Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Áform um að setja upp hraðbanka við hinn heimsfræga pylsuvagn Bæjarins bestu í miðbænum ná ekki fram að ganga. Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið neikvætt í fyrirspurn þess efnis.
Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 28. janúar sl. var lögð fram fyrirspurn um að koma fyrir hraðbanka á baklóð veitingastaðarins Hornsins að Hafnarstræti 15, samkvæmt tillögu Arkþing – Nordic ehf. Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnisstjóra.
Umræddur hraðbanki er á vegum Euronet. Fram kemur í fyrirspurninni að baklóð Hornsins sé hluti af iðandi torgi (Bæjartorgi) sem hafi nýlega verið endurnýjað og pylsuvagninn á torginu drægi að fjölda fólks. Það færi því vel á því að koma fyrir hraðbanka á torginu.
Fyrirhugað var að staðsetja hraðbankann meðfram kjallaratröppum veitingastaðarins Hornsins þar sem nú er einfalt viðarhandrið. Lagt var upp með að gera hraðbankann að eins konar borgarhúsgagni með áföstum bekk/gróðurkari.
Í umsögn verkefnisstjóra skipulagsfulltrúa kemur fram húsið á lóð nr. 15 við Hafnarstræti sé verslunar-og skrifstofuhúsnæði, byggt árið 1917 og njóti verndar ásamt Hafnarstræti 17.
Í gildandi deiliskipulagi sé ekki minnst sérstaklega á hraðbanka og því þurfi að meta erindið úr frá öðrum forsendum. Í gildandi deiliskipulagi sé lögð áhersla á að vernda og viðhalda upprunalegum byggingum og götumynd eldri Kvosbyggðar.
„Við hönnun torgsins var ekki gert ráð fyrir hraðbanka/borgarhúsgagni á þessum stað. Betur færi á að staðsetja hraðbanka inni í byggingum eða á stöðum þar sem ásýnd þeirra hefur ekki neikvæð áhrif á umhverfið,“ segir meðal annars í umsögninni.
Staðsetning hraðbanka á miðborgartorgi aftan við Hafnarstræti 15 samræmist ekki deiliskipulaginu og myndi hafa neikvæð áhrif á útlit torgsins og því sé ekki hægt að fallast á erindið.