitti Axel og Fríðu síðast um páskana í fyrra er ég keypti af þeim páskaliljur, í þeim eina tilgangi að ná að kasta á hann örstuttri kveðju. Hann hafði látið á sjá en bar sig vel og brosti breitt og hló hátt, eins og hans var von og vísa.

Með þessum fátæklegu orðum og bút úr kvæði Jóns Þorlákssonar kveð ég kæran vin og votta um leið Guðnýju og börnunum mína innilegustu samúð. Megi almættið veita ykkur styrk í sorginni.

Hvíl í friði kæri vinur,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Björg Sæmundsdóttir.

Það var traust og þétt handtak Axels Nikulássonar og úr andlitsdráttum hans mátti vel greina ákveðni, glettni og hlýju þegar ég bauð hann velkominn til starfa í utanríkisþjónustunni á vordögum 1995. Þannig reyndi ég hann æ síðan og fljótlega myndaðist með okkur vinátta sem ég get varla þakkað nógsamlega fyrir.

Axel var áður í fremstu röð íslenskum körfuknattleik, lék fjölmarga landsleiki og varð Íslandsmeistari með Keflavík og KR. Stór þáttur í þeim árangri var andlegt og líkamlegt atgervi og sterk tilfinning fyrir mikilvægi liðsheildar. Þessir eiginleikar reyndust heilladrjúgir í störfum hans í utanríkisþjónustunni. Hann gegndi margvíslegum ábyrgðar- og trúnaðarstörfum heima og erlendis, sem staðgengill sendiherra í Peking og London og sem mannauðsstjóri utanríkisráðuneytisins. Í sínum störfum ávann hann sér einstakt traust og orðsporið var ávallt á sömu nótum og getið er hér að framan. Axel lagði mikla rækt við hvaðeina sem hann tók sér fyrir hendur, menn og málefni, og í störfum sínum varð hann í senn vinur og samherji samstarfsfólks síns. Hann var opinskár og ákveðinn en lagði áherslu á að sjónarmið annarra nytu sín. Þannig var málefnalega tekið á hlutum og sanngirni gætt í niðurstöðum. Aldrei stóð á hvatningu hans og aðstoð í ólíklegustu málum, oftar en ekki erfiðum. Þetta reyndi ég vel á samstarfsárum okkar í sendiráði Íslands í London. Í stundum milli stríða nutum við starfsfólkið leiftrandi frásagnargáfu og kímni Axels, sögurnar voru mergjaðar en einatt stórskemmtilegar. Í þeim eins og öðrum verkum hans endurspegluðust lífsreynsla hans og skoðanir og rótgróin réttlætiskennd, manngöfgi og umhyggja fyrir öðrum. Þessara eiginleika hans nutu svo skjólstæðingar sendiráðsins sem oft knúðu þar dyra í miklum nauðum staddir.

„Við förum í leiki til að vinna þá,“ sagði Axel við mig þegar hann greindi mér frá veikindum sínum 2017. „Við gerum okkar besta en svo kemur í ljós hvort það dugar,“ bætti hann við. Þetta lýsti honum vel og oftar en ekki snerust samræður okkar þegar hann kom í meðferðarheimsóknir til Kaupmannahafnar og síðar um gildi af þessum toga. En eigi má sköpum renna. Þrátt fyrir afburðaþrautseigju baráttujaxlsins voru tíðindin full trega sem bárust á bóndadeginum að Axel, kær vinur og náinn samstarfsmaður, væri allur. Alla sem hann þekktu setti hljóða.

Að leiðarlokum er margs að minnast og margt að þakka. Axel Nikulásson lifir í verkum sínum og í minningum okkar allra sem bárum gæfu til að kynnast honum í leik og starfi. Ég minnist með hlýju, þakkæti og virðingu drengskaparmannsins og dugnaðarforksins, hins ráðagóða samstarfsmanns og vinar. Ekki síst minnist ég hugrekkis hans og æðruleysis í baráttu við illvígt mein sem hann að lokum laut í lægra haldi fyrir. Hugur okkar er hjá yndislegri konu hans, Guðnýju Reynisdóttur, börnunum þremur og augasteinum þeirra beggja. Við Alla sameinumst í innilegri samúð með þeim á þessari sorgar- og kveðjustund og biðjum um Guðs styrk þeim til handa og blessun hans yfir minningu Axels Nikulássonar.

Benedikt Jónsson.

Ég er „people person“, sagði Axel við mig þegar við ræddum þann möguleika að hann tæki við starfi mannauðsstjóra. Eitt erfiðasta starf utanríkisþjónustunnar. Og það var hann svo sannarlega, fólksins maður. Réttur maður í þetta verkefni sem hann leysti af alúð og natni, þar sem einstaklingurinn, starfsfólkið, naut virðingar og umhyggju. Axel var skemmtilegur, bjó yfir frásagnargaldri, glettni, lausnamiðaður og úrræðagóður. Við vorum samflota í utanríkisþjónustunni í áratugi. Einstakur samverkamaður og samferðamaður. Frábær diplómat sem vann sér virðingu og vináttu hvar sem hann bar niður í störfum sínum. Gegnheill. Þetta er ósannagjarnt svo ekki sé meira sagt. Að maður í blóma síns lífs sé hrifinn á brott. Fílhraustur, stór og sterkur, aldrei misdægurt þar til þessi illvígi óvelkomni gestur knúði dyra. Og reyndar ekki, hann ruddist inn. Og áralöng barátta hófst sem Axel háði af æðruleysi, alltaf grunnt á glettninni, alltaf blik í auga. En enginn má sköpum renna. Ég kveð kæran samstarfsmann, félaga og vin með sárum söknuði og þakklæti fyrir samferðina og góðar minningar. Megi góðar vættir styrkja Guðnýju og börnin í þeirra miklu sorg. Blessuð sé minning góðs drengs.

Stefán Haukur Jóhannesson.

Kveðja frá Körfuknattleikssambandi Íslands KKÍ

Það var sárt að fá þær fréttir að Axel Nikulásson væri fallinn frá.

Efst í huga okkar hjá KKÍ er þakklæti fyrir hans framlag til íslensks körfuknattleiks, að hafa fengið að þekkja hann og finna hans miklu ástríðu fyrir íþróttinni okkar. Við höfum fundið það sterkt og séð að körfuknattleikshreyfingin syrgir góðan vin og félaga.

Axel lék 63 landsleiki með karlalandsliði Íslands á sínum tíma auk þess að spila með yngri landsliðum. Axel tók svo að sér hin ýmsu verk fyrir KKÍ, var í unglinganefnd, þjálfari, ráðgjafi og um tíma vann hann á skrifstofu sambandsins. Innan körfuknattleikshreyfingarinnar er mikill ljómi yfir drengjalandsliði okkar sem þá var kallað, eða árgangar 1976 og 1977, og var Axel þjálfari þessa liðs. Það drengjalandslið varð fyrsta landsliðið í sögu KKÍ sem komst á lokamót í Evrópu sumarið 1993. Ævintýri Axels og strákanna var mikið þar sem allir sem að liðinu komu lögðu mikið á sig til að ná þessum sögulega árangri.

Eftir að Axel hætti í sínum störfum fyrir sambandið var hann ávallt í góðum tengslum, honum var mjög umhugað um KKÍ og íslenskan körfubolta. Það var alltaf gott og gagnlegt að fara yfir málin með Axel.

KKÍ og körfuknattleikshreyfingin kveður góðan félaga með kærri þökk fyrir hans framlag til íþróttarinnar okkar.

Fjölskyldu Axels sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Axels Nikulássonar.

Fyrir hönd stjórnar og starfsmanna KKÍ,

Hannes S. Jónsson formaður.

Það er stundum skrítið hvernig forlögin leika sér og leiða fólk saman. Við hjá Íþróttasambandi fatlaðra urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Axel Nikulássyni í aðdraganda Ólympíumóts fatlaðra sem fram fór í Peking í Kína 2008. Greiðvikni hans, brosmildi og hans beitti húmor var nokkuð sem við kolféllum fyrir og kunnum að meta.

Sem starfsmaður sendiráðs Íslands í Kína var hann sérstakur tengiliður framkvæmdaaðila leikanna við íslenska hópinn þar sem engin mál voru svo lítil eða stór að hann leysti þau ekki með bros á vör og smá skemmtisögu. Þannig gerði Axel okkur þann heiður að ganga inn með íslenska hópnum við setningarathöfn leikanna 2008. Slíkt hið sama gerði hann 2012 í London, þangað sem hann hafði flutt sig um set og vann þar í íslenska sendiráðinu. Í millitíðinni heimsótti Axel skrifstofu ÍF reglulega og var sambandinu innan handar um hin ýmsu mál sem þörfnuðust úrlausnar.

Axel var maður hreinn og beinn með stórt hjarta sem hafði mikið að gefa. Slíku ber ævistarf hans fagurt vitni.

Þakklæti og söknuður er okkur efst í huga þegar þessi góði drengur er fallinn frá.

Blessuð sé minning Axels Nikulássonar.

Fjölskyldu Axels sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar og starfsfólks Íþróttasambands fatlaðra,

Ólafur Magnússon.

Að setjast niður og skrifa minningarorð um Axel frænda minn er svo óraunverulegt og sárt en margs er að minnast. Minningakorn koma upp í hugann frá frægri útilegu á Laugarvatni, frá heimsókn til Axels og Óskars þegar þeir voru við nám í Bandaríkjunum og þegar við Stefán hittum Axel okkar í London.

Mér er efst í huga þakklæti fyrir vináttu Axels og samfylgd alla tíð.

Frá fyrstu tíð vorum við miklir félagar, það var gaman að eiga þrjá frændur á svipuðum aldri í Keflavík og samgangur fjölskyldnanna var alltaf mikill.

Keppnismaðurinn Axel sem gafst aldrei upp og gaf allt í hvern leik, það má segja að hann hafi notað alla sína reynslu úr íþróttunum í baráttuna við vágestinn undanfarin ár. Það var aðdáunarvert að fylgjast með frænda, hann sýndi mikla auðmýkt og æðruleysi. Eitt sinn sagði hann mér að það væri ekki til neins að fara í fórnarlambið, það væri ekki góður staður til að vera á. Hann notaði tímann meðal annars í útsaum og þar var sami metnaðurinn og í öllu öðru sem hann tók sér fyrir hendur, hann saumaði út fíngerðar myndir með mörgum tugum lita. Ég skil ekki enn hvernig stóru körfuboltahendurnar gátu þetta.

Við frændsystkinin vorum í góðu sambandi og síðustu ár vorum við dugleg að taka góða göngutúra í hádeginu og fá okkur svo hressingu á eftir. Í göngum okkar leystum við ýmis mál og ræddum það sem okkur lá á hjarta hverju sinni. Axel var mikill gæfumaður í einkalífi og það fór ekki á milli mála hversu stoltur hann var af Guðnýju sinni og krökkunum þremur.

Það var alltaf notalegt að hitta Axel á körfuboltaleikjum í KR-heimilinu, hann mætti þegar hann hafði heilsu til. Eins þótti mér svo vænt um það þegar hann hafði tök á að horfa á Stefán Fannar keppa í körfubolta. Það gaf ungum manni mikið að vita af frænda sínum á meðal áhorfenda.

Mikið á ég eftir að sakna Axels og hans góðu nærveru, með fallegu augun og prakkaralega brosið. Við Stefán Fannar þökkum fyrir allar góðu stundirnar.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Innilegar samúðarkveðjur til Guðnýjar, Fríðu, Egils, Bjargeyjar og Lóu frænku. Eins er hugur okkar hjá systkinum Axels, Óskari, Binna, Þóru og fjölskyldum þeirra.

Takk fyrir allt, kæri vinur.

Anna og Stefán Fannar.

Þá er þessu lokið. Ég var virkilega farinn að trúa því að þú hefðir betur. 10 dögum áður en þú dóst varstu hrókur alls fagnaðar þar sem við félagarnir hittumst í hádegismat. En þú sagðir okkur líka frá nýjum meinum og geisla- og lyfjameðferðinni sem þú varst að byrja á daginn eftir. Þessi meðferð reyndist þér um megn. Sláttumaðurinn, sem þú ræddir oft um sem vin sem kíkti á þig af og til en hafði ávallt farið erindisleysu, hafði betur í þetta sinnið.

Eftir standa minningar um einhvern mesta karakter sem ég hef kynnst. Þvílíkar minningar. Axel hafði þann hæfileika að geta breytt fáfengilegustu atburðum í óendanlega skemmtun bæði með því sem hann sá í hlutunum og einnig með frásagnargleði. Hann var held ég sá umburðarlyndasti maður sem ég hef þekkt. Það var nánast sama hvernig maður talaði við hann og hvað maður sagði og hversu mikið það fór í skapið á honum, alltaf kom hann til baka. En það var tvennt sem hann gat ekki umborið: Annars vegar baktjaldamakk og rangar ásakanir og hins vegar þoldi hann engan veginn fólk sem honum fannst leiðinlegt. Við þá sem féllu undir þetta hafði hann algjör lágmarkssamskipti og aldrei ótilneyddur.

Á dimmustu stund okkar hjóna komu Axel og Óskar til okkar og hefur Halldóra lýst því sem góðum sálfræðitíma. Svona var Axel, gat verið grjótharður en var svo hinn ljúfasti þegar á þurfti að halda. Njóttu þín vel hvar sem þú ert, kæri vinur.

Kæra fjölskylda. Það er risastórt skarð höggvið ykkar hóp, en eftir standa minningar um góðan eiginmann, föður, bróður og son.

Guð blessi ykkur.

Siggi (S. Langi).

Sigurður Sigurðarson.

Axel Nikulásson er til moldar borinn í dag og ég harma andlát hans eins og öll þau sem kynntust honum. Það gustaði af Axel, sem var stór maður í öllum skilningi en um leið lipur og fjölhæfur með eindæmum, og þess naut utanríkisþjónustan ríkulega alla starfsævi Axels víða um heim. Honum voru falin margvísleg og mikilvæg verkefni og hann hafði listalag á að koma þeim í höfn. Enda kappsfullur og marksækinn. Aðrir munu verða til þess að halda á lofti afrekum hans, bæði á íþróttasviðinu og annars staðar.

Við Axel kynntumst vel á Kínaárum okkar og þar var hann bæði margra manna maki og hrókur alls fagnaðar. Hann hafði einstakt lag á að bregða spéspegli á menn og málefni, var stríðinn og með létta lund, var orðsins maður og naut þess að skrifa enda gaf hann út skemmtilegt kver um árin þar eystra. Hann tvínónaði ekki við hlutina og kom miklu í verk. Samstarfið hélt áfram á öðrum starfsstöðvum og vinskapurinn dýpkaði með árunum. Oft og mikið var hlegið að uppátækjum og uppákomum í Miðríkinu en Axel hafði einstakt lag á að bregða spaugilegu ljósi á málin.

Axel bað mig að kaupa ýmislegt smálegt fyrir sig heima og taka með til Peking þegar ég fluttist þangað til starfa í upphafi árs 2010. Aðallega voru þetta samt hannyrðavörur, mismundandi stærðir af nálum og garn sem ég átti að kaupa í hannyrðabúðinni á Njálsgötu. Ég hugsaði að konan hans hlyti að vera mikil hannyrðakona – sem segir auðvitað sína sögu um staðalmyndir og viðhorf – og varð því hissa þegar ég komst að því að það var Axel sjálfur, stóri og öflugi körfuknattleiksmaðurinn, sem saumaði út í frístundum. Verkin hans kröfðust mikillar nákvæmni og ögunar og Axel naut þeirrar iðju. Og var stoltur af. Ég held mikið upp á útsaumsmyndina af systrunum þremur sem Axel gaf mér þegar hann og fjölskyldan fluttu frá Kína til Bretlands um árið.

Það var afar sárt að sjá og skynja hve þungt krabbameinið lagðist á Axel og þótt hann bæri sig vel og ætlaði sér að hafa betur þá kveið hann því mjög að skiljast við börnin og Guðnýju. Þótt hann segði Guðnýju vera sterka og ráða við allar aðstæður og börnin öll vel gerð og hæfileikarík. Hann sagðist hafa spurt krabbameinslækninn sinn þegar hann greindist með sjúkdóminn vonda að því hvort tæki því að byrja á stóru myndinni sem hann bjóst við að tæki þrjú ár að ljúka. Það var alltaf stutt í hárbeittan gálgahúmor, í þetta sinn með grafalvarlegu ívafi.

Við Axel töluðum síðast saman á gamlársdag og hann vissi þá – og líklega löngu fyrr – að maðurinn með ljáinn myndi ekki hlífa honum. Þótt við töluðum í einlægni um þessa alvarlegu stöðu þá gantaðist hann um leið og sagði verst að geta ekki lokið við stóra útsaumsmynd sem ætluð væri Bjargeyju.

Stórt skarð er höggvið í okkar raðir í utanríkisþjónustunni en þar kemur maður í manns stað. Svo er því miður ekki í lífi þeirra sem skiptu hann mestu og votta ég Guðnýju, Fríðu, Agli og Bjargeyju mína dýpstu hluttekningu. Einnig móður hans og systkinum og öðrum nákomnum.

Hvíl í friði, kæri vinur.

Kristín A. Árnadóttir.