[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn: Paul Thomas Anderson. Handrit: Paul Thomas Anderson. Aðalleikarar: Alana Haim og Cooper Hoffman. Bandaríkin, 2021. 133 mín.
Lakkríspítsa er nostalgísk ástarsaga sögð í gegnum skrýtin en mannleg augnablik. Titill kvikmyndarinnar vísar í fræga SoCal-plötubúð á áttunda og níunda áratugnum en hugtakið hefur einnig verið notað til þess að lýsa vínilplötum. Titillinn er því tilvitnun í fortíðina sem er viðeigandi í ljósi þess að kvikmyndin er í heild sinni ein stór tilvitnun í fortíð elskenda.

Í San Fernando-dalnum árið 1973 mætir hinn 15 ára gamli Gary Valentine í myndatöku í menntaskólann sinn þar sem hann hittir hina 25 ára gömlu Alönu Kane, aðstoðarmann ljósmyndarans, og stenst ekki mátið að daðra við hana. Sama kvöld hittast þau yfir kvöldverði en líkt og Alana ítrekar þá er ekki um að ræða stefnumót enda er hann alltof ungur fyrir hana. Stuttu síðar færir Anita, móðir Garys, honum þær fréttir að hún geti ekki farið með honum til New York á sýninguna með Lucy Doolittle sem hann er hluti af og gerir honum líka grein fyrir því að hann geti ekki farið til New York án forráðamanns. Gary er hins vegar þekktur fyrir að vera útsjónarsamur og áður en áhorfendur geta sagt „lakkríspítsa“ situr hann og sötrar kókið sitt í flugvélinni með draumastúlkuna og forráðamanninn, Alönu, sér við hlið, hæstánægður.

Paul Thomas Anderson leikur sér og brýtur línulega, klassíska söguformið en í hefðbundinni frásögn er einhver byrjun, miðja og endir. Lakkríspítsa er hins vegar kvikmynd mynduð af augnablikum tveggja einstaklinga. Hvert augnablik eða atriði er ekki endilega í samræmi við það næsta og oft óljóst hvaða hlutverki það gegnir í sögunni. Aðferð frásagnarinnar líkist því sem við sjáum í Nashville (Robert Altman, 1975) og Once Upon a Time... In Hollywood (Quentin Tarantino, 2019). Söguþráðurinn er flöktandi og óskýr þannig að áhorfendur bíða áhyggjufullir eftir því að eitthvað slæmt gerist en þetta er ekki slík mynd heldur ástarsaga. Fyrrnefndar kvikmyndir eiga að gerast á svipuðum tíma en Nashville , ólíkt hinum myndunum, á sér stað á sama tíma og kvikmyndin er tekin upp. Nashville hefur þó hlotið aðra merkingu í dag; hún er sönnun um liðinn tíma og innlit í fortíðina. Myndirnar Once Upon a Time... In Hollywood og Lakkríspítsa eru frekar endurlit til fortíðar. Mynd Tarantinos er endursögn á kvikmyndasögunni og áhersla lögð á vísanir í kvikmyndasöguna í stað frásagnarframvindu og er slíkt hið sama gert í Lakkríspítsu en þar er ekki viðfangsefnið kvikmyndasagan heldur saga tveggja einstaklinga. Kvikmyndin líkist þannig einu stóru endurliti til fortíðar, áhorfendur sjá stakar minningar, augnablik sem stóðu upp úr eins og þegar þau vinahjúin afhentu borgarbúum varnsrúm þegar olíukreppan stóð hvað hæst. Það að kvikmyndin gerist í fortíðinni styður þessa kenningu auk þess sem myndin er tekin upp á filmu og kvikmyndatakan er hlý og draumkennd líkt og um minningar sé að ræða.

Áður óþekktir leikarar, Alana Haim og Cooper Hoffman, fara með aðalhlutverkin, hlutverk Alönu og Garys. Bæði tvö leika listilega og fanga fullkomlega vandræðalega tímabilið milli þess að vera unglingur og fullorðinn einstaklingur og þær tilfinningaflækjur sem fylgja því. Það styrkir myndina að hafa óþekkta leikara; þau birtast á skjánum líkt og óskrifað blað sem gerir áhorfandanum erfiðara fyrir að mynda sér fyrirframskoðanir um karakterana. Öðrum stórstjörnum bregður þó fyrir á skjánum í skamma stund, líkt og Sean Penn og Bradley Cooper. Haim og Hoffman stela hins vegar athygli áhorfandans auðveldlega frá hinum fjallmyndarlegu karlmönnunum með sínum skemmtilega leik.

Lakkríspítsa er tilnefnd til Óskarsins sem besta mynd og ekki að ástæðulausu. Hún nær því stigi að vera bíóupplifun en ekki einungis frásagnarform. Paul Thomas Anderson manar áhorfendur í að sleppa rökhugsuninni og leyfa sér að njóta þess að lifa í augnablikinu með aðalpersónunum í stað þess að eltast við frásagnarframvinduna. Best væri að lýsa myndinni sem notalegri og hlýrri upplifun á fortíðinni sem nauðsynlegt er að sjá á bíótjaldi.

Jóna Gréta Hilmarsdóttir

Höf.: Jóna Gréta Hilmarsdóttir